En hvað um börnin?

Það er jákvætt að umboðsmaður barna láti skerðingu á réttindum barna loks til sín taka á þessum „fordæmalausu tímum“.

Undanfarnar vikur og mánuði hafa Deiglupennar ruðst fram á ritvöllinn og látið þar til sín taka með góðum og áhugaverðum hugleiðingum um heimsfaraldurinn. Þar sem metsölurithöfundur hafa brugðist hafa þeir tekið til varna fyrir „akademískar hugleiðingar um frelsi“. Það er mjög mikilvægt á tímum þar sem margir eru hræddir og hafa e.t.v. verið mánuðum saman. Og enn sér ekki almennilega fyrir endann á ástandinu. Þessi pistill verður því enn eitt framlag Deiglunnar til varnar frelsinu, svona rétt áður en enn ein rúm lögskýringin á sóttvarnalögum takmarkar ritfrelsið í þágu almannaheilla.

Það hafa nefnilega fleiri valdið vonbrigðum á þessum tímum en eftirlætis rithöfundar. Ég hef t.a.m. saknað þess að heyra frá umboðsmanni barna sl. mánuði. Þúsundir barna verið sett í stofufangelsi vegna sjúkdóms sem þau eru bæði lítið næm fyrir og lítil smithætta stafar frá þeim. Takmarkanir hafa verið gerðar á skólastarfi og íþrótta- og tómstundastarfi þeirra, þau hafa verið einangruð frá vinum og vandamönnum og fjölmörgum börnum er jafnvel haldið frá skólahaldi af forráðamönnum þrátt fyrir að vera hvorki í einangrun eða sóttkví.

Samkvæmt lögum um umboðsmann barna er það hlutverk hans að bæta hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra. Hann er óháður fyrirmælum frá öðrum í störfum sínum, en embættið var stofnað 1. janúar 1995. Varla hefur verið eins rík þörf á hagsmunagæslu fyrir börn frá stofnun embættisins eins og nú. Þaðan hefur hins vegar lítið heyrst, en umboðsmaður barna óskaði þó eftir frásögnum barna um áhrif kórónuveirunnar á þau í samstarfi við KrakkaRúv. Af frásögnunum, sem finna má á heimasíðu umboðsmanns barna, að dæma hefur faraldurinn haft mikil og víðtæk áhrif á viðmælendur og til hins verra.

Tæpir níu mánuðir eru síðan að óvissustigi var fyrst lýst yfir hérlendis vegna faraldursins og rúmir sjö mánuðir síðan að hörðum sóttvarnaraðgerðum var fyrst beitt gagnvart börnum. Á þeim tíma virðist umboðsmaður barna hafa ritað yfirvöldum tvö bréf í apríl sl. varðandi hagsmuni barna. Annað til forsætisráðherra um nauðsyn þess að stuðla að samræmingu og eftirfylgni aðgerða í þágu barna og fjölskyldna. Hitt til mennta- og menningarmálaráðherra um mikilvægi aðkomu nemenda að ákvarðanatöku varðandi skólahald og röskun á því.

Fyrir tveimur dögum dró síðan til tíðinda og umboðsmaður barna ritaði heilbrigðisyfirvöldum bréf og óskaði eftir fundi vegna takmarkana sem varða börn. Það er jákvætt að umboðsmaður barna láti skerðingu á réttindum barna loks til sín taka á þessum „fordæmalausu tímum“. Það er jú lögbundið hlutverk embættis hans sem kostaði ríkissjóð tæpar 80 milljónir á síðasta ári.

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.