Slagur milli Hillary og Rudy enn í spilunum

Forsetaframbjóðendur í Bandaríkjunum hafa skilað inn uppgjöri annars ársfjórðungs, slást um að sýna fram á eigið ágæti og sýna engin merki þess að þreytast – nema hugsanlega Mike Gravel.

Það sem er efst á baugi hjá Demókrötum þessa dagana er að Hillary Clinton hefur náð afgerandi forskoti í skoðanakönnunum á þá Barack Obama og John Edwards. Obama er hins vegar sá frambjóðandi sem var með digrustu sjóðina þegar regluleg opinberun framlaga fór fram þann 15. júlí sl. Obama hafði yfir að ráða tæpum 33 milljónum dala, rúmlega 6 milljónum meira en Hillary, en Edwards var langt á eftir í þriðja sætinu með tæpar 9 milljónir. Mike Gravel verður svo að teljast frekar ólíklegur til afreka, með 140 þúsund dali í farteskinu og stuðning fárra annarra en nánustu fjölskyldumeðlima.

Þessir fjármunir virðast hins vegar ekki hjálpa Obama mikið þegar kemur að því að vinna hylli kjósenda því samkvæmt síðustu skoðanakönnunum er hann 18 prósentum á eftir Hillary (23% og 41%). John Edwards er þriðji með 13 prósent.*

Öll keppast þau nú um að sannfæra Demókrata að þau séu líklegust til að sigra frambjóðanda Repúblikana. Með þetta í huga lýsti Barack Obama því yfir á baráttufundi á mánudaginn að kjósendur af afrísku bergi brotnu myndu flykkjast á kjörstaði í nóvember 2008, verði hann kandídat Demókrata, og lofaði hann 30 prósenta kjörsóknaraukningu meðal blökkumanna. Einnig sagði hann yngri kjósendur vera mun líklegri til að kjósa sig en aðra frambjóðendur Demókrataflokksins, og þannig mætti vinna aftur ríki sem Demókrataflokkurinn hefur ekki unnið síðan Lyndon B Johnson var og hét.

Þarna virðist Obama hafa hlaupið talsvert á sig því hann gat hvorki stutt þessar staðhæfingar með tölfræði eða könnunum, né standast þær nánari skoðun. Til dæmis myndi 30 prósent meiri kjörsókn meðal blökkumanna í Mississippi, hans dæmi um vígi Repúblikana sem kominn væri tími til að vinna aftur, þýða 74 prósenta kjörsókn svartra, sem er langt umfram meðaltalið í Bandaríkjunum. Og þó það tækist, þá myndi það samt ekki duga til að vinna, miðað við niðurstöður í ríkinu frá síðustu forsetakosningum.

Hillary heldur því öruggri forystu, og þrátt fyrir að hún eigi enn langt í land með að sannfæra hinn almenna kjósanda um ágæti sitt þá hlýtur hún að teljast afar líkleg á þessum tímapunkti að hreppa útnefningu flokks síns.

Repúblikanar virðast tregari til að láta fé af hendi rakna til sinna frambjóðenda. Þar er Rudy Giuliani efstur með rúmar sautján milljónir dala, Mitt Romney hefur safnað fjórtán milljónum og John McCain ellefu. Romney og McCain eru líka talsvert á eftir Giuliani í skoðanakönnunum, en sá sem veitir honum mesta keppni í skoðanakönnunum hefur ekki enn tilkynnt framboð sitt opinberlega.

Sá heitir Fred Dalton Thompson, 65 ára leikari úr þáttunum Law & Order, fyrrum öldungadeildarþingmaður Tennessee og ötull talsmaður síns flokks í gegnum tíðina. Thompson er beinskeyttur í sínum ræðum og höfðar líklega meira til gamaldags þjóðerniskenndar en nokkur annar frambjóðandi. Það gustar af honum hvar sem hann fer og hann virðist hafa flest til brunns að bera til að teljast alvöru keppandi í þessu forsetakapphlaupi, en það eru nokkrir stórir annmarkar á líklegu framboði hans.

Í fyrsta lagi er kosningakerfi hans á algjöru frumstigi, öfugt við flesta keppinauta hans. Þetta gerir honum afar erfitt fyrir að vinna mikilvæg ríki á borð við Iowa, þar sem hann eyddi síðustu helgi. Hann er ekki með kosningamaskínu og áróðursherferðir í gangi á hverjum stað fyrir sig heldur segist hann ætla að notfæra sér nútímatækni í baráttunni. Við bíðum bara spennt eftir að sjá hvaða ása hann hefur upp í erminni þar. Annað atriðið sem gæti orðið honum að falli er það hvers mikið hann gengur þvert á flokkslínuna í orðum sínum, og steininn tók endanlega úr fyrir fjölmarga rótgróna Repúblikana þegar hann sagðist hugsanlega ætla að hækka skatta.

Thompson er spennandi frambjóðandi og virðist ná til hjarta kjósenda, en þegar heilinn nær völdum þá virðast kjósendur frekar hallast að Giuliani. Hjá Repúblikunum er meiri spenna en hjá Demókrötum eins og staðan er núna, en Giuliani hlýtur að teljast sigurstranglegastur.

http://projects.washingtonpost.com/2008-presidential-candidates/finance/2007/q2/
*http://www.rasmussenreports.com/public_content/politics/election_2008__1/weekly_presidential_tracking_polling_history

Latest posts by Þorgeir Arnar Jónsson (see all)