Reykingar og ritskoðun

Þungir og erfiðir atburðir í tengslum við Covid19 hafa sligað þjóðmálaumræðuna undanfarið og því er næstum kærkomið að fá þrætuepli af gamla skólanum aftur á dagskrá. Ég er að sjálfsögðu að tala um Bubba og sígarettuna. Sennilega óvart besta auglýsing sem leiksýningin sem ekki er hægt að sýna gat fengið. Allt þetta mál rifjaði upp fyrir mér gamalt atvik þar sem ein skitin sígaretta gerði gott dagsverk næstum að engu.

Haustið 2006 hafði ég starfað í rúmt ár sem fréttamaður á Sjónvarpinu þegar mér var falið að fjalla um þau tímamót að 70 ár voru liðin frá því að franska rannsóknaskipið Pourquoi-Pas? sökk við Straumfjörð á Mýrum. Dótturdóttir Charcots landkönnuðar kom hingað til lands og sat minningamessu í Landakotskirkju, þar var líka Vigdís Finnbogadóttir sem var nemandi í Landakotsskóla þegar útför skipverjanna fór fram. Ég ræddi við þær í frétt um tímamótin og líka við aldraðan sjómann, Dagbjart að nafni, en hann hafði skoðað Pourquoi-Pas? hátt og lágt þegar það var við bryggju í Reykjavíkurhöfn örfáum dögum fyrir hildarleikinn á hafi úti.

Hinn aldni sjómaður var frekar tregur til sjónvarpsviðtals og vildi lítið láta á sér bera. Ég átti þann ás upp í erminni að þessi maður var bróðir langömmu minnar og þannig tókst mér að draga hann til viðtals. Til að minnka stressið og gera viðtalið afslappað settumst við á bekk í garðinum við kirkjuna og nutum þar veðurblíðunnar. Tökumenn Sjónvarpsins eru snillingar í að láta sig lítið fyrir sér fara þegar það hjálpar til og eftir smá undirbúning og spjall fann ég að allt var til reiðu. Nema hvað þegar viðtalið hefst og ég ber upp fyrstu spurningu teygir Dagbjartur sig í brjóstvasann eftir sígarettupakka, dregur upp úr honum vindling og kveikir í honum. Ég ákvað að láta þetta eiga sig því ég vildi ekki hætta á að setja hann í baklás og eyðileggja þar með viðtalið.

Á sinn hátt gaf þetta fréttinni raunsanna vídd og karakter. Þarna sat gamli sjómaðurinn, rúnum ristur í framan og rifjaði upp alls kyns smáatriði í hönnun hins dauðadæmda skips. Og strompreykti í frásögninni. Ég klippti saman frétt upp úr gömlum ljósmyndum, völdum brotum úr kvikmynd um slysið og fléttaði saman við nýtt myndefni úr minningaathöfninni í Landakotskirkju fyrr um daginn. Inn á milli voru sýnd viðtöl við þetta fólk sem hvert fyrir sig hljóta að teljast nokkuð merk heimild um sögulegan atburð.

Ég var nokkuð stoltur af afrakstrinum en þegar fréttin fer til skoðunar á vaktstjóraborði uppgötvast að gamli sjómaðurinn er reykjandi í viðtalinu og upp hefst fótur og fit. Fyrst stóð til að klippa viðtalsbútinn við Dagbjart alveg út úr fréttinni en það fannst mér ekki koma til greina enda maðurinn lifandi heimild um stórmerkan atburð og ólíklegt að aftur fengist slík lýsing sjónarvottar á innviðum hins sögufræga skips. Eftir á að hyggja hefði slíkt verið stórslys því Dagbjartur lést ári síðar, þá níræður að aldri (og væntanlega með áratugalanga reykingasögu að baki).

Eftir mikið stapp á ritstjórninni um forvarnir, lýðheilsu og skaðsemi reykinga verður það úr að á því augnabliki sem Dagbjartur ber sígarettuna upp að munnvikinu og tekur smók var klippt yfir í stutt myndskeið úr minningaathöfninni. Það verður til þess að þegar hann birtist aftur á skjánum stendur skyndilega heilmikill reykjarstrókur upp úr gamla manninum – án þess að áhorfandinn hefði nokkra sýnilega ástæðu fyrir því!

Þannig varð þessi frétt um hádramatískan atburð algjört skrípó og það eina sem sat eftir hjá fólki var þessi fyrirvaralausi og dularfulli reykur sem liðaðist djúpt upp úr lungum mannsins og út um munninn. Fjölmiðlar eins og leikhúsin stæra sig af því að sýna okkur samfélagið eins og það er. Líka þær hliðar sem við viljum ekki sjá. Reykingar eru staðreynd. Að láta eins og þær séu ekki til er sögufölsun.

Ritskoðun í lýðræðissamfélagi mun alltaf stinga í stúf og hafa þveröfug áhrif eins og dæmin sanna. Ritskoðun dregur meiri athygli að því sem fólk vill fela og vekur frekar samúð með vondum málstað en hitt. Þannig hafa til dæmis samfélagsmiðlar fyllst af myndum af reykjandi fólki sem hefði varla gerst á öðrum tíma. Mestur árangur gegn reykingum vannst með opinni og haldgóðri upplýsingagjöf. Skynsamt fólk brást rétt við á grundvelli þeirra og sá árangur hefur viðhaldist. Nú fyrst verður örlítið bakslag, því er um að kenna forræðishyggju og ritskoðun sem er engu síðri meinsemd í samfélagi manna en sá ömurlegi ósiður að reykja.

Latest posts by Guðfinnur Sigurvinsson (see all)

Guðfinnur Sigurvinsson skrifar

Guðfinnur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.