Ríkið og ríkið eitt

Maður sem ég vann einu sinni með sagði mér að hann væri ekki viss um að fólki myndi farnast betur eftir því sem því sem aðgangur þess að upplýsingum yrði meiri. Á þeim tima efaðist ég um réttmæti þessarar skoðunar og fannst hún jafnvel – og það sem þá var verst – úr takti við tímann. Því miður hefur þessi samferðarmaður minn til skamms tíma reynst hafa á réttu standa.

Flestir jarðarbúar eru einungis nokkrum þumlungum, ef nota má það orð yfir um smellur á símaskjá með þumli, frá því að fá upplýsingar um nánast hvað sem er á milli himins og jarðar. Ofgnótt upplýsinga er slík að handtína má slitrur héðan og þaðan til að sýna fram á nánast hvað sem er. Sú hugmynd að upplýsingin sé vopn borgaranna gagnvart ríkisvaldinu eða öðrum þeim sem reyna að kúga minni máttar hefur smám saman snúist upp í andhverfu sína.

Það er við þessar aðstæður sem við þurfum að horfa til þess hvað það er sem greinir að uppýsingamettað samfélag frá upplýstu samfélagi. Hvað er það sem gerir það að verkum við getum nýtt upplýsingaútópíuna til góðs? Af hverju hnígur þjóðmálaumræðuna í svo að segja beinu hlutfalli við aukið framboð af upplýsingum?

Með upplýsingabyltingunni sem varð um og eftir síðustu aldamót fjaraði undan fréttamennsku og fjölmiðlun eins og hún var upp á sitt besta. Ólíkt því sem virðist vera raunin í dag voru fréttir afrakstur reynslu og dómgreindar, verðmætasköpunar sem byggði á hugviti og þekkingu, hæfileikanum til að vinna úr upplýsingum.

Þegar upplýsingar urðu aðgengilegar öllum, alltaf, samtímis og í mesta mögulega mæli, gerðist það að fólk varð minna upplýst. Það veit núna minna um það sem er að gerast í heiminum, það áttar sig síður á stóru myndinni og er verr í stakk búið en áður til að móta sér skoðun á þeim atburðum sem móta samtímann og framtíðina.

Við erum að átta okkur of seint á því að upplýsingar eru hrávara. Það gengur engin bifreið fyrir óunninni olíu og samfélagið virkar ekki á grundvelli hrárra upplýsinga. Við þurfum að greina veruleikann, staðreyndir, þróun og breytingar til að geta meðtekið upplýsingar svo að gagn sé að.

Til þess þurfum við fjölmiðla. Ekki bara fjölmiðla sem við erum alltaf sammála eða sannfæra okkur um okkar eigin viðteknu skoðun á málum. Við þurfum fjölmiðla sem við erum ósammála og við þurfum jafnvel fjölmiðla sem við óbeit á. Við þurfum gagnrýni og við þurfum ólík sjónarmið.

Annars snýst upplýsingin í andhverfu sína.

Af þessum sökum þurfum við að hverfa af þeirri braut sem mörkuð hefur verið að ríkíð og ríkið eitt geti annast túlkun og greiningu upplýsinga. Við þurfum, nú frekar en nokkru sinni áður, öfluga, einkarekna og óháða fjölmiðla sem greina og miðla upplýsingum út frá dómgreind og gildismati sem er óháð algóritmanum og viðteknum skoðunum.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.