Villtir leiðsögumenn og aðrar starfsstéttir

Það er ótrúlegt hvað eigin hagsmunir blinda mönnum oft sýn um hvað sé gott fyrir heildina. Fáir þrýstihópar eru jafnöflugir við að vernda eigin hagsmuni og starfsstéttir. Umræða um lögverndun starfsheitisins „leiðsögumaður“ og um leið einhvers konar hömlur á það hverjir geti farið með fólk í ferðir um landið er nýjasta villta dæmið.

Það er ótrúlegt hvað eigin hagsmunir blinda mönnum oft sýn um hvað sé gott fyrir heildina. Fáir þrýstihópar eru jafnöflugir við að vernda eigin hagsmuni og starfsstéttir. Umræða um lögverndun starfsheitisins „leiðsögumaður“ og um leið einhvers konar hömlur á það hverjir geti farið með fólk í ferðir um landið er nýjasta villta dæmið.

Starfsstéttir og hagsmunastamtök tiltekinna starfsstétta hafa í gegnum tíðina litið á það sem sitt höfuðmarkmið að takmarka aðgang að sinni starfsstétt, til að mynda með hömlum á því hverjir mega kalla sig tilteknum nöfnum, leyfi þurfi frá viðkomandi félagi til að starfa á ákveðnum markaði og svo framvegis. Allt er þetta gert með því yfirskyni að verið sé að vernda hagsmuni neytenda. Það sem raunverulega er verið að vernda er samkeppni á viðkomandi markaði og hagsmuni þeirra sem á hverjum tíma starfa í viðkomandi starfsstétt.

Hvaða máli skiptir til dæmis hverjir mega kalla sig viðskiptafræðing, hagfræðing, landslagsarkitekt, byggingarfræðing, tölvunarfræðing, grunnskólakennara, græðara, endurskoðanda, lögfræðing eða lögmann, nú já eða leiðsögumann?

Ef Jón sem er sjálflærður lögfræðingur og er þrusugóður í að reka mál fyrir dómstólum vill taka að sér að reka mál fyrir töluvert lægra gjald en Siggi sem ber hið lögverndaða starfsheiti héraðsdómslögmaður, er það þá ekki bara í góðu lagi?

Vissulega er þetta ákveðin einföldun þar sem færa má ákveðin rök fyrir því að lækka megi viðskiptakostnað með lögverndun starfsheita. Það er, neytendur geta þá gert ráð fyrir að ef einhver kallar sig endurskoðanda þá hafi hann raunverulega hlotið ákveðna menntun og reynslu sem ætti að gera hann hæfan til að sinna viðkomandi starfi. Í stað þess að neytandinn þyrfti að spyrjast fyrir um hæfni viðkomandi og rannsaka hvort hann sé fær um að endurskoða bókhaldið.

Öllu má hins vegar ofgera og löggjafarvaldið verður að vega og meta í hvert skipti hverjir raunverulegir hagsmunir neytenda eru af lögverndun starfsheita, til að mynda með tilliti til öryggishagsmuna, sem til dæmis má rökstyðja í tilviki lækna.

Lögverndun starfsheitisins „leiðsögumaður“ hefur enga sjáanlega þýðingu aðra en þá að takmarka aðgang að stéttinni og bæta hag þeirra sem þar eru fyrir. Mönnum hlýtur að eiga að vera frjálst að ákveða hvort þeir hafa „lögverndaðan leiðsögumann“ með í för um landið eða gamlan Ítala sem ekki skilur íslensku.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.