Úr sveit í borg

Eftir jólafrí á mínu fyrsta ári í menntaskóla gekk íslenskukennari minn á alla í bekknum og spurði hvaða bækur hver og einn hafi lesið um jólin. Hann byrjaði á sætaröðinni úti við stofudyrnar og gekk á hvern nemanda í fremstu röð, alveg framhjá kennaraborðinu og út að glugga. Þá næstu röð og út að snögunum sem héngu á veggnum. Svo næsta röð frá snögunum að ofninum í stofunni, framhjá læstu brunaútgangshurðinni og svona koll af kolli. Ég var svo heppinn að sitja úti í horni í öftustu röð í stofunni, vegna þess að ég þurfti virkilega að hugsa málið. 

Ég hafði nefnilega ekki lesið neitt um jólin. Hvorki bækur né tímarit, fréttamiðla eða pistlasíður. Ég man ekki betur en svo að ég hafi verið eini nemandinn í bekknum sem hafði ekki lesið bækurnar sem ég fékk í jólagjöf. Hvernig átti ég eiginlega að ljúga mig útúr þessu? Ég man ekki hvaða bók ég sagðist hafa lesið þessi jólin en ég man bara að ég var að ljúga. Allir samnemendur mínir sögðu skilmerkilega frá því sem þeir höfðu lesið sér til yndis yfir hátíðirnar.

Það var þá sem ég byrjaði að skilja hvernig það gat verið munur á siðum og lifnaðarháttum fólks á Íslandi eftir því hvar það býr. Ég var nefnilega eini úr mínum busabekk í MR sem kom úr Grafarvogi. Flestir aðrir voru úr Vesturbæ eða miðbæ Reykjavíkur. Einhverjir þó úr Kópavogi og Hafnarfirði og kann að vera að þeir hafi einnig logið til um jólabókalesturinn það árið, en látum það liggja milli hluta. Það stóð hins vegar ekki á svörunum hjá Vesturbæingunum og miðbæjarfólkinu.

Arnaldur og Dostojevskí

Ég ólst upp í umhverfi þar sem lestur var eiginlega ekki til. Mamma las, jú, oft fyrir svefninn; einhverja krimma eftir Arnald, Yrsu eða erlenda höfunda. Aldrei hafði ég þó heyrt um fagurbókmenntir, Þórberg Þórðarson eða Dostojevskí fyrr en ég kom í MR. Ég lærði um Íslendingasögurnar í grunnskóla en það heyrði til undantekninga ef ég fylgdist með í þeim kennslustundum. 

Allar götur síðan að ég sat þennan eftirminnilega jólabókatíma í íslensku í MR hef ég verið heltekinn af þeim mun sem er á veruleika þeirra sem koma úr öðrum borgarhlutum en vestur- og miðbæ Reykjavíkur. Flestir mínir vinir í dag eru úr þeim helmingi borgarinnar og hefur því heimsmynd mín mótast eftir því. Það er ekki þar með sagt að ég lesi heilu bækurnar á viku í dag, en ég skil þó a.m.k. mikilvægi þess að lesa sér til gagns og yndis.

Ég ætla ekki að fullyrða að íslensku menntakerfi sé þannig háttað að börn sem alast upp miðsvæðis í Reykjavík hafi forskot á börn sem koma annars staðar að. Ég ætla heldur ekki að fullyrða um að þau fái forskot á önnur börn vegna þess að þau eru úr umhverfi þar sem menningarlæsi, lestur bóka um jól og almennur samfélagsskilningur er í hávegum hafður. 

Ég ætla samt að ýja að því. 

Shake & Pizza og Kaffi Vest

Ég ætla líka að gefa mér það að fólk úr efri og ytri byggðum Reykjavíkur sé almennt andsnúnara aðförinni að einkabílnum heldur en fólk sem býr meira miðsvæðis. Það er ályktun sem auðvelt er að draga. Það er líklegra að þú finnir einhvern sem er andsnúinn borgarlínu á Shake & Pizza í Egilshöll heldur en á Kaffi Vest. Svoleiðis er það bara. 

Er ég þarmeð að segja að stuðningur við borgarlínu ráðist einfladlega af því hvort fólk hafi alist upp við lestur fagurbókmennta í stað Mannasiða Gillz? Já og nei. Það er hins vegar nokkuð þekkt staðreynd að borgarfulltrúar búi allfelstir miðsvæðis og þess vegna miðast kannski sú stefna sem borgarstjórn tekur út frá því. Ég veit allavega að téður íslenskukennari, sem spurði alla í bekknum hvað þeir höfðu lesið um jólin, er mjög bókhneigður og bóhem. Yndislegur kall samt.

Þær ályktanir sem ég dreg hér eru að miklu leyti úr lausu lofti gripnar og stæðust jafnvel ekki skoðun ef ofan í þær yrði rýnt. Þær lýsa þó þeirri tilfinningu (e. gut feeling) sem ég fékk í jólabókatímanum áðurnefnda og þeirri tilfinningu sem ég hef haft ætíð síðan. Ég held nefnilega að það halli oft á þá semekki eru af sama uppruna og þeir sem völdin hafa. Jafnvel innan svo lítils samfélags eins og Reykjavíkurborg. Ég sé mun á lifnaðarháttum, menningu, stjórnmálaskoðunum og heimsmynd fólks alls staðar sem ég lít, meira að segja bara á þeim sem búa í Grafarvogi og þeim sem búa í miðbænum. Hvort um sé að ræða ofsjónir er fyrir aðra að dæma.

Latest posts by Oddur Þórðarson (see all)

Oddur Þórðarson skrifar

Oddur hóf að skrifa á Deigluna í maí 2020.