Lýðræðið mun sigra

Ofsóknir og mannréttindabrot gegn friðsömum mótmælendum eru viðvarandi og á síðustu mánuðum hefur Tsikhanouskaya hitt ráðamenn helstu Evrópuríkja til þess að vekja athygli á ástandinu.

Sviatlana Tsikhanouskaya, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Belarús, fundaði í dag með utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra Guðlaugi Þór, en hún er stödd hér á landinu í hans boði. Eiginmaður Tsikhanouskaya hefur setið í fangelsi í Belarús frá því hann tilkynnti um forsetaframboð gegn sitjandi forseta Lukashenko, en ríflega 500 pólitískir fangar sitja nú í fangelsum þar. Forsetakosningar fóru fram þann 9. ágúst sl. og töldust hvorki frjálsar né lýðræðislegar, enda stóðust þær ekki alþjóðleg viðmið um lýðræði og réttarríki. Ofsóknir og mannréttindabrot gegn friðsömum mótmælendum eru viðvarandi og á síðustu mánuðum hefur Tsikhanouskaya hitt ráðamenn helstu Evrópuríkja til þess að vekja athygli á ástandinu.

Íslensk stjórnvöld hafa gagnrýnt framgöngu ríkisstjórnar Lukashenko og lýst yfir þungum áhyggjum af stöðu mannréttinda og lýðræðis í Belarús. Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur sent frá sér yfirlýsingar til stuðnings mannréttindum og lýðræði í Belarús og Ísland hefur staðið að sameiginlegum yfirlýsingum með Norðurlöndunum og í samstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja (NB8), m.a. á opnum fundi öryggisráðs SÞ, á vettvangi mannréttindaráðsins og ÖSE. Þá styður Ísland frjáls félagasamtök í Belarús og tekur þátt í refsiaðgerðum vestrænna ríkja gagnvart Lukashenko-stjórninni.

Tsikhanouskaya kallaði eftir áframhaldandi og auknum stuðningi Íslands við Belarús, m.a. í formi viðtöku menntafólks í íslenska háskóla. Guðlaugur Þór tjáði henni það að hún gæti áfram treyst á stuðning Íslands í baráttu sinni fyrir þeim borgaralegu réttindum sem okkur þykja sjálfsögð en eru það alls ekki í heimalandi hennar. Ísland myndi halda áfram að þrýsta á stjórnvöld í Belarús að virða mannréttindi, láta pólitíska fanga lausa úr fangelsi, hætta ofsóknum gegn friðsömum mótmælendum og boða til frjálsra og sanngjarna kosninga í samræmi við vilja þjóðarinnar. 

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.