Fram fyrir skjöldu

Samtakamáttur er ekki bara til góðs, eins og því miður hefur komið í ljós á síðustu vikum. Óttinn er frumhvöt og hann kallar fram hið frumstæða í manninum. Ótti og samtakamáttur er öflug en hættuleg blanda.

Það er engum blöðum um það að fletta að okkur Íslendingum hefur tekist betur upp en flestum öðrum þjóðum í því að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Landfræðileg einangrun, samtakamáttur og vísindaleg nálgun hafa ráðið þar mestu. Átti þetta sérstaklega við á fyrstu stigum faraldursins þegar óvissa ríkti um við hvað var að eiga.

En samtakamáttur er ekki bara til góðs, eins og því miður hefur komið í ljós á síðustu vikum. Óttinn er frumhvöt og hann kallar fram hið frumstæða í manninum. Ótti og samtakamáttur er öflug en hættuleg blanda.

Á Íslandi búa yfir 20 þúsund manns af pólsku bergi brotnir. Þar af eru þúsundir barna sem ganga í skóla með jafnöldrum sínum. Þessi börn, eins og aðrir íbúar landsins með óvenjulega hátt hlutfall af samhljóðum í nafninu sínu, hafa mátt þola óvægnar og ósanngjarnar árásir í sinn garð á síðustu vikum og mánuðum.

Alhæfingar í garð Pólverja og Íslendinga af pólskum uppruna, þar sem smitskömm er klínt á hvern einasta einstakling í þessum hópi, eru algerlega óviðunndi í samfélagi sem telur sé trú um að það sé siðað og upplýst. Og það eru ekki bara einhver nettröll sem þannig hafa gengið fram. Eftir höfðinu dans limirnir. Áhrifamenn í íslensku samfélagi hafa talað með þeim hætti að maður getur bara ímyndað sér hvernig það er fyrir börn og ungmenni í þessum hópi að mæta augngotum skólafélaga, að ekki sé minnst á beina úthrópun eins og dæmi munu vera um.

Þeir sem fram hafa gengið með þessum hætti eiga að skammast sín, allir með tölu. Og það er ákaflega mikilvægt að íslenskir ráðamenn stígi fram fyrir skjöldu og taki af öll tvímæli um að slíkt verði ekki liðið í íslensku samfélagi, líkt og utanríkisráðherra gerði í dag.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.