Eiga þau möguleika án opinberra fjárveitinga?

Möguleikhúsið sendi frá sér harmþrungna fréttatilkynningu í gær um að menntamálaráðuneytið myndi ekki veita leikhúsinu styrk á yfirstandandi ári til að halda starfsemi sinni gangandi. Ráða má í orð forsvarsmanna leikhússins að þetta reiðarslag muni reynast afdrifaríkt fyrir íslenskt leikhúslíf.

Möguleikhúsið sendi frá sér harmþrungna fréttatilkynningu í gær um að menntamálaráðuneytið myndi ekki veita leikhúsinu styrk á yfirstandandi ári til að halda starfsemi sinni gangandi. Ráða má í orð forsvarsmanna leikhússins að þetta reiðarslag muni reynast afdrifaríkt fyrir íslenskt leikhúslíf. DV.is birti í kjölfar fregnanna frétt undir yfirskriftinni “Menntamálaráðuneytið hafnaði okkur.

Í frétt á heimasíðu Möguleikhússins segir:
Þá er það ljóst. Möguleikhúsið hlýtur engan stuðning frá Menntamálaráðuneytinu þetta árið. Þetta er okkur gríðarlegt áfall og setur framtíð leikhússins í fullkomið uppnám. Við munum að sjálfsögðu reyna hvað við getum til að fá okkar hlut réttan, en ef enginn stuðningur fæst er ljóst að draga verður verulega úr allri starfsemi leikhússins. Eftir tæplega átján ára starf við uppbyggingu barnaleikhúss þykja okkur þetta kaldar kveðjur.

Það er alveg ljóst að forsvarsmenn Möguleikhússins munu ekki geta rekið sína starfsemi áfram nema til komi fjármagn. Hins verður tæplega séð hvernig það teljast kaldar kveðjur að aðili A hætti að gefa aðila B peninga sem aðili C vann fyrir. Það er mjög óhollt þegar einhver ákveðin liststarfsemi hefur áskrift að opinberu fé. Meira að segja starfseminni sjálfri, því menn vita sjaldnast hvert þeir eiga að snúa sér þegar ríkisvaldið ákveður að nú skuli landinn njóta annars konar listar – dúsunni kippt burt.

Þrátt fyrir leikhúsið hafi ekki dottið í lukkupottinn þetta árið, nema heildarstyrkveitingar menntamálaráðuneytisins til leiklistarverkefna á þessu ári um 66 milljónum króna. Það er í sjálfu sér ekki há tala, engu að síður er vert að spyrja spurninga um hvort svona styrkir séu æskilegir. Hversu langt á að ganga? Hvaða kröfum þarf fólk að mæta til að hljóta styrki af þessu tagi? Síðan hvenær urðu starfsmenn menntamálaráðuneytisins hæfastir til að ákveða hvaða list er landanum samboðin? Hvar verða mörkin dregin?

Raunar hefur mikill fjöldi pistla um nákvæmlega þetta efni verið skrifaðir áður, og jafnan vinsælt að benda á einstök, grilluð dæmi og spyrja af hverju í ósköpum X og Y eigi heimtingu á peningum skattborgara. Þetta á ekki bara við um úthlutanir til leiklistaverkefna, heldur einnig um almenn fjárlögin. Allir geta flett upp fjárlögunum og skoðað úthlutanir til mismunandi fáránlegra og óþarfra verkefna, en það verður ekki gert hér.

Hins vegar hefur sá sem þetta skrifar gott ráð á reiðum höndum fyrir forsvarsmenn Möguleikhússins. Samkvæmt upplýsingum frá leikhúsinu sækja um 10-20 þúsund manns sýningar þangað árlega. Þrátt fyrir að um afskaplega grófa áætlun sé að ræða, þá er í öllu falli um nokkurn fjölda fólks að ræða. Fjöldi þeirra sem sækir sýningar Möguleikhúsinu (3-6%) er því allt að mögulega litlu minni er fylgi Framsóknarflokksins á landsvísu samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum (7,4%), en það er önnur og lengri saga.

Hér með er því mælst til þess að Möguleikhúsið leiti á náðir einhverra þeirra fjölmörgu stórfyrirtækja sem finnast á Íslandi. Einkaaðilar hafa í síauknum mæli tekið þátt í menningarmálum á síðustu árum, og er það skemmst að minnast bankanna. Einn aðalstyrktaraðili Sinfóníuhljómsveitar Íslands er stórt fjárfestingafélag, Spron stendur við bakið á Borgarleikhúsinu, svona mætti lengi telja. Fyrirtæki sjá sér jafnan hag í því að styrkja menningarverkefni af ýmsu tagi, enda hluti markaðssetningar þeirra og ágæt aðferð til að ná til viðskiptavina. Möguleikhúsið á klárlega möguleika.

Latest posts by Þórður Gunnarsson (see all)