Sprenghlægileg evra

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, sýndi mikið ábyrgðarleysi á síðasta vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans er hann kallaði hugmyndina um einhliða upptöku evru „sprenghlægilega“.

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, sýndi mikið ábyrgðarleysi á síðasta vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans er hann kallaði hugmyndina umeinhliða upptöku evru „sprenghlægilega“. Til viðbótar við þessi ummæli sagði bankastjórinn sögur af löndum Suður-Ameríku sem höfðu tekið upp dollarinn: „Þau höfðu klúðrað sínum málum og áttu enga aðra leið.“

Seðlabankastjóri var aðallega að vísa i tvö lönd með ummælum sínum; Ekvador og El Salvador. Vissulega höfðu mál Ekvador verið i ólestri fyrir dollaravæðingu – en hins vegar bötnuðu málin til muna eftir að dollarinn var tekinn upp.

Öðru máli er að gegna um El Salvador. Síðustu fjögur ár fyrir myntbreytinguna hafði verðbólga verið um 2% og lánshæfismat landsins gott. Eftir dollaravæðinguna lækkaði vaxtastig úr 18% í 7-8% auk þess sem líftími lána lengdist mikið. Það er því ekki sjálfgefið að upptaka nýs gjaldmiðils sé afleiðing einhvers konar krísu.

Íslenska krónan er einn minnsti gjaldmiðill heims. Eins og málin standa núna ræðst gengi krónunnar að mestu leyti af sviptingum á erlendum fjármálamörkuðum. Atburðir innanlands virðast hafa minniháttar áhrif. Besta dæmið um það er það þegar sjávarútvegsráðherra ákvað að skerða aflamark þorskkvóta um yfir 30%. Markaðurinn hreyfðist varla og gengi krónunnar sýndi sína eðlilegu, flöktandi (!) hegðan.

Umræðu um gjaldeyrismál ber að taka alvarlega. Það er ljóst að íslenska krónan reynist nú viðskiptahindrun á ýmsum sviðum atvinnulífsins. Sjávarútvegurinn sem er ennþá, þrátt fyrir allt, mikilvægasta útflutningsgrein þjóðarbúsins og hefur þjáðst fyrir hátt gengi krónunnar á undanförnum misserum. Einnig hafa heyrst sögur af smásölum og birgjum sem eru í þeirri stöðu að gengi krónunnar er ráðandi þáttur í rekstri, í stað sölutekna og annars slíks. Það telst varla eðlilegt.

Í grein í Viðskiptablaðinu í gær svaraði Manuel Hinds, fyrrverandi fjármálaráðherra El Salvador, ummælum seðlabankastjóra um dollaravæðingu landa í Suður-Ameríku. Hinds benti á að seðlabankastjóri ætti frekar að eyða kröftum sínum í að útskýra þau hugsanlega vandamál sem steðja að íslenska þjóðarbúinu, í stað þess að beina athyglinni frá þeim. Orð að sönnu.

Það er þörf á fordómalausri umræðu um hvaða gjaldmiðill hentar íslenskum neytendum, atvinnulífi og viðskiptaumhverfi best. Allt hjal um að sjálfstæðri þjóð þurfi að fylgja sjálfstæður gjaldmiðill er innistæðulaust. Þeir sem vilja stuðla að frjálsum viðskiptum hljóta að styðja sem greiðust og hagkvæmust viðskipti um leið. Það virðist koma æ betur í ljós að krónan er baggi fremur en annað.

Latest posts by Þórður Gunnarsson (see all)