Þjónar og leiðtogar

Það þarf stundum ekki mikla upphafningu til þess að jafnvel hið besta fólk umturnist og fari að sjá allt og alla í kringum sig sem einhvers konar leikmuni og aukaleikara í leikriti um það sjálft. Þetta er mannlegt, einkum í ljósi þess hversu landlæg dýrkun á forystufólki er. Það þarf ekki að vera forstjóri í mjög stóru fyrirtæki til þess að búa við þann veruleika að nánast öll samskipti við annað fólk feli í sér einhvers konar undirgefni. Forstjórar þurfa heldur ekki að vera mjög gáfaðir til þess að fullt af fólki tali um þá sem snillinga, eða glæsilegir til þess að talað sé um þá eins og Hollywood leikara.


Skynsamt fólk sem velst til forystu eða nær miklum árangri á einhverjum sviðum gerir sér grein fyrir því að það er ekki til marks um vont innræti að láta velgengni stíga sér til höfuðs. Það er ósköp einfaldlega til marks um að maður sé mannlegur. Stundum þarf fólk að flækja sig illþyrmilega í eigin drambsemi áður en það áttar sig á hættunni, og sumir virðast komast í gegnum langa ævi án þess að gefa þessari hættu nokkurn gaum. Þeir sem aldrei átta sig á þessum hættum eru örugglega að miklu leyti þeir sömu og uppfylla flest klínísku skilyrðin um siðblindu.


Og ef það mun stíga flestum til höfuðs að stjórna litlu eða meðalstóru fyrirtæki, hvað þá með þá sem verða leiðtogar yfir stórum hópum eða jafnvel þjóðum? Dæmin sanna að þeir sem veljast til slíkra metorða þurfa að gæta sín mjög. Þetta hefur verið vitað mjög lengi og af þessari ástæðu var ráðinn hvíslari í sigurgöngum rómverskra hershöfðingja. Á meðan sigurreifi hershöfðinginn fór í gegnum Rómarborg og fólksfjöldinn fagnaði honum var hvíslað í eyra hans orðin „memento mori“ – „mundu að þú ert dauðlegur.“


Í dag er skírdagur í kristinni trú. Skírdagur er einn af þessum kristinu hátíðisdögum sem maður man ekki alltaf nógu vel af hverju er haldinn. Jú, á morgun er föstudagurinn langi, og þá var Jesús krossfestur. Og það var einmitt á skírdag sem Jesús hittist með lærisveinum sínum í háum sal í Jerúsalem og þeir snæddu saman síðustu kvöldmáltíðina. Jesús var auðvitað maður af holdi og blóði. Hann lýsti sjálfum sér meðal annars sem vínsvelgi og fór því auðvitað ekki varhluta af því að vera mannlegur. Hann hlýtur því að hafa verið meðvitaður um hætturnar sem fylgdu því að vera trúarleiðtogi sem margir litu upp til og dýrkuðu.


Og skírdagur heitir einmitt skírdagur vegna þess að í frásögn Jóhannesarguðspjalls af síðustu kvöldmáltíðinni kemur fram að áður en þeir settust að snæðingi, Jesús og lærisveinarnir, þá hafi leiðtogi hópsins kropið niður og þvegið fætur lærisveinanna. Sumir þeirra mótmæltu og fannst líklega að verkið væri auðmýkjandi og honum ekki samboðið. En þetta mun hann samt hafa gert og við mótmælum Símons Péturs svaraði hann því til, eins og foreldrar svara oft börnum, að hann myndi skilja þetta seinna.


Boðskapurinn er kannski eitthvað á þá leið að sá sem tekur að sér hlutverk leiðtoga, og gerir það að ræktarsemi, er ekki leiðtogi af því hann er betri eða merkilegri en aðrir, heldur einungis af því að þannig þjónar hann best.

Sjálfur hafði ég oft heyrt þessa sögu, en það er ekki fyrr en nýlega sem ég get sagt að ég skilji hana.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.