Hverjum er um að kenna?

Ein djúpstæðasta kreppa síðari áratuga ríður nú yfir heimshagkerfið allt. Um mitt sumar 2007, þegar allt virtist vera í blóma fóru hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum að gefa eftir, og allur heimurinn fylgdi í kjölfarið. Ástæðan var sú að vanskil af húsnæðislánum höfðu skyndilega aukist mikið, en fjármálafræðingar stóru fjárfestingabankanna þar í landi höfðu pakkað húsnæðislánum, góðum sem slæmum, inn í skuldabréfavafninga og selt áfram.

Þegar afborganir þeirra sem höfðu tekið svokölluð undirmálslán fóru að verða stopulli hafði það áhrif inn í sjóðstreymi stórra fjárfestingasjóða. Slíkt hefur keðjuverkandi áhrif, og um leið og einn sjóður lendir illa í því, fer ákveðin hjarðhegðun af stað og skelfing grípur um sig. Hagkerfi allra landa í dag er orðið svo samtvinnað, að áföll á húsnæðismarkaði í Bandaríkjunum hefur áhrif á alla fjármálamarkaði og þeirra sem sækja fé þangað, þar á meðal íslensku bankarnir sem þá voru og hétu. Alþjóðlega fjármálakreppan var það sem hratt atburðarásinni á Íslandi af stað – en hver var rót vandans hér heima?

Frá árinu 2001 hefur Seðlabanki Íslands starfað eftir verðbólgumarkmiði, en hlutverk bankans er að sama skapi að varðveita fjármálastöðugleika. Þverpólitísk samstaða var um þetta nýja fyrirkomulag peningamála. Í litlu, opnu hagkerfi með örmynt – eins og Íslandi, þar sem innflutningur er veigamikill, verður verðbólgumarkmið alltaf að gengismarkmiði. Enda byggist talverður hluti vísitölu neysluverðs, sem mælir verðbólgu, á innfluttum vörum. Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti samkvæmt formúlum nýkeynesískrar hagfræði þegar verðbólguþrýstingur jókst.

Afleiðingin varð hins vegar gríðarlegt innstreymi erlends fjármagns, enda ekki amalegt að fá ávöxtun fjármagns í tveggja stafa tölu þegar vaxtastig í heiminum var í sögulegu lágmarki. Hins vegar fór fjármálastöðugleikinn út um gluggann við það innstreymi, enda fóðraði það bankana á erlendu fjármagnaði sem gerði þeim kleift að ráðast í miklar yfirtökur og skuldsetningu erlendis. Skömmu áður en íslenska fjármálakerfið féll voru erlendar skammtímaskuldir þjóðarbúsins tólffaldar á við gjaldeyrisforða Seðlabankans, sem gerði honum ómögulegt að geta stutt við bankana á ögurstundu. Það er nú rætt meðal hagfróðra manna að verðstöðugleikinn sem næst fram með verðbólgumarkmiði skapi sjálfkrafa fjármálaóstöðugleika, enda treysta menn sér frekar til mikillar skuldsetningar ef þeir sjá fram á litlar sveiflur í verðlagi og þar með væntan fjármagnskostnað.

Sannleikurinn er sá að íslensku bankarnir féllu þrátt fyrir stefnu Sjálfstæðisflokksins, en ekki vegna hennar. Varla var það stefna Sjálfstæðislflokksins sem felldi stóra og rótgróna fjárfestingabanka í Bandaríkjunum?

Íslensku bankarnir urðu einfaldlega of stórir og þeir skuldsettu sig alltof mikið. Eftirlitsaðilar á borð við Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann brugðust. En ekki voru einfaldlega fyrir hendi – frekar en hvergi annars staðar í heiminum, reglur sem meinuðu fyrirtækjum að skuldasetja sig eða vaxa of hratt. Krosslánastarfsemi var vandamál – til dæmis varð staða Landsbankans erfið eftir að ríkið keypti tók yfir 75% hlutafjár í Glitni, enda einn stærstu eigenda bankans með stórt lán hjá Landsbankanum með veð í Glitnisbréfunum.
Vandamálið liggur einnig í tilvist seðlabanka, en meðan þeirra starfsemi er fyrir hendi með óbreyttu sniði er uppbygging ríkistryggðar fjármálastóriðju óumflýjanleg til lengri og skemmri tíma.

Regluverk hér á Íslandi var að mestu leyti sambærilegt sem gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Íslendingar eru hins vegar fórnarlömb gloppóttrar löggjafar Evrópusambandins um innistæðutryggingar, sem orsakar nú að Íslendingar þurfa hugsanlega að taka á sig talsverðar skuldbindinga vegna netreikninga íslenskra banka erlendis. Það er að segja ef ekki rætist úr þeirri glæsilegu niðurstöðu sem Steingrímur J. Sigfússon spáði.

***

Þess mátti vænta að Íslendingar yrðu ríkjandi öflum reiðir þegar fjármálakerfið féll eins og spilaborg. Hins vegar virðast þær kosningar sem fara fram í dag eingöngu til þess fallnar að refsa Sjálfstæðisflokknum – engin kemur með lausnir á aðsteðjandi vanda. Greint var frá því að Sjálfstæðisflokkurinn hefði þegið stóra styrki í lok árs 2006. Þær styrkveitingar hafa síðan verið sett í skringilegt samhengi og vinstrimenn og fjölmiðlar lagst á eitt með að halda málefnalegri umræðu í lágmarki og benda á eitthvað allt annað. Staðreyndin er sú að allir flokkar gerðust sekir um að þiggja stóra styrki eða niðurfellingu stórra skulda. Það á eftir að koma í ljós, þó að sú staðreynd að allir séu sekir réttlæti ekki verknaðinn. Stærsta högg sem hægt er að veita Íslendingum er hins vegar vinstristjórn. Engin þeirra fyrr eða síðar á lýðveldistímanum hefur setið heilt kjörtímabil, og allar hafa þær hækkað skatta og drepið þrótt landsmanna í dróma.

Latest posts by Þórður Gunnarsson (see all)