Bein kosning borgarstjóra?

Forystumenn Sjálfstæðisflokks og F-lista í Reykjavík hafa þurft að sæta mikilli gagnrýni síðustu daga og tel ég þessar árásir oft hafa verið afar ósanngjarnar. Kjarni umræðunnar ætti vitaskuld að vera hin tíðu borgarstjóraskipti á undanförnum árum og slæmar afleiðingar þeirra fyrir hag borgarinnar. Í umræðunni hefur hins vegar lítið farið fyrir hugmyndum að lausnum. Að mínu mati ættu Reykvíkingar að eiga þess kost að kjósa sér leiðtoga þvert á flokkspólitík. Slíkt gæti tryggt meiri stöðugleika embættisins en það virðist nauðsynlegt á nýjum tímum stjórnmála höfuðborgarinnar.

Forystumenn Sjálfstæðisflokks og F-lista í Reykjavík hafa þurft að sæta mikilli gagnrýni síðustu daga og tel ég þessar árásir oft hafa verið afar ósanngjarnar. Kjarni umræðunnar ætti vitaskuld að vera hin tíðu borgarstjóraskipti á undanförnum árum og slæmar afleiðingar þeirra fyrir hag borgarinnar. Í umræðunni hefur hins vegar lítið farið fyrir hugmyndum að lausnum. Að mínu mati ættu Reykvíkingar að eiga þess kost að kjósa sér leiðtoga þvert á flokkspólitík. Slíkt gæti tryggt meiri stöðugleika embættisins en það virðist nauðsynlegt á nýjum tímum stjórnmála höfuðborgarinnar.

Nýr meirihluti í Reykjavíkurborg hlýtur þessa daga mikla gagnrýni. Ég verð að viðurkenna að ég er ennþá að melta þetta allt saman. Það var augljóst að Tjarnarkvartettsmeirihlutinn sem stofnaði til meirihlutasamstarfs síðastliðið haust var ekki einhuga um eitt eða neitt og gat ekki komið sér saman um málefnasamning á þeim 100 dögum sem hann sat við völd. Það er því fagnaðarefni að nú skuli hafa verið myndaður starfhæfur meirihluti. Auðvitað var það lýðræðisleg skylda fyrrum minnihluta að ganga til samninga við Ólaf F. Magnússon og láta valdaskiptin ganga eins fljótt fyrir sig og auðið var til að tryggja borginni sem fyrst þann stöðugleika sem hún þarfnast. Það var engin ástæða til að bíða frekar eftir að hið vonlausa fjögurra flokka samstarf spryngi í loft upp en öllum mátti ljóst vera að slíkt var einungis tímaspursmál. Með nýja meirihlutanum hafa tvímælalaust myndast tækifæri til að stíga ýmis framfaraskref borgarbúum til heilla, skref sem ekki hefði verið unnt að taka með óbreyttum meirihluta. Stjórnmálaflokkar hljóta að sækjast eftir aðild að meirihlutasamstarfi til að ná fram málefnum sínum enda gerir kerfið sem við búum við ráð fyrir slíku, þ.e. þegar einn flokkur fær ekki hreinan meirihluta. Það getur varla talist sök Ólafs eða Vilhjálms að Tjarnarkvartettinn náði ekki saman.

Eftir því sem mér sýnist þá er fyrst og fremst deilt um málefnasamning nýja meirihlutans og persónu þess sem nú situr í stóli borgarstjóra. Það getur varla verið eftisjá í sundurþykkum fjögurra flokka meirihluta, sem aðallega var skipaður vinstrimönnum í þokkabót, þegar í boði er meirihluti Sjálfstæðismanna og eins fyrrverandi sjálfstæðisfélaga með skýran málefnasamning til að vísa veginn. Á sama tíma halda hinir valdalausu og sáru vinstrimenn því nú fram að það sé óásættanlegt að listi með lítið fylgi, og einungis einn fulltrúa, fái embætti borgarstjóra. Slíkt er þó fráleitt einsdæmi. Nægir í því efni að vísa til þess þegar Sigurður heitinn Geirdal varð bæjarstjóri í Kópavogi þegar meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við stjórn bæjarins á árinu 1991. Þá var Sigurður einmitt eini bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins.

Aukin umfjöllun um embætti borgarstjóra er æskileg að mínu mati. Sjálfur hef ég engan áhuga á því að taka þátt í umræðu um veikindi einstakra stjórnmálamanna í fortíðinni eða óútkljáðar flokksdeilur sem ekki verður leyst úr fyrr en í næsta prófkjöri eða sveitarstjórnarkosningu. En varðandi embætti borgarstjóra er sagt að ráðstöfun embættisins í pólitískum hrossakaupum sé of sveiflukennd og veiki bæði embættið sjálft og tiltrú kjósenda. Hér er margt órætt og nauðsynlegt að varpa ljósi á þær mögulegu lausnir sem til greina koma.

Umræða um að kjósa borgarstjóra Reykjavíkur í beinni kosningu er ekki ný af nálinni. Slík umræða var í gangi hér fyrir um það bil 100 árum. Á fyrstu árum 20. aldar stóðu deilur um skipan í þetta æðsta embætti höfuðborgarinnar. Niðurstaðan varð að lokum sú að borgarstjóri skyldi kjörinn af borgarstjórn en ekki beint af íbúum Reykjavíkur. Það fyrirkomulag hefur gengið vel lengst af, meðal annars vegna stöðugrar forystu Sjálfstæðisflokks gegnum áratugina. Kosningaúrslit að undanförnu hafa því miður ekki verið afdráttarlausar og af þeim ástæðum hefur verið óvissa um það hver skuli verða borgarstjóri í hvert sinn. Tíð borgarstjóraskipti vinstrimanna á umliðnum árum undirstrika þetta (Ingibjörg – Þórólfur – Steinunn – Dagur). Það er kominn tími til að þessum útskiptingum linni og að embætti borgarstjóra öðlist aftur sinn fyrri virðuleika. Til þess að svo verði má þetta embætti ekki verða sífellt bitbein kosningabandalaga og hrossakaupa milli flokka.

Ég tek ekki undir þá hugmynd að borgarstjórn ráði óháðan borgarstjóra eins og nokkurs konar framkvæmdastjóra og lýsi hér með eftir umræðu um möguleika á beinni kosningu borgarstjóra Reykvíkinga. Ég tel tímabært að okkur borgarbúum verði gert kleift að kjósa sameiginlegan leiðtoga þvert á flokkspólitík.

rej1@hi.is'
Latest posts by Reynir Jóhannesson (see all)