I can’t breathe

Mótmæli hafa staðið yfir í sex daga víðsvegar um Bandaríkin í kjölfar þess að George Floyd lést eftir aðgerðir og ofbeldi lögreglu þann 25. maí. Á myndskeiði af atburðarásinni má sjá lögreglumann sitja ofan á George, þar sem  hann liggur handjárnaður á grúfu í götunni. Þar sést skýrt hvernig lögreglumaðurinn þrýstir hnénu á hnakka George. Og þar heyrist skýrt hvernig George biðst vægðar og endurtekur aftur og aftur að hann geti ekki andað. George Floyd lést á sjúkrahúsi um klukkutíma eftir þessar aðfarir lögreglu og lögreglumaðurinn sem sat ofan á honum verið ákærður fyrir að valdið dauða hans. Öðrum lögreglumönnum sem voru á vettvangi hefur verið vikið úr starfi.  Og George Floyd er enn ein táknmyndin fyrir það ofbeldi sem svartir Bandaríkjamenn verða fyrir af hálfu lögreglu.

Sú alda mótmæla sem hefur breitt úr sér yfir Bandaríkin eru sterk og mikil. Eftir er að sjá hvort að þessi alda verði nógu sterk til að leiða fram þrýsting um raunverulegar breytingar. Áratugasaga af  lögregluofbeldi gagnvart svörtum í Bandaríkjunum gefur hins vegar enga sérstaka ástæðu til bjartsýni. Þau samskipti eru samofin sögu ójafnréttis og óréttlætis gagnvart svörtum. Í allnokkrum þessara mála hefur svo reiðin brotist út aftur, þegar dómstólar hafa sýknað lögreglumenn af ofbeldi eða því að hafa valdið dauða bandarískra borgara. Bandaríkjamenn sem eru dökkir á hörund þekkja sömuleiðis vel að réttarkerfið er þeim heldur ekki griðastaður né endilega vettvangur til að sækja réttlætis.  Þetta lögregluofbeldi er samofið þeirri sögu Bandaríkjanna að hafa flokkað borgara eftir litarhætti. 

Tilgangur mótmælanna verður þess vegna að beina kastljósinu að óréttlætinu og ójafnréttinu í samfélaginu öllu. Ítrekað ofbeldi lögreglumanna er alvarleg birtingarmynd þessa óréttlætis. Viðhorfsbreytingin hvað varðar kynþætti er  hvað þetta varðar ekki komin svo langt.  Þess vegna skiptir það ekki öllu máli hvaða lögreglumaður varð George Floyd að bana eða hversu oft hafði verið kvartað undan vinnubrögðum hans. Þessi maður er því miður alls ekki algjör undantekning. Þessi saga er nefnilega langt frá því að vera ný. Ofbeldi þessa lögreglumanns snýst um útbreitt ofbeldi sem svartir verða fyrir og mega stöðugt eiga von á af hálfu lögreglu. 

Þeir sem ekki lifa þann veruleika að hræðast afskipti lögreglu geta ekki skilið hvað það felur í sér. Hvernig líf það er að vita að einföld afskipti lögreglu geta hæglega þýtt ofbeldi og jafnvel að menn láti lífið. Hvernig það er að vita að litarháttur og uppruni ræður úrslitum um hvort borgararnir komast lífs af í samskiptum sínum við yfirvöld. Þennan veruleika er mikilvægt að við skiljum.

Enn mikilvægara er svo að viðurkenna hvað lögreglumaðurinn í þessum aðstæðum hugsaði og hvers vegna. Hvers vegna hann og starfsbræður hans á vettvangi voru rólegir og yfirvegaðir á meðan hann beitti þeim aðferðum sem hann gerði. Myndskeiðið sýnir að lögreglumaðurinn gat gert ráð fyrir því að aðfarir hans væru teknar upp. Hann virðist hins vegar ekki telja að hann þurfi að gæta sín þrátt fyrir að fólk sjái það sem fram fór. Hann virðist ekki óttast afleiðingar þess að að þessi atburðarás verði tekin upp. Myndskeiðið sýnir jafnframt George Floyd lést ekki vegna atburðarásar sem fór úr böndunum eða að lögreglumaðurinn missti stjórn á sér. Lögreglumaðurinn sat rólegur með hendur í vösum á meðan hann þrýsti hnénu fast og lengi á hnakka George Floyd sem endurtók aftur og aftur,  að hann gæti ekki andað. Lögreglumaðurinn reyndi ekki að ganga úr skugga um  réttmæti þeirra orða heldur þrýsti áfram í margar mínýtur. Lögreglumaðurinn færði hnéð heldur ekki ofan af hnakka  George Floyd eftir að hann er hætti að tala eða eftir að hann hætti að biðjast vægðar. Og ekki heldur þegar vegfarendur hrópaðu á lögreglumanninn að maðurinn hefði misst meðvitund. Aðrir lögreglumenn á vettvangi sáu ekki ástæðu til að grípa inn í, heldur stóðu álengdar en gerðu ekkert sem gat bjargað lífi George.

Kynþáttahatur er auðvitað enn veruleiki Bandaríkjanna. Myndbandið sýnir okkur sannleika. Myndbandið sýnir okkur veruleika sem við vitum af og sjáum af til.  Og myndbandið sýnir hvers vegna það er fullkomlega eðlilegt að fólk sem er svart á hörund óttast lögregluna, mannanna sem eiga að gæta öryggis borgaranna. Saga George Floyd er því miður saga margra Bandaríkjamanna. Það er saga lögreglumannsins líka. Enginn sem sér myndbandið getur komist að annarri niðurstöðu en að lögreglumaðurinn var í fullkominni yfirburðastöðu og beitti valdi sínu, eða ofbeldi, langt umfram það sem getur nokkurn tímann talist eðlilegt.

Fréttir af mótmælunum bera með sér að líta alveg aftur til óeirðanna sem brutust út eftir að Martin Luther King var myrtur árið 1968 til að sjá jafn samræmdar aðgerðir í ríkjum Bandaríkjanna.  Útgöngubann hefur verið sett á í um 25 borgum í sextán ríkjum og þjóðvarðliðið hefur verið virkjað í um tólf ríkjum sem og í höfuðborginni Washington.  Það er óskandi að þessi alda réttlátrar reiði verði nægilega sterk til að ná því fram að krefjast umbóta um starfshætti lögreglu og óskandi að mótmælaaldan nái fram þeim skilningi að ef ekki verður farið í að uppræta ákveðna menningu og ákveðin viðhorf innan lögreglu og í samfélaginu öllu þá verður saga George Floyd bara enn ein sagan.

Latest posts by Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (see all)

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar

Obba hóf að skrifa á Deigluna sumarið 2001.