Fólk í fréttum

Svölun forvitninnar er nú megintilgangur fjölmiðlunar og flestir fjölmiðlar höfða nánast blygðunarlaust til þessarar fýsnar. Leitin eftir því að vita, þekkja og að lokum skilja verður erfiðari og erfiðari.

Ég hef heyrt því fleygt að hárfín lína sé milli forvitni og fróðleiksfýsnar. En eins og með margar hárfínar línur þá er þessi í raun hyldýpisgjá sem skilur að tvö algjörlega ólík fyrirbæri, þegar betur er að gáð.

Forvitni er þörf fyrir stundarfró, svölun þeirrar fýsnar að vilja vita án þess að ætla það að sú vitneskja leiði endilega til þekkingar eða skilnings. Fróðleiksfýsn er aftur á móti leit, endalaust leit að því að vita til þess þekkja og að lokum að skilja. Bæði fyrirbærin eiga það auðvitað sameiginleg að þorstinn verður aldrei slökktur en lengra nær samanburðurinn ekki.

Þegar ég var að alast upp á Akranesi kom Morgunblaðið með fyrstu ferð Akraborgar úr Reykjavík, sem lengst af lenti í Akraneshöfn klukkan 11, og var blaðið því að jafnaði borið út um eða uppúr hádegi. Engin dyralúga var á vaskahússhurðinni á Skólabrautinni og því mátti alltaf heyra blaðburðardrenginn opna dyrnar og skella hurðinni aftur þegar hann henti blaðinu inn.

Umsvifalaust var maður sendur – og síðar meir að eigin frumvæði – niður í vaskahús til að sækja blaðið. Þótt fréttirnar í blaðinu hefðu verið skrifaðar kvöldið áður og atburðirnir sem þar var lýst stundum margra daga gamlir, þá voru þetta fréttir fyrir okkur á Skólabrautinni, heimsmyndin á hverjum degi. Nema á mánudögum, þá var enginn Moggi.

Þá tíðkaðist að erlendar fréttir fengu forsíðu blaðsins og innlendar baksíðuna, nema stórviðburðir hefðu orðið innanlands. Með því að líta yfir forsíðuna var hægt að átta sig á því hvað væri efst á baugi í heiminum. Við lestur blaðsins á innsíðum var oft eitthvað sem ekki var auðskilið en það var samt lesið. Maður vissi það alla vega, þótt skilningurinn kæmi kannski ekki strax.

Fréttirnar voru flestar alvarlegar. Verkföll, aflabrestur, sjóslys og efnahagsmál voru ofarlega á baugi á innlendum vettvangi og að utan bárust fréttir af gangi stríðsins milli Íraks og Íran fyrir botni Persaflóa, stöðu mála í Afganistan þar sem Rússar höfðu ráðist inn í landið og við vorum á móti þeim, frelsun Falklandseyja sem okkar kona Thatcher tryggði, innrásinni í Grenada, kjarnorkuvopnakapphlaupinu, afvopnunarviðræðunum, hermdarverkum (eins og hryðjuverk hétu þau) og morðum á fólki eins og Indiru Gandhi og Olof Palme.

Aftarlega í blaðinu var svo um áratugaskeið sérstakur hluti sem hét Fólk í fréttum. Í þeim blaðhluta var að finna umfjöllun um það fólk sem iðulega var í fréttum eða var frægt fyrir eitthvað annað, eins og listsköpun. Þessi umfjöllun – um fólk í fréttum- var höfð á sérstakri síðu til aðgreiningar frá því sem fréttnæmt þótti.

Ég efast um að margir blaðhlutar hafi verið meira lesnir en þessi, jú mögulega stjörnuspáin, minningagreinarnar og líklega íþróttasíðurnar. En manni var ljóst við lesturinn að þetta voru ekki fréttir, þetta voru frásagnir af fólki sem var iðulega í fréttum eða frægt að öðru leyti. Fréttirnar voru á forsíðunni, baksíðunni og á síðunum framarlega í blaðinu. Þetta skildi maður sem barn.

Ég velti því stundum fyrir mér hvernig börn og ungmenni eiga að fara að því í dag að greina á milli þess sem raunverulega er fréttnæmt og þess er það ekki. Raunar má efast um stór hluti almennings geri það, miðað við framsetningu frétta almennt.

Í raun og veru hefur þetta snúist við. Fólk í fréttum er orðið að fréttum af þessu fólki. Hvaðeina það sem tiltekið fólk gerir þykir nánast undantekningarlaust fréttnæmt og því er slegið upp óaðgreindu frá því sem raunverulega er fréttnæmt. Einhver segir eitthað á Facebook, það er frétt. Einhver svarar því sem einhver segir á Facebook, það er líka frétt. Svo er frétt af því hvernig einhverjum leið þegar hann sá það sem einhver sagði á Facebook.

Ég nefndi að framan að með því að líta á fyrirsagnir forsíðunnar mátti fá glögga mynd af stöðu mála í heiminum, það þurfti ekki að lesa mikið. Nú er fréttir þannig að fyrirsagnir eru helst alveg óskiljanlegar og engin leið að átta sig á hvaða frétt er á ferðinni nema að smella. Það er spilað á forvitni fólks, forvitni sem krefjast svölunar, því meiri forvitni, því meiri svölunarþörf, því fleiri smellir. En eftir smellinn er ekkert meira, bara næsta sem grípur augað, næsti smellur.

Svölun forvitninnar er nú megintilgangur fjölmiðlunar og flestir fjölmiðlar höfða nánast blygðunarlaust til þessarar fýsnar. Leitin eftir því að vita, þekkja og að lokum skilja verður erfiðari og erfiðari.

Já, ég veit að ég er að eldast og þá líður manni eins og allt hafi verið betra í gamla í daga. En hvernig er hægt að halda því fram, þegar litið er yfir stöðuna, bæði hér heima og víðast hvar erlendis, að við höfum gengið til góðs síðustu áratugi hvað þetta varðar?

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.