„Slátrarinn“ frá Úganda

Einn umdeildasti þjóðarleiðtogi allra tíma er Idi Amin, fyrrum forseti Úganda. Saga hans á valdastóli er blóðug og er hann ábyrgur fyrir dauða hundruð þúsunda manna.

Idi Amin fæddist um miðjan þriðja áratug síðustu aldar í Kakwa ættbálkinn sem hafði aðsetur nálægt Arua, sem er í norð-vestur hluta Úganda. Það er lítið vitað um æsku Idi Amins en faðir hans yfirgaf fjölskylduna þegar hann var mjög ungur. Idi Amin ólst því upp hjá móður sinni og fjölskyldu hennar. Skólaganga Amins var ekki löng en hann sótti íslamskan skóla í nokkur ár. Honum líkaði ekki þar og leitaði hann því á vinnumarkaðinn þar sem hann vann hin ýmsu störf.

Framtíð Idi Amins var í hernum. Hann fór í breska nýlenduherinn árið 1946 og hlaut starf sem aðstoðarkokkur. Hann vann sig fljótlega upp valdastigann og átta árum seinna var hann titlaður „Effendí“, en það var æðsta staða sem svartur Afríkumaður gat fengið í breska nýlenduhernum. Idi Amin varð mjög vinsæll innan hersins og ekki síst vegna mikilla hæfileika í íþróttum og þá sérstaklega í boxi. Hann hlaut mikla athygli og virðingu fyrir að vera landsmeistari í boxi í þungavigt, en þann titill vann hann árið 1951 og varði til 1960.

Idi Amin gerðist svo liðsmaður úgandíska hersins árið 1962 og var titlaður kafteinn. Það tók Amin aðeins fjögur ár að verða skipaður yfirmaður herafla Úganda. Þorstinn í meiri völd virtist vera til staðar en árið 1971 framdi Idi Amin og herinn hans valdarán í Úganda og steypti þáverandi valdhafa, Milton Otobe, af stóli. Amin skipaði sjálfan sig forseta Úganda og markaði það upphafið á einum blóðugasta valdaferli sögunnar.

Idi Amin var forseti Úganda í átta ár. Valdaferill hans einkenndist af blóðugum átökum og morðum. Hann barði niður alla þá sem reyndu að andmæla honum og kúgaði marga minnihlutahópa. Eftir þau átta ár sem Amin var við völd er talið að um 500.000 manns hafi legið í valnum. Idi Amin varð valdalaus í apríl 1979 þegar hermenn frá Tansaníu hertóku Kampala, höfuðborg Úganda, með hjálp heimamanna. Amin flýði þá til Líbíu og fór síðan til Sádí-Arabíu þar sem hann var til dauðadags.

Það er til mikið af sögum og slúðri um athæfi Idi Amins á valdastóli. Það er talið fullvíst að hann hafi verið haldinn mikilmennskubrjálæði sem sést meðal annars á því hvernig hann kaus að titla sig: Hans æruverðuga hátign, forseti til lífstíðar og ofursti Al Hadjí, Doktor Idi Amin, VC, DSO, MC, drottnari allra lifandi skepna og fiska sjávarins og sigurvegari breska heimsveldisins í Afríku og sérstaklega í Úganda.

Idi Amin var einnig mikill andstæðingur Ísraelsmanna og sagan segir að hann hafi sent Golda Meir, forsætisráðherra Ísraels á þeim tíma, skeyti þar sem hann harmaði að Hitler hafi ekki tekist að útrýma öllum Gyðingum í helförinni. Idi Amin trúði einnig á mikilvægi þess að vera með næga kynorku og sögðu fjölmiðlar að hann borðaði 40 appelsínur á dag til að hafa hana í hámarki. Vinsælasta sagan af Idi Amin er þó um meint mannát hans. Hann er talinn hafa snætt marga óvini sína en sú saga sem gengur lengst fullyrðir að hann hafi étið bróður sinn. Það er þó vitað að Amin var ekki að reyna að draga úr þessum sögum, þar sem þær gáfu honum hættulegan stimpil og því vildi hann halda.

Idi Amin var lýst vel í myndinni „The Last King og Scotland“ þar sem hann var leikinn af Forest Whitaker. Þar var sýnt á áhrifamikinn hátt þá illsku sem hann bar í brjósti. Idi Amin var ábyrgur fyrir dauða hundruð þúsunda manna og skyldi Úganda eftir í rúst. Hann dó árið 2003 á sjúkrahúsi í Sádi Arabíu án þess að honum hafi einhvern tíma verið refsað fyrir voðaverk sín. Hann skildi eftir sig fjórar konur og 45 börn

Heimildir:

Cnn.com
Wikipedia.org
Visindavefur.hi.is

Latest posts by Jan Hermann Erlingsson (see all)