Þá allra mýkstu hlekki

Þeir eru mýmargir alþjóðlegu baráttudagarnir en þýðing þeirra og gildi er æði mismunandi. Á morgun, sunnudaginn 17. maí, er alþjóðlegur baráttudagur sem þungur er á vogarskálunum í samanburði við kollega sína en dagurinn er tileinkaður baráttu gegn hómófóbíu.

Utanríkisráðherra Íslands, Guðlaugur Þór Þórðarson, hélt fyrr á þessu ári ræðu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, þar sem hann lét svo um mælt:

We must remember that all human beings are entitled to human rights, regardless of their gender, the colour of their skin, sexual orientation or religion. The fact that around seventy UN member states have laws on their books that deems it a crime to be gay or lesbian or otherwise different is unacceptable and we must agree to change such laws.

Ísland er nú í fararbroddi þeirra ríkja sem vinna að réttindum hinsegin fólks á heimsvísu. Það er gott að tilheyra ríki og samfélagi þar sem réttindi samkynhneigðra og hinsegin fólks eru hafin yfir allan vafa og það er auðvitað átakanlegt til þess að hugsa að samkynhneigðir sæta ekki bara fordómum víða um veröld heldur er eðli þeirra hreinlega refsivert að lögum í sjötíu þjóðríkjum. Það er ansi stórt hlutfall þjóðríkja og enn stærra ef horft til mannfjölda í þessum ríkjum.

En við skulum samt ekki gleyma því, þegar við hneykslumst á og gagnrýnum réttilega þau ríki sem um ræðir, að ekki er svo ýkja langt síðan samkynhneigðir áttu ekki skjól í íslensku samfélagi. Í einu besta sjónvarpsviðtali síðari ára hér á landi, sem Gunnlaugur Jónsson, dagskrárgerðarmaður og fyrrverandi knattspyrnumaður, átti við Inga Þór Jónsson, sundkappa frá Akranesi, í þættinum Áskorun, var dregin upp skýr mynd af veruleika samkynhneigðra í íslensku samfélagi fyrir minna en fjórum áratugum.

Ingi Þór var í fremstu röð íslenskra sundamanna á þessum tíma, upp úr 1980. Hann segir sjálfur svo frá í þættinum:

Þetta var eig­in­lega bara lífstíðarfang­elsi, þetta var dauðadóm­ur. Líkamlega út­rás­in, ég fæ hana í sund­inu. Ég gat alltaf haldið þessu niðri, haldið þessu frá.

Það er samhljómur í þessu orðum og ljóðlínum Megasar í Fílahirðinum frá Súrín:

Því í gegnum þetta líf hef ég gengið aftur á bak
Og gert mér úr því þá allra mýkstu hlekki.

Það er ekki mjög margt sem lítil þjóð fær áorkað á alþjóðavettvangi. Hómófóbía er alvarlegt vandamál á heimsvísu, eins og utanríkisráðherra lýsti skýrt og skorinort í ræðu sinni í mannréttindaráðinu. Sú umbreyting sem orðið hefur á íslensku samfélagi frá því að Ingi Þór og margir fleiri í hans sporum gengu afturábak í gegnum tilveruna fyrir fjörutíu árum gerir okkur kleift að leggja okkar af mörkum á alþjóðavettvangi í baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks.

Það veitir okkur ekki bara tækifæri til að gera hið rétta. Það leggur beinlínis þá skyldu á herðar okkur.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.