Farvel Filippus

Elísabet II Bretadrottning tilkynnti með djúpri hryggð um andlát eiginmannsins í dag en hann fékk friðsæl lífslok í Windsor-kastala í morgun. Filippus hefði fagnað aldarafmæli sínu þann 10. júní næstkomandi.

Allir pistlahöfundar þekkja ritstífluna, stundina þegar yfir höfði þínu hanga pistlaskil og þér barasta liggur ekkert sérstakt á hjarta. Þetta ár hefur verið þannig hjá mér á Deiglunni. Strax í fyrsta pistli ársins setti ég til dæmis saman augljósa greiningu um stöðu stjórnmálaflokkanna út frá nýjustu skoðanakönnun sem er sígildur björgunarhringur þegar ekkert annað er í fréttum. Varla var ég búinn að birta pistilinn þegar æstur óþjóðalýður réðst á þinghúsið í Washington. Það var eins og að missa stórlax við árbakkann.

Í morgun tók við örvæntingarfull leit að snjöllu umfjöllunarefni. Rétt fyrir hádegi var ég að reima á mig lakkskóna með stáltánni reiðubúinn að sparka í opið sár stjórnarandstöðuflokks með hárbeittum pistli þegar fregnin barst sem ég hafði kviðið mest. Filippus drottningarmaður er allur.

Elísabet II Bretadrottning tilkynnti með djúpri hryggð um andlát eiginmannsins í dag en hann fékk friðsæl lífslok í Windsor-kastala í morgun. Filippus hefði fagnað aldarafmæli sínu þann 10. júní næstkomandi. Það er of langt mál að rekja ævi þessa merka manns hér en Filippus hefur í rúm 70 ár gengið tveimur skrefum á eftir þeirri drottningu Breta sem lengst hefur setið á valdastóli. Saga þeirra hjóna spannar mesta framfaraskeið í sögu mannkyns og saman hafa þau verið sú kjölfesta sem breska samveldið hvílir á.

Filippus prins var litríkur maður og þekktur fyrir hispursleysi sitt. Á stundum var hann orðhvass svo undan sveið. Honum fyrirgáfust líka ýmis óviðeigandi ummæli, sum meira að segja léttkrydduð rasisma, sem vafalaust hefðu kostað minni menn höfuðið. Hann létt sér fátt um finnast og breyttist lítt þótt straumar samfélagsins færu út og suður alla áratugina sem þau hjón fóru saman með húsaforráðin í Buckingham-höll.

Það væri hins vegar rangt mat að álykta að Filippus hafi verið kaldlyndur maður. Bréfaskriftir hans og Díönu prinsessu sýna að hann hafði t.d. djúpa samúð og skilning á erfiðri stöðu hennar innan konungsfjölskyldunnar, bæði fyrir og eftir skilnaðinn við Karl ríkisarfa. Þegar Díana lést stóðu synir hennar tveir á barnsaldri frammi fyrir því ömurlega verkefni að þurfa að sefa sorg múgsins með því að ganga langa leið á eftir kistu móður sinnar um stræti Lundúna. Þá stappaði afinn stálinu í sonarsyni sína með því að segjast vilja ganga sjálfur og hvort þeir vildu ekki ganga með sér? Það gerði útslagið og létti ungum sálum þungbæra göngu.

Filippus var fæddur prins. Hann var sjálfur af konunglegu bergi brotinn, því gríska og danska, og hermt er að hann hafi litið á sig sem Dana að uppruna. Saga móður hans Alice prinsessu er merkur kapítuli út af fyrir sig eins og rakið hefur verið í hinum geysivinsælu sjónvarpsþáttum The Crown á Netflix.

Vegna Filippusar var ættarnafni bresku konungsfjölskyldunnar breytt úr Windsor í Mountbatten-Windsor árið 1960 en Mountbatten (áður Battenberg) var þýskt ættarnafn móður hans sem hann tók sér. Filippus kvæntist Elísabetu krónprinsessu árið 1947 og saman eignuðust þau fjögur börn, Karl, Önnu, Andrés og Játvarð. Við brúðkaupið fékk hann titilinn Hertoginn af Edinborg sem Játvarður sonur hans mun erfa að föður sínum látnum.

Drottningarmaðurinn heimsótti Ísland tvívegis með formlegum hætti, þetta var árin 1964 og 1990. Hann hafði auk þess millilendingar í Keflavík í áranna rás og naut þá góðgerða í Leifsstöð. Með sönnu má því telja Filippus prins til Íslandsvina.

Samkvæmt fréttum í dag má búast við að útför Filippusar fari fram með látlausara sniði en vaninn er í bresku konungsfjölskyldunni og mun það vera að hans eigin ósk og vegna heimsfaraldursins.

Latest posts by Guðfinnur Sigurvinsson (see all)

Guðfinnur Sigurvinsson skrifar

Guðfinnur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.