Með hugmyndafræðina að vopni

Ron Paul hefur komið nokkuð á óvart í aðdraganda forvals Repúblikana fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember næstkomandi. Helst hefur gríðarlega vel lukkuð fjáröflun frambjóðandans hlotið athygli, en á þremur mánuðum tókst honum að safna yfir 20 milljónum dollara, aðeins með frjálsum framlögum á vefsíðu sinni.

Ron Paul hefur komið nokkuð á óvart í aðdraganda forvals Repúblikana fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember næstkomandi. Helst hefur gríðarlega vel lukkuð fjáröflun frambjóðandans hlotið athygli, en á þremur mánuðum tókst honum að safna yfir 20 milljónum dollara, aðeins með frjálsum framlögum á vefsíðu sinni. Raunar hefur Paul slegið öll met í fjáröflunum í kjölfar gríðarlegra vinsælda sinna á Internetinu. Þann 16. desember síðastliðinn var aðgerðin ‘Money Bomb’ sett í gang af fylgismönnum Paul, en þá tókst að safna 6 milljónum dala á einum degi, sem er einstætt í stjórnamálasögu Bandaríkjanna. Alkunna er að árangur frambjóðenda í fjáröflun og raunverulegur fjárhagslegur styrkur þeirra er oftar en ekki góð vísbending á gengi þeirra í kosningum, og sé litið til mikillar velgengi Paul í þeim efnum má ætla að hann eigi meira inni en úrslitin í Iowa gefa til kynna.

Paul hefur áður boðið sig fram til forsetaembættisins fyrir hönd Frjálshyggjuflokksins í Bandaríkjunum árið 1988, þrátt fyrir að vera skráður í Repúblikanaflokkinn. Raunar hafa skórnir verið gerðir að því að Paul muni að endingu bjóða sig fram fyrir Frjálshyggjuflokkinn í nóvember, hljóti hann ekki útnefningu Repúblikana að þessu sinni, en það á eftir að koma í ljós. Helstu stefnumál Paul ríma við þau er Frjálshyggjuflokkurinn hefur í fyrirrúmi – að markaðurinn sé sem frjálsastur með sem minnstum afskiptum ríkisins (laissez-faire) og að skýr réttindi og frelsi borgaranna séu tryggð. Stefnan í skattamálum í skýr; Paul segist aldrei munu styðja skattahækkun. Raunar vill hann að alríkistekjuskatturinn sé afnuminn með öllu og að ríkið dragi að sama skapi stórlega úr útgjöldum sínum, meðal annars með því að leggja niður fjölda ríkisstofnana, til dæmis öll ráðuneyti (departments). Þetta teljast ansi róttækar hugmyndir, en Paul hefur sjálfur sagt að til að þessar hugmyndir geti orðið að raunveruleika verði einstaklingar að breyta afstöðu sinni til ríkisins, og endurhugsa hvað það telji raunverulegt hlutverk þess. Er hlutverk þess að ákveða hvernig heilsugæslu- og menntamálum verði hagað, eða ættu verkefnin að snúast um nauðsynlega hluti á borð við öryggi borgaranna?

Utanríkisstefna Paul markast af afskiptaleysi (non-interventionism). Í ‘afskiptaleysisstefnunni’ felst einnig að Bandaríkin segi sig úr öllu því sem talist geta alþjóðleg samtök, til að mynda NATO, Sameinuðu þjóðunum og NAFTA, en í stað þess styrki Bandaríkin stöðu sína sem stórveldi og standi sterk, ein og sér. Í stað þess að stunda hagsmunagæslu með stríðsrekstri og alþjóðlegum samtökum ættu frjáls viðskipti að tryggja eðlilegt jafnvægi í heiminum. Paul leggst gegn stríðinu í Írak og hefur gert það frá upphafi, og sker sig þar með frá öðrum frambjóðendum. Sú afstaða gerir það sjálfkrafa að verkum að hann á ávallt undir högg að sækja í kappræðum, og Mitt Romney sakaði Paul um það í kappræðum þann 5. janúar síðastliðinn að láta blekkjast af áróðri öfgaíslamista. Paul studdi ekki Patriot Act, sem var samþykkt 45 dögum eftir árásirnar á tvíburaturnana í Bandaríkjunum 11. september 2001. Raunar var frumvarpið samþykkt og gert að lögum innan við sólarhring frá því það var kynnt í þinginu, og rýmkaði verulega valdheimildir ríkisins til eftirlits af ýmsu tagi. Paul gagnrýndi frumvarpið að sjálfsögðu efnislega, en einnig þingið í heild fyrir að samþykkja 300 blaðsíðna frumvarp í slíku óðagoti, enda er ólíklegt að allir þingmenn sem greiddu atkvæði með því hafi kunnað skil á því með fullnægjandi hætti. Paul er stjórnarskrársinni og kýs alltaf gegn allri lagasetningu sem á sér ekki skýra stoð í stjórnarskrá landsins.

Í fyrstu forkosningunum sem fram fóru í Iowa hlaut Paul 10% atkvæða sem skilaði honum fimmta sætinu, sem var þó nokkru minna en búist hafði verið við. Iowa telst tæplega sérstakt vígi frjálshyggjumanna þar í landi, þannig að árangur Paul er markverður. Í það minnsta hefur hann að tryggt það að detta ekki út úr slagnum í bráð, þrátt fyrir að teljast megi hæpið að hann fari með fullnaðarsigur. Hins vegar eru róttæk viðhorf hans líkleg til að stýra umræðunni og áherslum annarra frambjóðendum í aðra átt en annars. Hugmyndir hans um frjálsari viðskipti og stöðvun útþenslu skrifræðisbáknsins, sem virðist vera óumflýjanlegur fylgifiskur þróaðra þjóðfélaga, eru óneitanlega til góða og munu eflaust hafa áhrif til lengri og skemmri tíma.

——

http://www.ronpaul2008.com/

Latest posts by Þórður Gunnarsson (see all)