Upprisa

Um þessar mundir kemst fátt annað að í umræðunni en kórónaveiran. Hvort sem maður rennir yfir fréttasíðurnar, skrollar niður facebook vegginn, heyrir í ættingja í sóttkví eða labbar hring í Elliðaárdalnum, umræðuefnið er alls staðar það sama. Það er því e.t.v. ekki skrítið að hugurinn leiti til COVID þegar sest er niður við hugleiðingar og skrif um Föstudaginn langa.

Um þessar mundir kemst fátt annað að í umræðunni en kórónaveiran. Hvort sem maður rennir yfir fréttasíðurnar, skrollar niður facebook vegginn, heyrir í ættingja í sóttkví eða labbar hring í Elliðaárdalnum, umræðuefnið er alls staðar það sama. Það er því e.t.v. ekki skrítið að hugurinn leiti til COVID þegar sest er niður við hugleiðingar og skrif um Föstudaginn langa.

Páskahelgin er helgasta hátíð kristinna manna en þá minnast þeir krossfestingar og upprisu Jesú Krists. Á þessum átakanlega og langa degi í píslarsögunni var Jesú húðstrýktur, krýndur með þyrnikórónu og hæddur og píndur meðan hann bar þungan trékross langan veg upp á Golgata-hæð, þar sem hann var að lokum krossfestur. Á krossinn var rituð yfirskriftin: „JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA“. Um síðustu andartök Jesú á krossinum segir í Matteusarguðspjalli:

En frá hádegi varð myrkur um allt land til nóns. Og um nón kallaði Jesús hárri röddu: „Elí, Elí, lama sabaktaní!“ Það þýðir: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ (MATT 2745-47)

Fyrst eftir að fyrsta tilfelli COVID-19 kórónaveiru greindist á Íslandi þann 28. febrúar sl., fannst manni tíminn líða hratt. Það var ekki fyrr en eftir að samkomubann tók gildi sléttum tveimur vikum síðar að manni fannst hægja á tímanum og aftur og enn frekar þegar samkomubannið var hert skömmu síðar. Það hægðist ósjálfrátt á taktinum hjá mörgum sem sitja ekki lengur fastir í umferð, þurfa ekki að keyra og skutla í tómstundir og barnaafmæli, engir zumba tímar eða saumaklúbbar á dagatalinu. Bara þær uppsöfnuðu mínútur sem færu annars í daglegt andlits-sparsl hjá konum lengja dagana, þ.e.a.s. ef þær eru eins hagsýnar og ég og með sérstakt (ófarðað) heimavinnulúkk.

Dagarnir eru nú hjá flestum „lengri“ (rólegri) og ýmislegt í umhverfinu reynir á. Ég ætla ekki að líkja mér við Krist á krossinum að hrópa til himnaföðurins, en margir dagar í röð í sama umhverfi, viku eftir viku, með orkumikilli 4ra ára útgáfu af sjálfri mér, hafa sannarlega kallað fram örvæntingu. Aðstæðurnar virðast samt kalla fram það besta í mörgum; góðverk, nýbreytni og lausnir í viðskiptaháttum og vinnuframlagi, umburðarlyndi, rólyndi, samstöðu og auðmýkt. Fjölmargir hafa lagt landsmönnum til góð ráð og hvatningu, útbúið lista yfir matsölustaði, hentuga útivist og jafnvel föndur. Aðrir hafa einfaldlega hvatt þá til þess að vera í stað þess að gera.

Mitt framlag á þessum helga degi er það að hvetja lesendur til þess að hugsa til Frelsarans og alls þess góða sem hann boðaði, m.a.:

  • að vera skjótur til sátta við andstæðinginn (MATT 525-26)
  • að vera bóngóður og hjálpsamur (MATT 542-43)
  • að koma fram við náungann eins og þú vilt að hann komi fram við þig (MATT 712-13)
  • að vera miskunnsamur (LÚK 636-37) og auðmjúkur (LÚK 147-12)

Með honum voru og færðir til lífláts aðrir tveir sem voru illvirkjar. Og er þeir komu til þess staðar, sem heitir Hauskúpa, krossfestu þeir hann þar og illvirkjana, annan til hægri handar, hinn til vinstri. Þá sagði Jesús: „Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra.“ (LÚK 2332-35)

Sóttinni mun linna og þeim veiku mun flestum batna. Þeim sem syrgja má vera huggun í boðskap páskanna um upprisu og eilíft líf.

Gleðilega páska!

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.