Grætt á gjaldeyrishöftum

Gjaldeyrishöft hvíla nú sem mara á íslensku atvinnulífi. Rökin fyrir höftunum eru þær gífurlegu upphæðir sem eru bundnar í margumræddum jöklabréfum, en eins og staðan er í dag fá aðeins vaxtagreiðslur af þeim bréfum að fara úr landi. Stjórnvöld reyna þannig að tappa smám saman af greftrinum sem myndast í því kýli sem gjaldeyrishöftin eru óneitanlega á íslensku efnahagslífi. Hægt er að hagnast á þessu ástandi.

Í pistli sem birtist á Deiglunni í þessari viku var rætt um hvernig ástand sem helgast af takmörkunum eða stífum reglusetningum geta skapað gróðatækifæri fyrir þá sem búa yfir betri upplýsingum og þekkingu en meginþorri manna. Kerfi á borð við haftastýrðan gjaldeyrismarkað er líklega besta dæmið um slíkt ástandi. Fyrir þá sem sitja á sparnaði upp á nokkrar milljónir er auðvelt að spila á gjaldeyrishöftin og hagnast á persónulega, á kostnað íslenskra skattgreiðenda.

Eins og staðan er núna kostar ein evra á Íslandi rúmlega 181 íslenska krónu. Gengi krónunnar á aflandsmarkaði er öllu lægra, eða um 20 prósentum. Það þýðir að utan Íslands kostar ein evra um 217 íslenskar krónur. Bilið milli íslenska gengisins og erlenda gengisins hefur minnkað á undanförnum mánuðum. Þó er staðan sú að íslenska krónan er líklega of sterk hér heima, en of veik erlendis og hið „rétta gengi“ liggur líklega einhvers staðar í miðjunni. Seðlabanki Íslands er því de facto að niðurgreiða erlendan gjaldmiðil fyrir þá íslensku aðila sem uppfylla nauðsynleg skilyrði til að versla erlendan gjaldeyri hér á landi. Það er auðvitað gert á kostnað íslenskra skattgreiðenda. Nota má lán frá AGS eða öðrum hressum töppum í slíkar niðurgreiðslur.

Hér er því ráð: Stofnið skúffufyrirtæki í Þýskalandi, Frakklandi eða öðru landi þar sem evran gegnir hlutverki lögeyris. Festið kaup á einhverjum hlut – t.d. gröfu, vörubíl eða öðru iðnaðartæki. Samkvæmt lögum um gjaldeyrisviðskipti er ekki hægt að eiga viðskipti með fjármálagerninga erlendis, og því verður einhver snertanlegur hlutur fyrir valinu, Segjum sem svo að viðkomandi hlutur kosti 50.000 evrur. Þar sem skúffufyrirtækið er í eigu íslenskra aðila senda þeir kvittun fyrir kaupunum á viðkomandi hlut til Íslands þar sem Seðlabankinn tekur ákvörðun um hvort viðkomandi viðskipti séu réttlætanleg til að veita gjaldeyri til þeirra. Þar sem græja á borð við vörubíl myndi líklega lenda innan marka laganna selur Seðlabankinn íslenska fyrirtækinu 50.000 evrur fyrir 9.050.000 krónur.

Samkvæmt aflandsgenginu er viðkomandi hlutur þó 10.850.000 íslenskra króna virði. Seljið viðkomandi hlut erlendis og semjið um greiðslu í íslenskum krónum. Komið með peninginn heim til Íslands. Þið hafið hagnast um 1.800.000 milljónir króna. Endurtakið. Oft.

Með þessu skrifum er ekki verið að hvetja til vafasamra athæfa eða viðskiptahátta – eingöngu verið að benda á að haftabúskapur skapar ávallt gróðatækifæri fyrir þá sem kunna að spila á kerfið. Slík háttsemi er þó ekki stærsti hluti skaðans sem höftin valda, enda koma höftin niður á allri þjóðinni, þá ýmist í formi kostnaðar við niðurgreiðslu Seðlabankans á erlendum gjaldeyri til valinna fyrirtækja og of lágu gengi krónunnar sem langs tíma sem geirneglir niður þær kostnaðarhækkanir sem þegar hafa komið fram. Hefur annars einhver orðið var við styrkingu krónunnar eftir að höftin voru sett á?

Latest posts by Þórður Gunnarsson (see all)