Bólferðabann í Bretlandi

Fólk sem þekkti til sögunnar sagði í upphafi kófsins að í gegnum söguna væri áberandi hversu fljótt samfélög færu aftur í eðlilegt ástand eftir að hafa gengið í gegnum sambærilegar þrautir. Þetta sjáum við gerast hér á Íslandi núna. Ólíkt stríðsátökum og náttúruhamförum þá eru farsóttir þess eðlis að ekki verður mikið tjón á framleiðslutækjum og öðrum veraldlegum verðmætum. Ef mannskaðinn er ekki þeim mun meiri, þá ætti í raun ekki margt að vera því til fyrirstöðu að taka aftur upp fyrri þráð þegar mesta hættan er afstaðin.

Sá sem horfir í kringum sig í Reykjavík núna í upphafi júní 2020 myndi eflaust ekki telja að nein ástæða væri til að ætla að eitthvað mjög skrýtið sé nýlega búið að gerast. Og þeir sem ekki hafa misst vinnu eða heilsu finna vafalaust flestir fyrir því að lífið sé komið nokkurn veginn algjörlega í sinn vanagang. Stórar samkomur fólks eru vissulega ennþá bannaðar, en slíkt er að jafnaði ekki stór hluti af hversdaglegu lífi fólks hvort sem er.

Þegar horft er til útlanda sjáum við allt aðra mynd. Þar eru samfélög víða ennþá í miklum sárum. Sums staðar í heiminum hefur fólk verið læst inni hjá sér vikum og mánuðum saman. Og fyrir okkur hér á Íslandi er sá veruleiki algjörlega víðs fjarri; og líklega myndu margir gapa af undrun og ótta yfir þeim glannaskap að fólk sé byrjað að ganga um, heilsast, tala saman, jafnvel faðmast og kyssast—allt án þess að vera með andlitsgrímur. Hér á landi er að myndast þrýstingur fyrir því leyfa opnun skemmtistaða lengur en til klukkan 23 á kvöldin. Það eru stóru áhyggjurnar.

Í Bretlandi er ekki bara ennþá bann við fjölmennum samkomum. Þar er ætlast til þess að menn fari einir saman, því maður má þar ekki lengur vera manns gaman. Þar í landi eru stjórnvöld höfð að spotti fyrir að setja reglur sem virðast hafa þau áhrif að gera kynferðislegt samneyti fólks af ólíkum heimilum beinlínis ólöglegt í sóttvarnaskyni. Frá og með síðustu mánaðarmótum er nefnilega ólöglegt í Bretlandi að halda fundi með tveimur eða fleiri einstaklingum innandyra. Sérstaklega er lagt bann við því að fólki gisti yfir nótt inni á heimilum öðru en sínu eigin, nema til þess liggi lögmætar ástæður. Það að eiga ástarfund við einhvern sem ekki er þegar skráður á heimilið er ekki tilgreint sem lögmæt afsökun á þeim undanþágulista sem lagður hefur verið fram. Hefði maður þó haldið að innan breska stjórnkerfisins væri umtalsverður persónulegur skilningur á þeim vandkvæðum sem svona takmarkanir geta haft í för með sér.

Það er nánast dónalegt fyrir Íslendinga um þessar mundir að glenna framan í heimsbyggðina frjálsræðið sem ríkir á flestum sviðum hér á landi. En fiskisagan flýgur, eins og sést á því að frétt New Yorker um Ísland er sú næstmestlesna á miðlinum síðasta sólarhring, þótt sitthvað annað fréttnæmt sé að gerast á þeim slóðum. Erfitt er að vita hvenær ásóknin í að heimsækja Ísland mun fara af stað. Í þetta skiptið verður aðdráttaraflið ekki bara náttúran og menningin, heldur kannski sú staðreynd að stjórnvöld hér á landi séu ekki farin að hafa bein afskipti af bólförum fólks og ástarlífi.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.