Fjárlagahallinn er nú meiri kallinn

Ef íslenska þjóðarbúið á að eiga sér viðreisnar von á næstu árum er algert lykilatriði að stjórnvöld líti á ríkisfjármálin með raunhæfum hætti og taki upp niðurskurðarhnífinn. Kynjuð hagstjórn mun því miður ekki duga ein og sér til að loka fjárlagagatinu.

Ef íslenska þjóðarbúið á að eiga sér viðreisnar von á næstu árum er algert lykilatriði að stjórnvöld líti á ríkisfjármálin með raunhæfum hætti og taki upp niðurskurðarhnífinn. Kynjuð hagstjórn mun því miður ekki duga ein og sér til að loka fjárlagagatinu.

Í stjórnarsáttmála Samfylkingarinnar og Vinstrigrænna má finna stóryrði um „sparnaðarátak í ríkisfjármálum, sparnaðarátak og verkefnisstjórn í ríkisfjármálum.” Þrátt fyrir þessi stóryrði er fátt sem bendir til þess að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir því tröllvaxna verkefni sem er framundan. Þvert á móti, því í stjórnarsáttmálanum má finna ýmis loforð sem munu tæpast hafa annað í för með sér en aukin útgjöld. Fyrirhugað stjórnlagaþing, sem mun þó aðeins vera ráðgefandi ef marka má ummæli forystu Samfylkingarinnar, er talið munu kosta nokkra milljarða. Veita á bændum sem vilja skipta yfir í lífræna ræktun „aðlögunarstuðning” og að sama skapi á að endurskoða stuðningskerfi landbúnaðarins til að auðvelda nýliðun í greininni. Auðvitað þarf líka að efla Jafnréttisstofu í anda kynjaðrar hagstjórnar.

Endurskoðun fjárlaga situr því á hakanum á meðan dýrmætum tíma er eytt í gæluverkefni stjórnmálamanna. Væntur fjárlagahalli verður 153 milljarðar samkvæmt nýjustu fjárlögum, en sjálf ríkisstjórnin hefur sagt að hallinn stefni núna í 170 milljarða. Á tveggja ára tímabili hafa útgjöld ríkissjóðs aukist um yfir 40% á meðan tekjur dragast saman um 17%. Allir sjá að um er að ræða reikningsdæmi sem getur alls ekki gengið upp.

Útgjöld til ráðuneyta munu aukast sé tekið mið af fjárlögum fyrir 2009. Framlög til utanríkisráðuneytisins aukast þannig um 62% frá árinu 2007 og samgöngumál fá þriðjungi hærra framlag. Helstu lausnir vinstristjórnarinnar við skuldavandaheimilanna felst í auknum bótagreiðslum, þá helst í formi vaxtabóta og barnabóta. Því þarf ekki að koma á óvart að framlög til félags- og tryggingamálaráðuneytis aukast um 62% á tveggja ára tímabili, þó hluta þeirrar hækkunar megi rekja til færslu málaflokks tryggingamála frá heilbrigðisráðuneytinu til félagsmálaráðuneytis.

Ef íslenska hagkerfið á að eiga möguleika á því að hefja sig aftur til flugs er grundvallaratriði að koma ríkisfjármálum í skikkanlegt horf. Slíkt mun meðal annars greiða fyrir lækkun stýrivaxta, en viðvarandi hallarekstur á ríkissjóði grefur undan trausti á gjaldmiðli landsins, enda þarf ríkið á endanum að fjármagna hallann með lántökum. Þá skapast síður aðstæður fyrir skaplegu vaxtastigi, en stýrivextir hafa mikil áhrif á umfang vaxtagjalda ríkissjóðs á næstu árum. Samkvæmt fjárlögum munu vaxtagjöld ríkissjóðs tæplega þrefaldast á tveggja ára tímabili og nema tæplega 90 milljörðum króna á þessum ári. Það er stór hluti árlegrar arðsemi íslensks sjávarútvegs, en þeim atvinnuvegi er ætlað stórt hlutverk í gjaldeyrisöflun á næstu árum.

Hvað er þetta fólk eiginlega að hugsa?

Latest posts by Þórður Gunnarsson (see all)