Skemmtilegasti forsetaframbjóðandinn

Ef Mike Huckabee verður næsti forseti Bandaríkjanna mun það skapa ýmis vandamál. En eitt er víst: hann er á góðri leið með að verða skemmtilegasti forsetaframbjóðandi sögunnar.

Ef Mike Huckabee verður næsti forseti Bandaríkjanna mun það skapa ýmis vandamál. Til dæmis eru hugmyndir hans um skattheimtu býsna róttækar, það verður sennilega erfitt að finna orð sem rímar við eftirnafn þessa fyrrum ríkisstjóra Arkansas og ekki er víst hversu auðvelt verði að samþykkja Chuck Norris sem forsetafrú. En eitt er víst: Huckabee er á góðri leið með að verða skemmtilegasti forsetaframbjóðandi sögunnar.

Ferill Huckabee er nokkuð óvenjulegur samanborið við aðra frambjóðendur. Hann var fyrsti karlmaðurinn í fjölskyldunni til að ljúka framhaldsskóla og gerðist Baptista-prestur í Arkansas árið 1980 eftir að hafa menntað sig á því sviði. Áratug síðar var hann byrjaður að daðra við stjórnmál og árið 1996 varð hann ríkisstjóri Arkansas og gegndi þeirri stöðu fram til ársins 2007.

Í ríkisstjórnartíð sinni gerði hann gagngerar breytingar á heilbrigðis- og menntakerfum ríkisins, auk þess að vinna að umhverfismálum. Árið 2004 vakti hann mikla athygli í Bandaríkjunum þegar hann léttist um 50 kíló eftir að hafa verið greindur með alvarlega sykursýki, og reynslu sinni lýsti hann í bókinni Quit Digging Your Grave with a Knife and Fork(2005).

Ef litið er framhjá málefnum er það sennilega framkoma Huckabee og auglýsingar hans sem hafa vakið mesta athygli. Þar er fremst í flokki ein allra besta kosningaauglýsing síðari tíma þar sem Huckabee og harðnaglinn Chuck Norris fara á kostum. Opinbera ástæðan fyrir samvinnu þessara ólíku en áhugaverðu manna er að hinn íhaldssami Chuck gat samsinnt sér einstaklega vel með helstu stefnumálum „Huck“; leggja skattstofuna niður, taka hart á innflytjendamálum og verja réttindi einstaklingsins í Bandaríkjunum.

En þrátt fyrir líflega framkomu er hann þó langt frá því að vera trúður sem gerir lítið úr kosningabaráttunni. Hann hefur skýra sýn á flest megin málefnin sem eru í deiglunni og hefur hingað til átt auðvelt með að svara krefjandi og viðkvæmum spurningum á sannfærandi hátt. Það sem helst aðgreinir Huckabee frá öðrum frambjóðendum repúblikana er að hann vill leggja niður Skattstofu Bandaríkjanna, hann hefur hæfilegan skammt af skopskyni og tekur sjálfan sig ekki of alvarlega, auk þess sem hann er afar trúaður og tilbúinn að tala um þá skoðun sína á mannamáli. Enn fremur vill hann bætamenntakerfi landsins mikið.

Þrátt fyrir margar afgerandi hugmyndir um breytingar eru það hugmyndir hans um skattheimtu í Bandaríkjunum sem vekja mesta athygli í málefnaflórunni. Hann vill afnema alla skattheimtu alríkisins og tekjuskatta, og taka upp í staðinn 23% neysluskatt. Nánari upplýsingar má sjá hér.

Það er margt spennandi á seyði í bandarísku forkosningum. Hart er tekist á um helstu málefni og enginn skortur á skítkasti eða ærumeiðingum þegar hugsjónir og rök eru á þrotum. Blökkumaður, mormóni og kona eru í framvarðasveit frambjóðenda, svo til allir eru „Washington outsiders“ og enginn vill tengja sig við sitjandi forseta. Ekki skemmir fyrir að andstæðir pólar mætast reglulega í kappræðum og allt hjálpast þetta til við að gera baráttuna afskaplega áhugaverða fyrir fjöldann. Vonandi heldur það áfram sem allra lengst og eitt er víst: Mike Huckabee mun leggja sitt af mörkum til að svo megi verða.

Fyrir nánari upplýsingar um Mike Huckabee:

www.mikehuckabee.com
http://search.eb.com/eb/article-9439074
http://projects.washingtonpost.com/2008-presidential-candidates/mike-huckabee/

Nokkur áhugaverð myndbrot með Mike Huckabee:

Samantekt úr ýmsum myndbrotum
http://www.youtube.com/watch?v=3sdZY3oSupU&NR=1
Trúmál og stjórnmál
http://youtube.com/watch?v=lt6sxY6LaW4&feature=user
Samkynhneigðir í herþjónustu
http://www.youtube.com/watch?v=Tl_LTJuGTB4&feature=related
Þróunarkenningin
http://www.youtube.com/watch?v=n-BFEhkIujA&feature=related

Latest posts by Þorgeir Arnar Jónsson (see all)