Auðveldum gjaldtöku við ferðamannastaði

Óhætt er að fullyrða að t.d. Langjökull væri langflestum Íslendingum ófær ef áræðnir einstaklingar hefðu ekki haft hugmyndaflug í að grafa göng í jökul eða gert sér von um að skapa úr því verðmæti.

Fyrir tveimur árum gerðum við fjölskyldan okkur ferð í ísgöngin í Langjökli.  Hugmyndin var að fara í skemmtilega dagsferð, prófa eitthvað spennandi en nýta jafnframt tækifærið til að fræðast um innviði íslenskra jökla í stærstu manngerðu ísgöngum heims.

Fyrirtækið Into to the Glacier gróf ísgöngin árið 2015 eftir töluverðan undirbúning og rannsóknir. Síðan þá hafa þau flutt tugi þúsunda ferðamanna með gömlum loftskeytabílum, sem áður fyrr voru hluti af kaldastríðsherafla Nato en hefur nú verið breytt til að þjóna þörfum fyrirtækisins.

Í stuttu máli var ferðin bæði spennandi og skemmtileg. Ferðalag í risatrukknum upp á íslenskan jökul er ævintýri út af fyrir sig en rúsínan í pylsuendanum var auðvitað undir yfirborði jökulbreiðunnar. Veðursaga Íslands birtist manni í veggjum ganganna og var studd frásögn leiðsögumanns sem skýrði fumlaust frá því hvernig jöklar skríða fram, fræddi okkur um leyndardóma snjóalaga jökulsins og áhrif loftslagsbreytinga á landslag Íslands.

Ferðin inn í Langjökul er eitt af fjölmörgum dæmum um hverju frumkvöðlar hafa áorkað á síðustu árum í íslenskri ferðaþjónustu. Óhætt er að fullyrða að t.d. Langjökull væri langflestum Íslendingum ófær ef áræðnir einstaklingar hefðu ekki haft hugmyndaflug í að grafa göng í jökul eða gert sér von um að skapa úr því verðmæti. Í raun er magnað að við getum kynnst innviðum annars stærsta jökuls landsins fyrir sanngjarnt gjald án teljandi óþæginda.

Um allt land má finna dæmi um upplifun á borð við þessa sem gerir allt í senn: Eykur aðgengi almennings að íslenskri náttúru, býr til verðmæti og tryggir langoftast að umgengni ferðafólks um landið sé með viðunandi hætti. Önnur dæmi eru t.d. Bláa Lónið, hellaskoðanir í Víðgelmi, Raufarhólshelli og Þríhnjúkagígum, Kerið og hvers kyns vinsælir baðstaðir um allt land.

Víðast hvar er þó för ferðamanna gjaldfrjáls um landið. Uppbygging ferðamannastaða hefur ekki haldist í hendur vöxt ferðaþjónustunnar og eru margar af þeim náttúruperlum sem eru okkur kærastar farnar að láta á sjá eftir stöðugan umgang undanfarinna ára.

Ástandið virðist vera verst á þeim stöðum þar sem er opið aðgengi og þar sem sjálfstæðir aðilar hafa ekki hagsmuni af því að fá til sín gesti og veita þeim þjónustu.

Því er ástæða til að einkaaðilar taki að sér fleiri svæði á Íslandi og náttúruperlur, a.m.k. tímabundið, frekar en að ríkið sjái um uppbyggingu þeirra t.d. með aðkomu Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Ekki síst fyrir þær sakir að mikil hætta er á því að flókið hagsmunamat sem fylgir aðkomu kjörinna fulltrúa muni þvælast fyrir eðlilegri uppbyggingu og þróun slíkra staða.

Nú þegar við sjáum loks fyrir endann á faraldrinum getum við farið að huga að því að opna landið aftur fyrir ferðamönnum.  Því gæti skapast tækifæri til að endurhugsa hvernig þessi undirstöðuatvinnugrein þróast á næstu árum. Við ættum að reyna að forðast að falla í sömu gryfju og önnur lönd sem treysta á komur ferðamanna en hafa byggt upp atvinnugrein sem skilur eftir sig takmörkuð verðmæti og er heimamönnum til lítillar ánægju.

Takmarkmið hlýtur að vera að vernda íslenska náttúru en jafnframt að geta boðið ferðamönnum að koma hingað og njóta hennar með okkur.  Það verður einungis gert með því að einhvers konar tenging sé milli þess hvers fólk er að leita, hvaða þjónustu er hægt að veita og hvað kostar að veita hana með viðunandi hætti.

Því liggur beint við að auðvelda gjaldtöku við ferðamannastaði og leyfa einkaframtakinu að gera það sem það gerir best.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.