Ég fer vestur

Vestfirðir eru eins framandi áfangastaður og hægt er að hugsa sér. Af hverju er til dæmis ekki lúxushótel í Arnarfirði þar sem gestir geta notið þess að drekka í sig fegurð staðarins?

Ég játa fúslega að þegar ég skipulegg sumarfrí þá vil ég heldur fara í frí til heitu landanna en að þvælast um innanlands. Það er einfaldlega þannig að eftir heilan vetur á eyjunni okkar bláu er mesta hvíldin í að hlusta á hrognamál í útvarpinu og furðulega tónlist og vakna að morgni dags nokkuð öruggur um að það sé í reynd sumar með tilheyrandi sólskini og sælu.

Sumarið í fyrra breytti þessu auðvitað. Þá var ekki um það að ræða að fara á suðrænar slóðir og því héldum við vestur á firði. Þaðan er ég ættaður en hef ekki komið þangað oft um ævina. Undantekningin var í fyrra þegar ég fór tvisvar vestur, annars vegar í febrúar og svo í sumarfrí í júlí. Allan uppvöxtinn man ég ekki fréttaumfjöllun um Vestfirði öðruvísi en sem samfelldan barlóm. Störfum fækkaði og margt fólk flutti suður. Það kom vissulega stöðunartímabil en nú er loks einhver gerjun fyrir vestan. Það fer ekki á milli mála.

Við keyrðum kjálkann í fyrra og upplifunin var sterk. Svo margt sem heillaði. Það var áberandi hversu mikil uppbygging er í endurgerð gamalla húsa, það sér maður til dæmis á stöðum eins og Þingeyri, Suðureyri við Súgandafjörð og á Flateyri. Ungt fólk að sunnan sækir í vestfirsku sumrin. Það vill eiga annað heimili á Vestfjörðum og dvelja þar til skemmri eða lengri tíma. Við hittum í ferð okkar tvo vini sem eru að gera upp hús í þorpi fyrir vestan. Á Flateyri hefur þrautreynt veitingafólk úr Reykjavík tekið yfir rekstur Vagnsins og býður þar upp á kræsingar frá öllum heimshornum. Þar koma fram helstu listamenn þjóðarinnar um hverja helgi. Það er ekki dónaleg viðbót við Tjöruhúsið á Ísafirði sem er í heimsklassa og þéttsetið öll kvöld.

Það sem Vestfirðir hafa alltaf haft er stórbrotin náttúrufegurð fjarðanna. Þeir eru hver öðrum fegurri og sagan birtist manni ljóslifandi fyrir hugskotum í hverju spori. Þegar ég fór um Arnarfjörð, kom við á Hrafnseyri, heimasetri Jóns forseta, og horfði yfir í Dynjanda fór ég að velta svolitlu fyrir mér. Vestfirðir eru eins framandi áfangastaður og hægt er að hugsa sér. Af hverju er til dæmis ekki lúxushótel í Arnarfirði þar sem gestir geta notið þess að drekka í sig fegurð staðarins?

Það eru vannýtt tækifæri í ferðaþjónustu og uppbyggingu frístundabyggðar fyrir vestan. Ég er handviss um það. Allt kallar það á aukna þjónustu sem býr til störf. Þarna mætti horfa til ferðaþjónustu eins og byggst hefur upp í Fljótum í Skagafirði og á Siglufirði. Efnaðir ferðamenn eru að leita að einhverju sem er ekta, náttúrulegt, kyrrð og fegurð. Allt þetta og meira til finnum við á Vestfjörðum.

Ég er þeirrar skoðunar að ríkisstyrktar stóriðjulausnir í atvinnumálum, eins og olíuhreinsunarstöðin sem blessunarlega varð aldrei, séu ekki framtíð Vestfjarða eða Íslands ef því er að skipta. Blanda af stóru og smáu og sköpunarkraftur og hugmyndaauðgi fólksins sjálfs verður alltaf rétta leiðin áfram. Við eigum að gera út á sérstöðuna, náttúruna og samfélagið sem við höfum byggt. Ég hef heyrt að útlendingum finnist það barasta mjög kúl eftir allt. Það sem þarf er langtímasýn og skýr áætlun til framtíðar. Ég hef tröllatrú á Vestfjörðum í þessu sambandi og fer örugglega aftur vestur.

Latest posts by Guðfinnur Sigurvinsson (see all)

Guðfinnur Sigurvinsson skrifar

Guðfinnur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.