Fíkn og friðþæging

Lögregluaðgerðin Pólstjarnan virðist af fréttum að dæma hafa heppnast vel og skilað þeim árangri sem til stóð; að koma í veg fyrir dreifingu á gríðarlegu magni fíkniefna og handsama þá sem gerðust brotlegir við lög með innflutningi og væntanlega fyrirhugaðri dreifingu og sölu efnanna hér á landi. En þar með er ekki öll sagan sögð.

Lögregluaðgerðin Pólstjarnan virðist af fréttum að dæma hafa heppnast vel og skilað þeim árangri sem til stóð; að koma í veg fyrir dreifingu á gríðarlegu magni fíkniefna og handsama þá sem gerðust brotlegir við lög með innflutningi og væntanlega fyrirhugaðri dreifingu og sölu efnanna hér á landi.

Lögregluyfirvöld hafa með réttu hreykt sér mjög af lyktum þessa máls, sem væntanlega fær heitið Stóra fíkniefnamálið til aðgreiningar frá eldri málum með sama heiti. Ljóst má vera að þau efni sem gerð voru upptæk í skútunni í Fáskrúðsfjarðarhöfn hefðu átt þátt í að viðhalda fíkniefnavanda landsmanna.

Hættan er hins vegar sú að með Pólstjörninni fái einhverjir þær ranghugmyndir í höfuðið að með lögregluvaldi sé hægt að sigrast á fíkniefnavandanum. Því miður eru margir sem halda því fram að ef aðeins fengi lögreglan ríkari valdheimildir þá mætti takast að uppræta fíkniefnavandann í eitt skipti fyrir öll. Þetta er firring, í best falli heimskuleg en í versta falli stórhættuleg.

Öflugasta herveldi heims, Bandaríkin, hefur um áratugaskeið háð hatramma baráttu við fíkniefnavandann með hertum refsingum og sífellt ríkari valdheimildum lögreglu og annarra stofnana ríkisins. Árangur af þeirri baráttu er enginn. Og þar sem valdheimildum lögreglu eru hvað minnstar skorður settar, í einræðislöndum á borð við Kína, er til staðar fíkniefnavandi ekki síður en í öðrum löndum.

Fíkniefnavandinn er ekki lögreglumál, spurning um refsipólitík eða auknar valdheimildir lögreglunnnar og annarra yfirvalda. Fíkniefnavandinn er heilbrigðismál. Fíklar eru ekki glæpamenn, þeir eru sjúklingar. Fíkniefnaglæpir tengjast nær allir fjármögnun neyslunnar. Fjárþörf fíkla er óendanleg og engir hagsmunir í þeirra huga stærri en næsti skammtur.

Fyrir nokkrum árum voru viðurlög við innflutningi og dreifingu fíkniefna hækkuð gífurlega. Samkvæmt núgildandi refsiramma er hámarksrefsing fyrir brot á fíkniefnalöggjöfinni litlu minni en sú refsing sem liggur við því að drepa mann. Eflaust hefur þessi breyting verið gerð í góðri trú en því miður var hún óskynsamleg. Hærri refsingar leiða til þess að fíkniefnainnflutningur og sala þeirra verður áhættusamari. Aukin áhætta leiðir til þess að innflytjendur hækka verðið. Hærra verð veldur því svo að fjármögnun neyslunnar verður erfiðari, sem aftur leiðir til þess að fíklarnir þurfa að fremja fleiri glæpi, rán og innbrot, til að fjármagna neysluna.

Hert fíkniefnalöggjöf veldur því framframt að harkan í fíkniefnaheiminum verður meiri. Þetta er reynsla annarra þjóða og fráleitt að ætla að annað gildi um okkur Íslendinga. Glæpamennirnir, þ.e. þeir sem sjá gríðarlega hagnaðarvon í því að brjóta lögin og svara eftirspurn fíklanna eftir næsta skammti, verða harðsvíraðri. Aukin vopnaburður í fíkniefnaheiminum, sem lögreglan vitnar um, er skýrt dæmi um þetta.

Almenningur er sem betur fer mjög andsnúinn fíkniefnum. Fréttir af góðum árangri lögreglunnar eiga því upp á pallborðið hjá flestum. Fólki líður vel heima í Lindahverfinu eða Foldunum að heyra að nú sé verið að taka á þessum dópsölum af hörku. Því miður er þetta lítið annað en tímabundin friðþæging.

Þótt vissulega sé ástæða til að gleðjast yfir því að lögreglunni takist að koma í veg fyrir innflutning skaðlegra fíkniefna, þá mega menn ekki glepjast yfir þeim árangri. Einstaklingsbundin fíkn er rót fíkniefnavandans. Til að sigrast á henni dugir ekki lögregluvald eða stórkallalegar refsiheimildir. Fíkniefnavandinn er heilbrigðisvandamál og hann verður að höndla sem slíkan.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.