Konan sem vissi ekki að hana vantaði jarðskjálfta

Mitt í þeirri gjöf sem hver dagur er, hversu fínn eða ferlegur sem hann kann að vera, umkringdur fjölskyldu eða fávitum – situr maður uppi með sjálfan sig.

42 ára gömul kona var annars hugar að bakka úr stæði þegar skjálftinn reið yfir í fyrradag. Hún var að velta fyrir sér efnistökum pistils, til að glíma við um kvöldið. Meðan hún var í bakvísandi þönkum sínum um umræðufleti dauðans, kynfræðslu eða kolvetna, lék Ísland á reiðiskjálfi.

Allir nema hún (og einhverjir sjö aðrir samkvæmt samfélagsmiðlum) upplifðu eitthvað allt annað og ógnvekjandi, eitt augnablik. Hún missti algjörlega af þessu og varð svekktari eftir því sem leið á daginn, því hún hafði greinilega óafvitandi djúpa þörf fyrir það að jarðskjálfti ryfi Covid-bóluna sem hún lifir og starfar í.

Hún er að vinna heima, þessi kona, eins og í vor. Hún saknar vinnufélaga sinna og að ganga galvösk út í veröldina á morgnana. Hún er auðvitað bæði skilningsrík og spök gagnvart þessu. En hún er dálítið á úthverfunni og hefur verið meira út úr veröldinni og ein með sjálfri sér undanfarna mánuði, en jafnvel nokkurn tímann áður. Á undarlegum tímum, þar sem heilsan er ekki sjálfsögð og allir einhvern veginn aðeins dauðlegri en árið 2019.

Það hefur minnt hana á alls konar sannleika um lífið og tilveruna og einhvern veginn afhjúpað þessa bráðu staðreynd – að maður situr uppi með sjálfan sig. Alltaf. Mitt í þeirri gjöf sem hver dagur er, hversu fínn eða ferlegur sem hann kann að vera, umkringdur fjölskyldu eða fávitum – situr maður uppi með sjálfan sig.

Konan er búin að vera að glíma aðeins við þetta en áttaði sig á því, í svona cirka þriðju öldu Covid að samveran er miklu auðveldari en einhvern tímann korter yfir tvítugt. Hún horfist í augu við sig og blikkar. Klappar sér á bak, fyrirgefur allskonar og hefur húmor fyrir sínu lífsins brölti. Sáttari í sinni og skinni og skrattans sama hvað öðrum finnst. Það er samt nú kannski ekki alveg kórrétt hjá henni, en samt. Og það stuðlar.

Það er óvíst hverju sætir, en hún ákvað allavega að skrifa pistil út í kosmósið sem hefur líklega enga þýðingu fyrir neinn nema hana og lætur blygðunarlaust vera að greina sárlega vöntun á því að normalisera dauðann, kenna kynfræðslu í skólum eða rökræða orsakavalda stærstu heilsuváar samtímans. Og svo bara stígur hún ölduna og bíður eftir næsta jarðskjálfta.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.