Einkaréttur á enska boltanum

Nýlega krafðist fyrirtækið 365 lögbanns á íslenskan umboðssöluaðila gervihnattaráskrifta að sjónvarpsstöðinni Sky. Er það til marks um að íslensk fyrirtæki eru að komast í skilning um að þau geti ekki lengur einblínt á innlenda samkeppni og að tækniframfarir eru að opna áður lokaða markaði.

Nýlega krafðist fyrirtækið 365 lögbanns á íslenskan umboðssöluaðila gervihnattaráskrifta að sjónvarpsstöðinni Sky. Gripu þeir til þessara aðgerða vegna hagsmuna sem þeir hafa að verja í tengslum við einkarétt á íslenskri útsendingu á enska boltanum, sem Sky er m.a. með á sinni dagskrá. Skemmst er að minnast hatrammrar baráttu Símans og 365 um sýningar á enska boltanum sem án efa hefur endað með djörfu yfirboði 365. Því má gera ráð fyrir að 365 hafi byggt kaup sín á útsendingum enska boltans á viðkvæmu viðskiptamódeli sem er háð ákveðnum fjölda áskrifenda og háu áskriftaverði.

Aðdáendur enska boltans hafa fengið að finna fyrir yfirboðinu með skörpum hækkunum áskriftarinnar og hafa m.a. kvartað sáran í fjölmiðlum.

Viðbrögð 365 við því að Íslendingar hafi kost á því að verða sér út um enska boltann eftir öðrum leiðum eru að mörgu leyti skiljanleg. Fyrirtækið reynir að sjálfsögðu að vernda viðskiptahagsmuni sína og mun í þeim tilgangi nýta alla löglegar leiðir sem standa þeim til boða. Gera má ráð fyrir að þetta tilfelli sé ekki einsdæmi og munu fleiri íslensk fyrirtæki standa frammi fyrir erlendri samkeppni í framtíðinni á mörkuðum sem íslensk lög ná illa yfir. Sem dæmi má nefna samkeppni frá fyrirtækjum sem bjóða upp á símaþjónustu í gegnum internetið.

Það eru margir kostir við að búa á eyju en frá viðskiptalegum sjónarmiðum hefur það oftar en ekki komið illa niður á íslenskum neytendum. Þannig takmarkar Atlantshafið okkur frá stórum mörkuðum og gerir flutninga á vörum og þjónustu bæði erfiða og dýra auk þess sem samkeppni frá öðrum löndum er sniðinn þröngur stakkur. Því hafa landsmenn þurft að sætta sig við hærra verð en gengur og gerist víðast hvar annarsstaðar.

Við þessu er svo sem lítið að gera annað en að auðvelda erlendum fyrirtækjum að bjóða þjónustu sína hér á landi og vonast til að smæð íslenska markaðarins og ofangreindar skorður fæli þau ekki frá.

Þó hefur heimurinn blessunarlega breyst nokkuð á undanförnum árum í þessu tilliti og með tækniframförum hafa opnast leiðir til að sækja þjónustu frá fjarlægum mörkuðum. Þessi þróun hefur opnað dyr áður lokaðra markaða um allan heim og þó að alþjóðavæðingin sé umdeild, þá er ekki hægt að sjá annað en að hún hafi haft jákvæðar afleiðingar fyrir Íslendinga.

Því er vert að vera á varðbergi gagnvart tilburðum þess opinbera og einkaaðila til að takmarka þetta aðgengi. Með það í huga er mikið til þess unnið að gera íslenskum neytendum kleift að verða sér út um þjónustu sem er ekki bundin landfræðilegum takmörkunum svo sem gervihnattasjónvarpi eða útsendingum yfir internet og kæmi það illa niður á íslenskum neytendum ef innlend fyrirtæki geta stöðvað slíka samkeppni í krafti laga.

Til þess að íslensk fyrirtæki geti lifað af fyrirsjáanlegar breytingar verða þau að venjast hugmyndum um erlenda samkeppni sem fyrst og laga rekstur sinn að henni. Í stað þess að byggja rekstur sinn á heftum íslenskum markaði og reyna að koma í veg fyrir erlenda samkeppni með boðum og bönnum er nauðsynlegt að einbeita sér að því að selja sérhæfða þjónustu sem hentar t.a.m. Íslendingum. Hugsa þannig um stóru myndina, hagsmuni neytenda en ekki þrönga sérhagsmuni sem líklega eiga eftir að reynast þeim fjötur fót þegar fram líða stundir.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.