Stjórnarskrárstappið

Raunveruleg saga stjórnlagaráðs yrði seint efni í hugljómandi Hollywood-mynd, þótt stundum megi annað greina af seinni tíma skýringum.

Ég var staddur í Kaupmannahöfn í byrjun mánaðar og gekk á fallegu kyrru haustkvöldi að Litlu hafmeyjunni sem sat makindalega á fáguðum steini sínum við Löngulínu, eins og hún hefur gert um áratugaskeið. Oftast í friði. Þegar ég nálgaðist styttuna tók ég eftir því að búið var að líma A4 blað á steininn með einhverjum texta og mér datt í hug að sennilega væru þetta einhver sóttvarnaskilaboð frá danska ríkinu. Mér til undrunar blöstu við orð á okkar ástkæra ylhýra og skilaboðin þau sömu og búið er að spreyja með óumhverfisvænum hætti um alla Reykjavíkurborg: „Hvar er nýja stjórnarskráin?“

Ég verð að segja að það er hið skynsamlegasta útspil stjórnarskrárfélagsins eða stuðningsfólks þess að auglýsa eftir nýrri stjórnarskrá hjá Dönum. Einfaldlega vegna þess að sú sem við fengum frá þeim síðast árið 1874 hefur dugað okkur alveg prýðilega. Stjórnarskrá lýðveldisins sem samþykkt var á Þingvöllum við stofnun þess sumarið 1944 byggir á henni en hefur síðan tekið breytingum átta sinnum, síðast 2013. Nú eru níundu stjórnarskrárbreytingarnar á lýðveldistímanum í meðferð þingsins og því er óhætt að segja að stjórnarskráin okkar sé lifandi plagg sem tekur breytingum í takt við tímann. Stjórnarskráin er vegna þessara breytinga ekki dönsk lengur heldur íslensk en hefur þann kost að byggja á gömlum grunni klassískra lýðræðiskenninga og stjórnskipunar sem önnur evrópsk ríki byggja á og er sá þráður sem bindur okkar saman í alþjóðasamstarfi.

Í kjölfar bankahrunsins 2008 og upp úr hávaða búsáhaldabyltingar kemur fram sú krafa að nauðsynlegt sé að skrifa nýja stjórnarskrá. Þrátt fyrir að engum hafi til þessa dags tekist að sýna fram á orsakasamhengið þar á milli fór málið af stað. Ef stjórnmálasaga áranna eftir hrun er skoðuð sést hins vegar hversu vel stjórnarskráin virkaði. Ríkisstjórnin þáverandi fór frá og ný var kjörin með þeim lýðræðislega hætti sem stjórnarskráin kveður á um og síðar þegar þjóðin klofnaði í afstöðu sinni vegna Icesave-málsins beitti forsetinn málsskotsréttinum sem honum er tryggður í 26. málsgreininni og mál þessi fóru í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þau fengu loks farsælan endi sem þjóðin gat vel unað við. Stjórnarskrá sem virkar við eins erfiðar þjóðfélagsaðstæður og þessar er góð stjórnarskrá, þótt alltaf megi gott bæta.

Raunveruleg saga stjórnlagaráðs yrði seint efni í hugljómandi Hollywood-mynd, þótt stundum megi annað greina af seinni tíma skýringum. Upphaflega stóð til að kjósa til stjórnlagaþings og buðu 500 manns sig fram sem gerði alla málefnaumræðu og alvöru kynningu á frambjóðendum ómögulega. Enda fór það svo að þau sem hlutu kjör fengu fylgi sem hefði vart dugað til stjórnarsetu í húsfélagi. Þau sem hlutu kjör voru öll þjóðþekktir álitsgjafar úr Silfri Egils, einsleitur hópur fólks sem nær allur hafði búsetu á höfuðborgarsvæðinu. Kjörið fór fram með ruglaðri aðferð við aðstæður sem ekki voru boðlegar í lýðræðisríki enda var kjör stjórnlagaþings dæmt ógilt af Hæstarétti sem fann alls fimm annmarka á framkvæmd kosninganna. Í framhaldinu réðst hrein og klár vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar í það verk að skipa svokallað stjórnlagaráð með pólitískum hætti. Þar með urðu vatnaskil og mikil eðlisbreyting. Ferlið sem til stóð að yrði hafið yfir flokkapólitík og með eins mikilli aðkomu almennings og hugsast gat varð pólitískt. Aðeins einn sem náði ólöglegu kjöri á stjórnlagaþing sá sóma sinn í að ljúka vegferð sinni þarna. Hinir sátu áfram í pólitísku umboði vinstri stjórnarinnar, ekki þjóðarinnar.

Jæja, út úr þessari pólitísku vinnu koma loks drög að nýrri stjórnarskrá. Þá er þjóðin spurð hvort þau megi leggja fyrir Alþingi Íslendinga til grundvallar stjórnarskrárbreytingum. Þetta samþykkti meirihluti kjósenda naumlega, reyndar með lélegri kjörsókn í öllum seinni tíma samanburði. En hvað um það, hér er lykilorðasambandið „til grundvallar.“ Það var aldrei spurt eða því svarað hvort þjóðin vildi þessi drög í heild sem nýja stjórnarskrá, hvað þá að opinber umræða í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar hafi verið á þeim nótum. Öðru er nú haldið fram af hálfu stjórnarskrárfélagsins svokallaða og látið í veðri vaka að Alþingi sé að hundsa þjóðarvilja þegar auglýst er eftir nýrri stjórnarskrá. Þetta eru hrein og klár ósannindi.

Forseti Alþingis tók sannarlega við drögum stjórnlagaráðs og þau hafa sannarlega verið til grundvallar í vinnu þingmanna sem með málið fara og reyna nú að ná þverpólitískri sátt um stjórnarskrárbreytingar.  „Til grundvallar“ felur í sér að þingmenn sem þjóðin hefur kjörið með réttmætum hætti fara yfir drögin, velja og hafna samkvæmt stjórnarskrá í samræmi við sína eigin sannfæringu og bera á málinu fulla pólitíska ábyrgð. Nokkuð sem fulltrúar í pólitísku stjórnlagaráði báru í raun ekki. Stjórnarskrá lýðveldisins lýsir ferlinu við stjórnarskrárbreytingar með afar skýrum hætti. Til þess þarf samþykki tveggja þinga með kosningum á milli. Þetta er gert því stjórnarskráin á að veita festu en ekki vera eins og vindhani í pólitískum stormum.

Krafan um nýja stjórnarskrá sem nú er borin uppi með mikilli áróðurherferð byggir á spuna og sögufölsun. Nú er þrýst á um að Alþingi samþykki drög stjórnlagaráðs óbreytt. Réttu máli er vísvitandi hallað og eins og við mátti búast úr vinnu frá pólitísku stjórnlagaráði er alls kyns deilumálum blandað inn í stjórnarskrárdrögin sem eiga heima í almennri löggjöf og almenningi gefst kostur á að gefa álit sitt á í hverjum einustu þingkosningum.

Stjórnarskrá lýðveldisins á að vera ramminn um stjórnskipun landsins sem við eigum öll að vera sátt við en ekki kveikja pólitískra deilna. Það kemur ekki á óvart að þau sem helst tala fyrir nýrri stjórnarskrá standa vinstra megin við hina pólitísku miðju og úr hreyfingu Pírata. Það er vandfundinn sá stuðningsmaður miðju- og hægri flokkanna sem styður að þessi drög verði tekin upp óbreytt. Meira að segja veit ég um efasemdarfólk af vinstri vængnum og fimmti forseti lýðveldisins sem hefur fræðilega þekkingu á málinu styður þetta ekki. Ekki heldur Feneyjarnefndin sem hefur verulegar athugasemdir við flækjustigið í stjórnarskrárdrögunum. Sama má segja um Lögmannafélagið, stétt sem þarf að hafa skýra leiðsögn í stjórnarskránni til að réttarríkið virki.  Virtir fræðimenn á sviði stjórnmálafræði og opinberrar stjórnsýslu hafa sömuleiðis lýst efasemdum.

Ef við snúum þessu aðeins við, hvað fyndist fólki ef Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn hefðu saman í ríkisstjórn hafið sambærilega vegferð með stjórnarskrána? Skipað álitsgjafa úr sínum röðum til að kokka upp stjórnarskrárplagg með sínum pólitísku áherslum og væru nú að beita öllum tiltækum ráðum til að troða því óbreyttu í gegnum þingið, helst án umræðu og þrátt fyrir allar efasemdir. Geta þau sem nú styðja tillögur stjórnlagaráðs óbreyttar sem nýja stjórnarskrá í allri sanngirni samþykkt að það væru sjálfsögð og eðlileg vinnubrögð? Eða myndi heyrast hljóð úr vinstra horninu? Háværar ásakanir um valdníðslu, þöggun og ofríki, jafnvel ofbeldi? Stjórnarskrá sem unnin er á forsendum tiltekins hóps sem vill bola öðrum frá slíkri vinnu verður aldrei stjórnarskrá allrar þjóðarinnar. Hún verður bara plagg sem sumir virða en aðrir ekki. Slík stjórnarskrá mun kljúfa þjóðina í stað þess að sameina. Hvert erum við komin þá?    

Stjórnarskrárferli sem endaði í algjörri lögleysu og vakið var til lífsins með pólitísku hjartahnoði Jóhönnu Sigurðardóttur er nú komið á þann stað að hávær krafa er um að rjúfa þá samfélagslegu sátt sem ríkja á um stjórnarskránna og breytingar á henni. Jóhanna lagði allt sitt undir á lokadögum sinnar pólitísku ævi, sem nú er blessunarlega lokið, til að berja málið í gegnum þingið. Það tókst ekki m.a. vegna andstöðu í hennar eigin þingflokki og ríkisstjórn hennar féll í Alþingiskosningunum 2013. Hvað segir það um þjóðarviljann í þessu máli?

Og talandi um þjóðarviljann. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 sem félagar í stjórnarskrárfélaginu geta vart talað um án þess að tárast voru kjósendur spurðir um afstöðu til ýmissa ákvæða sem ættu annað hvort að koma fram í stjórnarskrárdrögum stjórnlagaráðsins eða falla út. Það var m.a. spurt hvort þar ætti að vera ákvæði um Þjóðkirkju eins og nú er. Meirihluti kjósenda eða 51% vildi halda Þjóðkirkjuákvæðinu. Í tillögum stjórnlagaráðs er hins vegar ekkert slíkt ákvæði að finna. Þetta er öll virðingin sem stjórnlagaráð sjálft sýndi þjóðarviljanum, það valdi bara og hafnaði án nokkurs lýðræðislegs umboðs á sínum eigin pólitísku forsendum. Að fólk sem styður slík vinnubrögð tali nú um virðingu fyrir þjóðarvilja, sem aldrei hefur verið til staðar, er í besta falli broslegt.

Latest posts by Guðfinnur Sigurvinsson (see all)

Guðfinnur Sigurvinsson skrifar

Guðfinnur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.