Sviptingar vikunnar í tölum

Það er óhætt að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar á síðustu 10 dögum í bandarískum stjórnmálum. En stundum er erfitt að átta sig á raunverulegri þýðingu hinna ýmsu atburða. Nú er það hins vegar mun auðveldara en áður þar sem markaðir hafa orðið til á vefnum þar sem unnt er að sjá líkunar á því að hver og einn frambjóðandi sigri á hverjum tíma.

Það er óhætt að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar á síðustu 10 dögum í bandarískum stjórnmálum. Fyrst sigruðu Barak Obama og Mike Huckabee í forvali flokkanna í Iowa ríki. Afgerandi sigur Obama jók fylgi hans til muna í skoðanakönnunum og um tíma leit út fyrir að hann myndi sigra í New Hampshire og þar með nokkrun veginn gera út af við Hillary Clinton. En Hillary feldi tár á háréttum tíma og tókst með því að sigra Obama í New Hampshire. Á meðal Republikana hrósaði John McCain góðum sigri í New Hampshire. Mitt Romney situr hins vegar eftir með sárt ennið eftir tvo ósigra í röð.

Á síðunni www.intrade.com býðst fólki að kaupa og selja samninga sem greiða út $10 hver ef t.d. Hillary Clinton hlýtur útnefningu Demokrataflokksins. Verðið á þessum samningi á hverjum tímapunkti (deilt með 10) gefur því til kynna líkurnar á því að Hillary hljóti útnefninguna. Það er einkar athyglisvert að skoða þróunina á þessum líkum yfir síðustu 10 daga. Ef menn trúa því að þessi markaður sé skilvirkur ætti hann að gefa til kynna raunverulega þýðingu hinna ýmsu atburða.

Lítum til dæmis á hvað gerðist þegar Mike Huckabee sigraði í Iowa. Margir halda ef til vill að það hafi fyrst og fremst gagnast Huckabee sjálfum á kostnað annarra frambjóðenda. En svo er alls ekki. Líkurnar á því að Huckabee hlyti útnefninguna jukust reyndar úr 11% í ríflega 17%, eða um ríflega 6 prósentustig. En líkurnar á því að John McCain hlyti útnefninguna jukust úr 24% í 32%, eða um 8 prósentustig. Samt varð John McCain einungis í fjórða sæti í forvalinu með mjög lágt hlutfall atkvæða. Skýringin á þessu er líklega sú að flestir telji að Huckabee eigi í raun ekki möguleika á að vinna og að mikilvægasta niðurstaða forvalsins hafi verið að Mitt Romney hafi ekki unnið. Þessi ósigur Romney hefur líklega verið það sem styrkti stöðu McCain þrátt fyrir bágt gengi hans í forvalinu.

Enn meiri sviptingar hafa orðið á meðal Demókrata. Fyrsta janúar voru líkurnar á því að Hillary Clinton hlyti útnefningu síns flokks 70%. Líkurnar á því að Obama hlyti útnefninguna voru þá taldar vera 20%. En með góðum sigri sínum í Iowa stökk Obama upp í 45%. Og dagana þar á eftir héldu líkurnar á því að hann hlyti útnefninguna áfram að aukast hratt. Daginn fyrir forkosningarnar í New Hampshire—þegar skoðanakannanir bentu til sigurs Obama þar—voru líkurnar á því að hann hlyti útnefninguna komnar upp í 75%. Síðan sigraði Hillary óvænt í þeim forkosningum og stökk þarmeð úr 25% líkum í 55% líkur. Þannig er staðan í dag.

Það verður að teljast með ólíkindum hvað þessi tvö prófkjör í tiltölulega litlum fylkjum virðast hafa mikið um það að segja hver verður forseti Bandaríkjanna hverju sinni.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.