Gengið að hreinu kjörborði

Á þessu ári ganga Bandaríkjamenn í fyrsta sinn í marga áratugi að hreinu borði í forsetakosningunum í þeim skilningi að hvorki sitjandi forseti né varaforseti gefa kost á sér. Sá frambjóðandi sem hreppir hnossið hefur því einstakt tækifæri til að gera róttækar breytingar og áhugamenn um stjórnmál hafa að sama skapi nóg fyrir stafni næstu mánuðina við að fylgjast með öllum herlegheitunum.

Allar kosningar eru á sinn hátt þýðingarmiklar og sérstakar. Kosningarnar í Bandaríkjunum í ár, þ.e. annars vegar prófkjör flokkanna og hins vegar forsetakosningarnar sjálfar, eru þó um margt einstakar í sinni röð. Þær hafa þá sérstöðu að hvorki sitjandi forseti né sitjandi eða fyrrverandi varaforseti verða í framboði. Þetta hefur ekki gerst síðan 1952 þegar stríðshetjan Dwight Eisenhower og Adlai Stevenson, ríkisstjóri í Illinois, tókust á. Raunar þarf að fara allt aftur til ársins 1928 til að finna dæmi um kosningabaráttu þar sem hvorki forseti né varaforseti gefa kost á sér í prófkjörum flokkanna, líkt og nú. Með öðrum orðum þá verða forsetakosningarnar í ár barátta nýrra andlita og nýrra strauma. Næsta vika hér á Deiglunni verður helguð forsetakosningunum, frambjóðendum og bandarískum stjórnmálum í heild sinni.

Þetta hreina borð og sú staðreynd að nánast enginn úr innsta hring í Washington keppir um að verða forseti er í sjálfu sér athyglisverð staðreynd og ber með sér þungan áfellisdóm yfir núverandi stjórn og árangri hennar. Stuðningur við forsetann og þar með Repúblikanaflokkinn hefur verið í nánast frjálsu falli undanfarin ár og það þarf ekki að rýna lengi í áróðursefni og upplýsingar frá frambjóðendunum núna til þess að átta sig á því að það er lítill áhugi á því að samsvara sig Bush-stjórninni eða nýta sér verk hennar í kosningabaráttunni.

Þvert á móti er markmiðið greinilega að skilgreina sig sem lengst frá núverandi stjórn og algengara er að sjá frambjóðendur Repúblikana vitna í orð Ronalds Reagans en George W. Bush. Einnig leggja frambjóðendur hart að sér að gefa af sér þá ímynd að þeir séu „Washington-outsiders“, þ.e. nýtt fólk með nýjar áherslur, ómengað af þeim skotgrafahernaði sem einkennir stjórnmálin og Bandaríkjamenn hafa litlar mætur á um þessar mundir.

Vindurinn með Demókrötum
Í ljósi þess hve megn óánægja ríkir með núverandi valdhafa þarf ekki að koma á óvart að vindurinn sé með Demókrötum, svona til að byrja með að minnsta kosti. Þeir unnu stóran sigur í þingkosningunum fyrir rúmu ári síðan og prófkjörin í þeirra flokki hafa vakið meiri athygli. Þar spilar inn í að spámenn stjórnmálanna hallast frekar að því að Demókrati verði í Hvíta húsinu að kosningunum loknum en ekki síður að aðalkeppinautarnir hjá Demókrötum eru heimsþekktir, þ.e. þau Barack Obama og Hillary Clinton. Fyrir utan stjórnmálaferil sinn sem öldungardeildarþingmaður hlýtur Hillary að teljast ein frægasta eiginkona heims eftir allt moldviðrið í kringum eiginmann hennar og athafnir hans í Hvíta húsinu en saga Baracks Obama er með þeim hætti að hún lætur engan ósnortinn. Faðir hans er frá Kenýa og stóran hluta æsku sinnar eyddi hann utan Bandaríkjanna þar sem hann hefur nú slegið í gegn í stjórnmálum.

En þrátt fyrir þekkt andlit og persónuhylli eiga þau eftir að sanna það endanlega fyrir bandarísku þjóðinni að þeim sé treystandi fyrir valdamesta embætti landsins. Ekki er ólíklegt að heráætlanir Repúblikana í forsetaslagnum sjálfum muni ganga út á að setja einmitt þetta málefni á dagskrá, þ.e. hvort Bandaríkjamenn treysti Obama og/eða Clinton fyrir öryggi þjóðarinnar á viðsjárverðum tímum í sögu þjóðarinnar.

Persónu- eða málefnakosning?
Sú kenning er stundum nefnd í tengslum við forsetakosningar í Bandaríkjunum að viðkunnanlegri frambjóðandinn vinni alltaf. Til að mynda vildu Bandaríkjamenn samkvæmt könnunum frekar fá sér bjór með George W. Bush en John Kerry árið 2004. Þetta ýtti undir þá ímynd forsetans að hann væri alþýðlegur á meðan andstæðingur hans þótti gáfulegur í tali og þar af leiðandi ekki ná jafnvel til fólksins. Ég var reyndar alltaf að bíða eftir könnun á því hvort Bandaríkjamenn hefðu kannski frekar viljað fá sér kaffi með Kerry.

Hvað sem persónudýrkun líður leggja frambjóðendur vitaskuld mikið upp úr málefnum. Á heimasíðum frambjóðendanna eru langir listar af málaflokkum og hugmyndum og tillögum um hvað skuli gera. Kannanir sýna að stríðið í Írak, efnahagsmál, mennta- og heilbrigðismál, atvinna og öryggi þjóðarinnar eru ofarlega á baugi (til að sjá afstöðu einstakra frambjóðenda til málefna er þessi síða ansi góð).

Íraksstríðið hefur verið mál málanna undanfarin ár og afstaða nýs forseta til stríðsins verður það einstaka atriði sem mestu skiptir fyrir umheiminn. Um eitt eru flestir frambjóðendur sammála – hlutirnir hafa ekki gengið nógu vel til þessa. Spurningin er hins vegar hvað skuli til bragðs taka og mest ber á milli um hvort og hvenær bandarískir hermenn í Írak eigi að vera kallaðir heim.

Á herinn að fara heim eða halda áfram?
Frambjóðendur meðal Demókrata leggja fram tillögur um að herliðið verði farið heim fljótlega, t.d. talar John Edwards um 9-10 mánuði og Barack Obama um 18 mánuði þar til herliðið verði farið. Hillary Clinton kveðst ætla að hefja heimflutninginn á fyrstu 60 dögum sínum í embætti. Þótt Demókratarnir tali í gagnrýnum tón um stríðið studdu bæði Clinton og Edwards stríðið og kusu með því á sínum tíma. Obama gerði það hins vegar ekki, enda ekki kominn á þing þá, og getur með því skapað sér aukinn trúverðugleika hjá kjósendum sem eru alfarið á móti stríðinu.

Hjá frambjóðendum Repúblikana kveður við annan tón og flestir hafna þeir hugmyndum um að tímasetja brottflutning herliðsins. Mike Huckabee orðar það sjónarmið ágætlega á vef sínum: „This country has never declared war until „a week from Wednesday,“ we have always declared war until victory.“ Með öðrum orðum á að berjast þar til árangur hefur náðst og undir það taka flestir frambjóðendur með einum eða öðrum hætti.

Allir eru þeir þó sammála um að mæta eigi hryðjuverkamönnum af festu og gefa ekki eftir í baráttunni. Þegar kemur að Íran er afstaða flestra á þá leið að reyna til fulls diplómatískar leiðir og fylgja kröfum eftir með efnahags- og viðskiptaþvingunum en að hernaðaríhlutun sé þó ekki útilokuð. Þá tala margir um að gera Bandaríkin sjálfstæð í orkumálum (e. energy independant) og t.a.m. ætlar Hillary Clinton að verja 50 milljörðum Bandaríkjadala í verkið og Mick Huckabee hefur lofað því að ná þessu markmiði á minna en átta árum!

Skattar og hernaðarútgjöld
Það greinir augljóslega líka töluvert á milli í efnahagsmálum. Frambjóðendur Demókrata vilja leggja áherslu á að skattabreytingar komi millistéttinni til góða og að hún hafi setið eftir undanfarin ár. Repúblikanar hafna því í sjálfu sér ekki en tala flestir fyrir skattalækkunum yfir línuna sem komi öllum til góðs en ekki aðeins ákveðnum tekjuhópum. Sumir tala fyrir gagngerum skattbreytingum – Joh McCain talar t.d. fyrir því að 3/5 þingmanna verði að samþykkja skattahækkun til að hún gangi í gegn. Flestir frambjóðendur mæla fyrir því að festa í sessi skattalækkanir George W. Bush en hluti af samkomulagi í þinginu á sínum tíma varðandi þá skattalækkun gekk út á að þær þyrfti að staðfesta á nýjan leik með lögum að ákveðnum tíma liðnum.

Sá galli er þó á skattagjöf Njarðar hjá mörgum frambjóðandanum hjá Repúblikanaflokknum að miklum loforðum um skattalækkanir og aðhaldssemi í ríkisfjármálum fylgja gjarnan loforð um stóraukna eyðslu í hernað. Þetta fer ekki alltaf vel saman.

Fríverslunarsamningar til að tryggja bandarísk störf!
Frambjóðendur Demókrata tala flestir um að sýna varkárni þegar kemur að fríverslun við önnur lönd og að slíkir samningar eigi fyrst og fremst að koma bandarískum almenningi vel. Á heimasíðu John Edwards segir t.d.: „His primary criterion for new trade deals will be simple: considering its impact on jobs, wages and prices, will it make most families better off?

Þótt slíkur málflutningur kunni að hljóma vel felur hann í sér viðsnúning á hagfræðilögmálum – enda illmögulegt að stunda alþjóðaviðskipti af kappi án þess að missa einhver störf úr landi.

Hagstæðir vindar duga ekki til sigurs
Eins og áður sagði blása vindar þessa dagana með Demókrötum. Hagstæð vindátt hefur þó aldrei dugað til sigurs og sigurvegari prófkjörs Demókrataflokksins stendur frammi fyrir því mikla og erfiða verkefni að klára verkið gegn kosninga- og áróðursmaskínu Repúblikanaflokksins. Hvað sem öllu líður er allavega ljóst að það eru breytingar framundan í bandarískum stjórnmálum.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.