Varnarræða fyrir líkamsrækt og rakarastofur

Ég skil vel að eigandi Sporthússins hafi ákveðið að loka. Það er ekkert grín þegar óánægjumaskína samfélagsmiðla fer á fullt, þar grunar mig hins vegar að flestir sem tjáðu sig hafi ekki haft hugmynd um hversu mikið starfsfólk líkamsræktarstöðvanna, eins og Sporthússins, lögðu á sig til að tryggja sem bestar sóttvarnir.

Enginn veit ævi sína fyrr en öll er og svo mikið er víst að á öðrum tíma hefði mér fundist það frekar fjarstæðukennt að skrifa pistil til að taka upp hanskann fyrir líkamsræktarstöðvar í landinu, en þetta eru svo sannarlega óvenjulegir tímar. Í uppvexti mínum var ég algjört nörd og hvers kyns íþróttir, sérstaklega hópíþróttir, voru langt utan míns áhugasviðs. Til þessa dags veit ég til dæmis ekki hvað í raun og veru gerist milli marka í knattspyrnu. Í þau fáu skipti sem ég hef farið með vinum á leiki er ég svolítið eins og illa áttað gamalmenni að horfa á áramótaskaupið. Fagna og segi úúú á kolvitlausum stöðum, eins og gamalmennið sem hlær að Skaupinu af því að leikarinn er með hárkollu en hefur ekki sagt neitt fyndið.

Það var því ekki af einskærum áhuga heldur illri nauðsyn sem ég hóf að stunda líkamsrækt fyrir sex árum síðan. Eftir að ég komst á fullorðinsár fór að verða vart við stoðkerfisvandamál hjá mér og hef ég einkum glímt við bakveiki og endað í tvígang á spítala vegna þeirra. Nú síðast síðsumars þegar ég fékk brjósklos og hef verið í meðferð vegna þess síðan. Fyrir mig er það lykilatriði ætli ég að halda góðri heilsu og lífsgæðum að styrkja líkamann sem mest. Það er besta forvörnin. Útihlaup og langar göngur eru til dæmis ekki valkostur fyrir bakveika og af því ég stundaði ekki íþróttir fyrr en seint hefur reynst mér best að njóta leiðsagnar þjálfara í líkamsræktinni því það skiptir öllu máli að gera æfingarnar rétt. Röng aðferð getur verið eins skaðleg og rétt æfing er gagnleg.

Í vikunni fór fram á samfélagsmiðlum Íslandsmeistaramótið í hneykslan í kjölfar þess að heilbrigðisráðherra tilkynnti að líkamsræktarstöðvar mættu opna aftur að uppfylltum ströngum skilyrðum. Stóru orðin voru ekki spöruð og bæði iðkendur, starfsfólk og eigendur líkamsræktarstöðva hundskammaðir og sakaðir um vítavert ábyrgðarleysi. Í fréttatímum mátti sjá myndir frá líkamsræktarstöðvum þegar starfsemin er á háannatíma í eðlilegu árferði sem var mjög villandi þegar horft er til strangra skilyrða fyrir opnun líkamsræktarstöðvanna nú. Af umræðunni mátti skilja að það væri bara hégómi og léttvægt fundið að fólk vilji stunda líkamsrækt. Eins og eini tilgangurinn með líkamsrækt sé að kviðurinn verði eins og þvottabretti sem spenna megi og glenna á dansgólfum skemmtistaða um helgar.

Ég hef gætt að sóttvörnum í hvívetna og unnið heima stóran hluta ársins. Að sitja tímunum saman við störf á hörðum eldhússtólum eða sitjandi í sófanum eins og rækja með tölvuna í fanginu hefur í orðsins fyllstu merkingu framkallað bakslag hjá mér. Ég hef stirðnað og bakverkir sem voru horfnir komið aftur. Ég er ekki einn um þetta en sjúkraþjálfari sagði í viðtali við Morgunútvarp Rásar 2 í haust að stoðkerfisvandamál hefðu stóraukist vegna heimavinnunar. Ég þurfti því ekki að hugsa mig tvisvar um eftir ákvörðun heilbrigðisráðherra. Ég mætti daginn eftir í Sporthúsið í Kópavogi til æfinga og fann strax mun. Ég náði tveimur skiptum áður en eigandi Sporthússins lokaði aftur til að sefa gremju og óánægju fólks í samfélaginu.

Sóttvarnir í líkamsræktarstöðinni minni voru betri en víðast hvar annars staðar þar sem ég kem. Stóra salnum var skipt upp í mörg hólf með plastborðum og fékk hver þjálfari eitt hólf til ráðstöfunar. Við vorum alls sex iðkendur í salnum hjá tveimur þjálfurum og þjálfararnir báru grímur og héldu tveggja metra fjarlægð. Einungis mátti nota handlóð og gera æfingar með eigin líkamsþyngd. Handlóðin voru sprittuð eftir hverja æfingu. Gengið var inn um aðalinnganginn og út um hliðarinngang til að koma í veg fyrir hópamyndanir í sameiginlegum rýmum. Æfingatíminn sem er vanalega klukkustund stóð í 50 mínútur til að koma í veg fyrir að iðkendur mættust milli tíma. Ekki mátti nota búningsklefa eða sturtur á staðnum. Sem sagt allt gert til að koma í veg fyrir smit en því skal haldið til haga að ekki eitt einasta smit hefur verið rakið til Sporthússins.

Ég skil vel að eigandi Sporthússins hafi ákveðið að loka. Það er ekkert grín þegar óánægjumaskína samfélagsmiðla fer á fullt, þar grunar mig hins vegar að flestir sem tjáðu sig hafi ekki haft hugmynd um hversu mikið starfsfólk líkamsræktarstöðvanna, eins og Sporthússins, lögðu á sig til að tryggja sem bestar sóttvarnir. Ég er samt hugsi. Vissulega hafa orðið smit í einhverjum líkamsræktarstöðvum, líka hnefaleikasal sem er í eðli sínu allt önnur starfsemi, en mér finnst viðbrögðin til samræmis við það ef salmonella kemur upp í einu bakaríi þá sé nærtækast að loka þeim öllum. Af hverju beinast aðgerðirnar ekki að þeim stöðum þar sem smitin koma upp og lærdómnum af því miðlað til hinna svo hægt sé að auka varúðarráðstafanir enn frekar?

Er valfrelsið alveg dautt? Ef fólki er illa við að æfa líkamsrækt þá heldur það sig að sjálfsögðu heima, hin sem vilja það geta gert það af ábyrgð. Annar hópurinn hefur ekkert með það að gera að velja fyrir hinn og hefur heldur ekkert leyfi til að ausa skömmum yfir annað fullorðið fólk. Við vitum miklu meira um sóttvarnir nú en í byrjun árs þegar þessi ófögnuður kom upp. Hvert skipti sem við förum úr húsi felur í sér áhættu. Matvöruverslanir eru til dæmis langt frá því að tryggja eins góðar sóttvarnir og ég sá í Sporthúsinu, þar káfa allir á sömu vörum án þess að spritta á milli og fólk æðir um alla búð án hólfaskiptingar eða virðingu fyrir fjarlægðarreglunni.

Ég heyrði viðtal við þjálfara í útvarpinu í gær þar sem hann sagði að margir viðskiptavinir sínir séu að glíma við andleg veikindi og lyfið þeirra er líkamsræktin; það að hreyfa sig og borða hollt. Hann benti réttilega á að það væri þá betra að vera í góðu formi ef fólk veiktist af Covid19. Hann sagði jafnframt að fólk hefði tilhneigingu til að borða óhollari mat þegar það er lokað lengi inni og reynslan sýndi að flestir yrðu til lengdar þreyttir á að gera æfingar á stofugólfinu heima og hættu því innan viku. Hann sagðist aldrei hafa séð fólk koma eins illa út úr fitumælingum og á þessu ári. Sem sagt offita er að aukast og við vitum öll hversu mörg mismunandi heilsufarsvandamál geta sprottið af henni.

Lýðheilsa er stórt mál og samfélagslega mikilvægt, hvort sem litið er til andlegrar eða líkamslegrar heilsu. Við sjáum ýmis merki um hnignandi lýðheilsu. Covid19 er fjarri því að vera eina ógnin við heilsu okkar, þótt ekki verði gert lítið hér úr alvarleika faraldursins. Það er samt í fleiri horn að líta. Í haust las ég í New York Times viðtal við tannlækni sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Á sex dögum höfðu fleiri sjúklingar leitað til hans með brotið upp úr tönnum en öll þau sex ár sem hann hafði starfað á Manhattan. Nærtækasta skýringin er að hans sögn streita. Þegar við erum undir miklu álagi gnístum við tönnum og eins taldi hann að óheilsusamlegar líkamsstellingar við heimavinnu geti haft sömu áhrif.

Það hefur verið vinsæll frasi undanfarið að lækningin megi ekki hafa verri afleiðingar en sjúkdómurinn sjálfur. Að sama skapi er varasamt að taka hvers kyns forvarnir úr sambandi. Sóttvarnayfirvöld hafa að mínu mati staðið sig afar vel í mjög krefjandi og snúnu verkefni. Þeim gengur allt hið besta til en nú þegar við erum komin þetta langt inn í verkefnið þá verðum við að horfa á stærra samhengi hlutanna. Forvarnargildi hreyfingar verður seint ofmetið. Manneskjan er breysk og það væri til dæmis sorglegt ef einhverjir hætta að æfa af því þeir misstu taktinn í Covid19 og þurfa svo að takast á við heilsufarsafleiðingarnar seinna á lífsleiðinni. Þá tölfræði sjáum við aldrei.

Atvinnuleysi getur líka leitt til andlegra og líkamlegra veikinda sem lita líf fólks til skemmri eða lengri tíma. Það er því bæði íþyngjandi og alvarlegt inngrip að senda vinnandi fólk heim með tilheyrandi tekjumissi. Þar þarf að horfa alveg sérstaklega til einyrkja, verktaka og smáfyrirtækja sem búa ekki að digrum sjóðum eða geta farið í hlutafjárútboð þegar það gefur á bátinn.

Það að einhvers konar nánd tengist starfsemi hlýtur að vera ein og sér hæpin forsenda lokunar, ef öllum sóttvarnaráðstöfunum er fylgt að öðru leyti. Gott dæmi um þetta eru rakarastofur. Fáar starfsstéttir hafa tekið eins vel á sóttvörnum og einmitt hársnyrtar. Þar eru tæki og tól látin liggja í bláum Barbicide-sótthreinsivökva milli viðskiptavina. Bæði rakari og viðskiptavinur bera grímur og jafnvel latexhanska. Í þau skipti sem ég hef pantað tíma í klippingu á árinu hef ég fengið sms með leiðbeiningum um að mæta einn í tímann og mæta ekki ef ég finn fyrir flensueinkennum. Enginn er á stofunni nema þau sem þurfa að vera þar. Nánd er vissulega til staðar en ekki mikið um beina líkamlega snertingu. Það hefur líka sýnt sig að hársnyrtistofur eru alls ekki suðupottur Covid-smita. Samt er starfseminni gert að loka. Stundum finnst manni í þessum aðgerðum öllum eins og verið sé að hampa skussanum og skamma dúxinn.

Ég styð sóttvarnayfirvöld í erfiðu verkefni en ég fylgi þeim ekki í blindni. Ég sýni öðrum tillitssemi eftir bestu getu, passa upp á mig og mína, virði lögin og tek góðum leiðbeiningum og tilmælum en sem fullorðinn þokkalega upplýstur maður hlýði ég engum nema sjálfum mér. Við þennan faraldur þurfum við að búa áfram en honum lýkur einn daginn. Þá þurfum við að geta gengið til samfélags sem líkist því sem við þekktum áður. Að kveða í kútinn hvers kyns starfsemi, að draga úr sjálfsbjargarviðleitni og sjálfsákvörðunarétti fólks til eigin velsældar og velferðar mun ekki leiða okkur þangað.
Latest posts by Guðfinnur Sigurvinsson (see all)

Guðfinnur Sigurvinsson skrifar

Guðfinnur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.