Annað tækifæri

Þeirri klisju er nánast undantekningalaust haldið á lofti fyrir hverjar forsetakosningar í Bandaríkjunum að um sé að ræða einar þær mikilvægustu í langan tíma. Og nánast undantekningalaust er sú klisja ekki rétt. En í þetta sinn má færa fyrir því sterk rök að svo sé – að minnsta kosti þegar kemur að utanríkismálum.

Fyrir sex mánuðum síðan virtist einsýnt hvernig kosningabaráttan á milli helstu frambjóðenda Rebúblikanaflokksins og Demókrataflokksins myndi þróast: Utanríkismál – einkum stríðsreksturinn í Írak – ættu eftir að skipa veigamestan sess í allri umræðu kosningabaráttunar og að lokum yrðu það Hillary Clinton og Rudy Giuliani sem færu með sigur af hólmi. Þau voru hinir augljósu framjóðendur.

Þetta hefur breyst. Tvennt skiptir mestu máli í því samhengi: Annars vegar sú staðreynd að dregið hefur úr mannfalli í Írak í kjölfar fjölgunar í herliði Bandaríkjanna og hins vegar auknar vísbendingar um að bandaríska hagkerfið sé að sigla inn í samdráttarskeið. Í september á síðasta ári sögðu 35% kjósenda að stríðsreksturinn í Írak væri mikilvægasta málefni kosningabaráttunar. Nýjustu skoðanakannanir sýna aftur á móti að þetta hlutfall er nú farið niður í 23% – prósentustigi minna heldur en efnahags- og atvinnumál.

Það verður teljast líklegra heldur en hitt að sá munur eigi eftir að halda áfram að aukast á næstu mánuðum reynist mat meðal annars bandarísku fjárfestingabankanna Goldman Sachs og Merrill Lynch rétt, en samkvæmt nýlegum spám bankanna er samdráttarskeið nú þegar hafið í Bandaríkjunum, eða við það að hefjast. Þumalputtareglan er sú að í slíku árferði vegni demókrötum jafnan betur heldur en repúblikönum.

Kraftbirtingarform þessarar þróunar er nú þegar farið að gæta í kosningabaráttu demókrata – og sumu leyti einnig hjá repúblikönum. Það birtist einkum í því að helstu frambjóðendur demókrata hafa látið í ljós miklar efasemdir um gildi fríverslunar og aukinnar alþjóðavæðingu efnahagslífsins. Í viðtali við Financial Times á liðnu ári sagðist Clinton telja að sígildar kennisetningar fríverslunar fengju ekki staðist á tímum alþjóðavæðingar. Hún vísaði meðal annars til skrifa hagfræðingsins Paul Samuelson, sem hefur leitt að því líkur að kenningar breska hagfræðingsins David Ricardo um hlutfallslega yfirburði ríkja – flestar kenningar um milliríkjaviðskipti grundvallast á þeim – lýsi ef til ekki eðli alþjóðahagkerfisins á 21. öldinni.

Sagt skilið við arfleifð Bill Clinton
Lítill ágreiningur virðist vera á milli Obama og Clinton í þessum efnum. Obama segist almennt hlynntur fríverslun – hið sama segir Clinton – en hefur hins vegar lýst yfir áhyggjum um að fríverslunarsamningar Bandaríkjanna kveði ekki á um gagnkvæm umhverfis- og vinnuverndarákvæði. Hann vill einnig endurskoða NAFTA-fríverslunarsamkomulagið, með það að augnamiði að hinn venjulegi almenningur landsins njóti góðs af því – en ekki aðeins Wall Street.

Það ber þó að gelda sérstökum varhug við þessum málflutningi demókrata, einkum í ljósi þess að Demókrataflokkurinn er nú þegar með meirihluta á Bandaríkjaþingi. Í nýrri greiningu Eurasia Group, ráðgjafafyrirtækis í greiningu á pólitískri áhættu fyrir fjárfesta, kemur fram að pólitískir og efnahagslegir þættir í Bandaríkjunum á þessu ári geri það að verkum að töluverðar líkur séu á því að stemmning myndist fyrir aukinni verndarstefnu á vettvangi stjórnmála. Samkvæmt mati Eurasia er vaxandi andúð bandarískra stjórnmálamanna í garð alþjóðavæðingar helsta hættan sem alþjóðlegum fjármálamörkuðum stafar af á árinu.

Að sumu leyti má halda því fram að þessi afstaða demókrata sé skiljanleg. Skoðanakannanir varpa ljósi á það að almenningur hefur meiri efasemdir en áður um efnahagslegan ábata fríverslunar. Sú andstaða markast meðal annars af því að samkeppnishæfni Bandaríkjanna í mörgum hefðbundnum framleiðsluiðnaði hefur minnkað. En það segir aðeins hálfa söguna. Aukin alþjóðaviðskipti hafa tryggt yfirburði Bandaríkjamanna í öðrum geirum og heildarávinningur hefur verið mun meiri heldur en tapið. Nýleg skýrsla Council on Foreign Relations sýnir að alþjóðaviðskipti hafa aldrei skipt efnahag landsins jafn miklu máli eins og um þessar mundir: Alþjóðaviðskipti sem hlutfall af þjóðarframleiðslu Bandaríkjanna hafa meira en tvöfaldast á þrjátíu árum, eða úr 12% í 25%. Útflutningur Bandaríkjanna skýrði auk þess um 25% af þeim mikla hagvexti sem var í Bandaríkjunum á tíunda áratugnum og er talið að hafi átt þátt í því að skapa um tólf milljónir starfa.

Eitt mikilvægasta afrek Bill Clintons í valdatíð sinni sem forseti var að gerbreyta ímynd Demókrataflokksins í þá veru að hann væri boðberi kröftugs efnahagslífs: Hagvöxtur yrði tryggður með því að leggja áherslu á vöxt og viðgang alþjóðaviðskipta í opnu og frjálsu markaðshagkerfi. Það væri þess vegna miður ef Demókrataflokkurinn tæki þá ákvörðun að það sé ekki þess virði að viðhalda þeirri arfleifð.

Reynslueysi í utanríkismálum
Stjórnmálaskýrendur segja að auknar efasemdir Clinton í garð fríverslunar verði að skoða í því ljósi að sé hún að reyna að höfða til miðjunnar; annars vegar talar hún máli þeirra sem standa höllum fæti gagnvart aukinni alþjóðavæðingu efnahagslífsins og hins vegar með því að sýnast föst fyrir í utanríkis- og öryggismálum. Ólíkt Obama greiddi Clinton atkvæði með innrásinni í Írak – eitthvað sem Obama þreytist seint á að rifja upp – en engu að síður hefur Clinton tekist að breyta um afstöðu og á sama tíma haldið trúverðugleika sínum.

Það sem einkennir hins vegar helstu frambjóðendur beggja flokka þegar kemur að utanríkismálum er reynsluleysi í málaflokknum. Og þrátt fyrir að Obama hafi reynt að telja sér það til tekna að hann hafi búið í Indónesíu sem barn, þá breytir slíkt engu.

Á þessu er þó ein veigamikil undantekning: John McCain nýtur virðingar sem nær út fyrir flokksraðir fyrir málflutning sinn og þekkingu á utanríkismálum – enda þótt skoðanir hans séu alls ekki óumdeildar. Eftir því hefur jafnframt verið tekið að hann hefur mildast í afstöðu sinni gagnvart írönskum stjórnvöldum, en fyrir skemmstu lýsti hann því yfir að hann væri opin fyrir því að hefja viðræður við Írana. Slíkri stefnubreyting af hálfu McCain ber að fagna enda gefur hún til kynna að hann sé tilbúinn til að sýna nauðsynlegt raunsæi í utanríksmálum – sem oftar en ekki hefur skort á í valdatíð Bush-stjórnarinnar – og víkja til hliðar hugmyndafræðilegum þáttum í því augnamiði að vinna að framgangi mikilvægari hagsmuna. Í þessu tilfelli kjarnorkuvopnaáforma Írana og stöðugleika í Mið-Austurlöndum.

Versti frambjóðandi repúblikana?
Ekkert slíkt virðist hins vegar á döfinni hjá Giuliani. Og kemur kannski ekki á óvart: Þegar Giuliani valdi Norman Podhoretz sem einn nánasta ráðgjafa sinn í utanríkismálum var það staðfest sem sumir hverjir höfðu óttast: Að Giuliani meinti eitthvað með málflutningi sínum í kosningabaráttunni. Giuliani hefur opinberlega talað fyrir því – ásamt John McCain og Mitt Romney – að Bandaríkin geri fyrirbyggjandi hernaðarárás á Íran til að stöðva áform klerkastjórnarinnar um að koma sér upp kjarnorkuvopnum. En hann er jafnvel reiðubúinn til að ganga enn lengra í þeim efnum; ef slík hernaðarárás dugar ekki til að halda aftur af Írönum hefur Giuliani sagst ekki útiloka að beita kjarnorkuvopnum til að ná því markmiði.

En hversu alvarlega ber að taka málflutning Giuliani? Í ljósi þess að Podhoretz er nú orðin einn helsti ráðgjafi hans í utanríkismálum hlýtur að liggja einhver alvara að baki. Podhoretz, iðulega nefndur sem einn af guðfeðrum svokallaðra nýíhaldsmanna í Bandaríkjunum, skrifaði grein sl. sumar í Wall Street Journal þar sem hann kallaði eftir hernaðarárás á Íran sem allra fyrst. „Ég vona og bið fyrir því að Bush forseti muni gera það“, segir Podhoretz í greininni. Að mati hans á núna sér stað fjórða heimsstyrjöldin – kalda stríðið var sú þriðja – og ekkert annað en allsherjarhernaðarátök í líkingu við þau sem Bandaríkin háðu í seinni heimsstyrjöldinni duga til ætli þau að bera sigur úr býtum á hinum „íslömsku fasistum“.

Philip Giraldi, sérfræðingur um alþjóðastjórnmál, bendir á það í grein í tímaritinu National Interest fyrir skemmstu, að samkvæmt Phodhoretz séu öryggishagsmunir Ísraela og Bandaríkjanna nánast undantekningarlaust þeir hinir sömu. Og út frá þeirri skoðun mun öll „ráðgjöf“ Phodhoretz til Giuliani um utanríkismál taka mið af – en helsta hættan er þó sú að Giuliani sé nú þegar í meginatriðum sammála þeirri heimsmynd sem Phodhoretz er boðberi fyrir.

Utanríkisstefna og dómsdagssýn
Málflutningur Giuliani og Phodhoretz er því vel til þess fallin að rifja upp næstum hálfrar aldar gömul varnaðarorð George Kennan, hugmyndafræðings viðnámsstefnu Bandaríkjanna gegn útþenslustefnu Sovétríkjanna, um þá tilhneigingu Bandaríkjamanna að sjá utanríkisstefnu út frá „dómsdagssýn“.

„Ef við töpum, er allt glatað og lífið verður ekki þess virði að lifa því; engu verður við bjargandi. En ef við vinnum, verður allt mögulegt; allur okkar vandi verður leysanlegur; hin eina, sanna rót illskunnar, óvinur okkar, verður upprætt; öfl gæskunnar munu þá sækja fram óhindrað.“

Raunsæi og skynsemi hafa í alltof mörgum tilfellum vikið fyrir „Stórum Hugmyndum“ sem hafa verið smættaðar niður í einföld og grípandi slagorð: „öxulveldi hins illa“; „átök menningarheima“; og „endalok sögunnar“. Stefan Halper og Jonathan Clarke, höfundar bókarinnar The Silence of the Rational Center: Why American Foreign Policy is Failing, halda því fram að ein afleiðing þessa sé sú að „einfaldar og yfirborðslegar lausnir eru verðlaunaðar á sama tíma og sérfræðigreiningar – sem iðulega eru flóknar – verða undir“ í allri umræðu um utanríkismál í fjölmiðlum vestanhafs, einkum ljósvakamiðlum.

Þetta á ekki síst við þegar kjarnorkuáætlun Írans ber á góma. Mestöll umræða um Íran á meðal forsetaframbjóðenda beggja flokka hefur fyrst og fremst einkennst af klisjukenndum málflutningi: „Ekki skal útiloka neinn kost“ og „viðræður við stjórnvöld í Teheran gætu verið góð hugmynd“ eru á meðal þess helsta sem frambjóðendurnir hafa haft fram að færa. Flestir geta jafnvel ekki viðurkennt að núverandi stefna bandarískra stjórnvalda um að koma á stjórnarskiptum í Teheran grefur undan þeim möguleika á að Íranar muni fallast á kröfu Bandaríkjanna um að hætta allri auðgun úrans.

Ríkjabandalag kapitalískra einræðisþjóða
Næsti forseti Bandaríkjanna þarf að ráðast í grundvallarendurskoðun á utanríkisstefnunni í ljósi þeirrar gjörbreyttu stöðu sem upp er komin í alþjóðamálum í kjölfar innrásarinnar í Írak: Þverrandi áhrif Bandaríkjanna og sama skapi vaxandi máttur og sjálfstraust Kínverja og Rússa á alþjóðavettangi eru vísbending um þá nýju skipan sem er smám saman að myndast – skipan þar sem kröfur og hagsmunir Bandaríkjanna eru í sífellt meira mæli virtar að vettugi sökum vissu um að slíkt hafi ekki þýðingarmiklar afleiðingar í för með sér fyrir viðkomandi ríki.

Það væru hins vegar mikil mistök – einkum af hálfu Evrópuþjóða – að telja slíka þróun vera til hins betra frá þeirri skipan sem einkennt hefur alþjóðastjórnmál frá endalokum kalda stríðsins og hefur markast af yfirburðastöðu Bandaríkjanna. Hún yrði fremur til þess að gera það líklegra en ella að skapa fótfestu fyrir raunverulegt ríkjabandalag kapitalískra einræðisþjóða gagnvart vestrænum lýðræðisríkjum, eins og ísraelski stjórnmálafræðiprófessorinn Anzar Gat hefur rökstutt. Hver svo sem tekur við sem forseti Bandaríkjanna næstkomandi haust þarf þó að taka mið af þeirri staðreynd að vald Bandaríkjanna fer minnkandi samhliða þessum óumflýjanlegu breytingum sem eru að verða á valdahlutföllum í alþjóðahagkerfinu.

Það er óþarft að hafa uppi mörg orð um utanríkisstefnu Bush-stjórnarinnar. Hún hefur hvort tveggja grafið undan áhrifum og lögmæti Bandaríkjanna í alþjóðakerfinu – á hreint ótrúlega skömmum tíma. Mun næsti forseti Bandaríkjanna fá annað tækifæri? Líklega. Að stærstum hluta vegna þess að ekkert annað ríki er fært – hvorki núna né í náinni framtíð – að taka að sér það hlutverk sem Bandaríkin annars vegar hugsanlega getur gert og hins vegar ættu að gera. Með öðrum orðum: Það er enn eftirspurn eftir forystuhlutverki Bandaríkjanna í alþjóðakerfinu. En Bandaríkin ættu þó ekki að blekkja sjálfa sig; það munu líða ár þangað til Bandaríkjunum tekst að endurreisa pólitískan trúverðugleika sinn og lögmæti. Og til þess að svo geti orðið þarf næsti forseti Bandaríkjanna að draga nauðsynlegan strategískan lærdóm af þeim fjölmörgu mistökum sem gerð hafa verið í valdatíð George W. Bush – og, já, Bill Clintons.

Eitt er að minnsta kosti víst: Rudy Giuliani yrði ekki rétti maðurinn til að stýra Bandaríkjunum inn á skynsamari braut í utanríkismálum. Þvert á móti yrði boðið upp á meira af því sama.