Óhreinu börnin hennar Evu

Virðing og trú á fólki kemur alla jafna ekki fram í því að það sé tekið úr augsýn.

Sagan um óhreinu börnin hennar Evu segir frá því þegar Guð vitjar Adams og Evu og Eva sýnir honum fallegu börnin þeirra, hrein og strokin. Börnin sem þeim þóttu ófríðari ásýndar, felur Eva í skítugum lörfum víða um húsið. Þegar Guð síðan veitir börnunum blessun, snýst Evu hugur og nær í óhreinu börnin svo þau fái líka blessun Guðs.

Í nýlegri umfjöllun um nýju smáhýsin Gufunesi fyrir heimilislaust fólk kemur fram að ofbeldisverk, skemmdarverk og fíkniefna- og áfengisneysla hafi verið áberandi á svæðinu. Rusl og drasl eru áberandi. Lögregla sinni stöðugum verkefnum og útköllum þar og haft er eftir lögreglunni að reynsla þeirra af smáhýsunum sé ekki góð.

Smáhýsin eru fimm og eru úr augnsýn í Gufunesi þar sem langur spölur er í næstu þjónustu og almenningssamgöngur. Uppbygging hýsanna olli töluverðum usla í hverfinu á sínum tíma og var staðsetning þeirra meðal þess sem var gagnrýnt vegna skorts á þjónustu, samgöngum og tilheyrandi einangrun.

Smáhýsin eru hluti af nýrri nálgun Reykjavíkurborgar, „húsnæði fyrst“, sem felur það í sér að tryggja húsnæði og aðstæður fyrir einstaklinga sem teljast á jaðri samfélagsins án þess að skilyrði séu gerð um aðstæður að öðru leyti. Þegar hýsin voru sett upp í Gufunesi var haft eftir borgarstjóra að uppbygging þeirra byggðist á virðingu og trú á fólki.

Virðing og trú á fólki kemur alla jafna ekki fram í því að það sé tekið úr augsýn. Þá bendir margt til þess að framkvæmdin  sé haldin stórkostlegum ágöllum. Þarna búa einstaklingar sem þurfa á mikilli þjónustu að halda, m.a. til að tryggja öryggi íbúanna – ekki síst kvenkyns íbúa smáhýsanna. Þá kallar staðsetning smáhýsanna á enn frekari jaðarsetningu fólks sem er nú þegar á jaðrinum. Bæta má spurningamerki við þá auglýsingu og athygli sem uppbygging smáhýsanna hefur vakið, m.a. fyrir tilstilli stjórnmálamanna sem hafa hreykt sér af uppbyggingu þeirra. Þessi húsakostur er félagslegt úrræði, en fjaðrafokið í kringum smáhýsin hefur leitt til þess að fólk gerir sér jafnvel ferð til þess að skoða smáhýsin, aðbúnaðinn og íbúa þess.

Þær aðstæður sem þarna hafa verið byggðar upp fyrir samborgara okkar sem hafa farið halloka í samfélaginu, með miklum tilkostnaði, virðast síst stuðla að virðingu. Staðsetningin er vanhugsuð og það hefur vantað upp á þjónustu og eftirfylgni fyrir þennan viðkvæma hóp.

Boðskapur sögunnar um óhreinu börnin hennar Evu, sem voru falin fyrir Guði, er um virði allra einstaklinga og hlutverk þeirra í samfélaginu. Bók sem gefin var út um sögu holdsveikinnar á Íslandi bar þetta sama heiti, Óhreinu börnin hennar Evu, með tilvísun í sömu sögu. Í bókinni er sjónum m.a. beint að strangri einangrun og meðferð sem holdsveikissjúklingum var gert að sæta og áhrif þess á þá. Vandamálin hverfa ekki þó við komum þeim fyrir í smáhýsum fjarri alfaraleið, úr augsýn okkar „hinna“.

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.