Litlu línurnar

Undanfarið höfum við upplifað eina stærstu almannaógn á síðari tímum. Á Íslandi tókst okkur að takmarka heilsufarslegu áhrifin að miklu leyti en efnahagslegu áhrifin eru og verða áfram grafalvarleg, bæði hér á landi og annars staðar.

Þessir tímar hafa þó ekki eingöngu verið svartnætti, hugarvíl og böl. Lokun landamæra og breytt samskiptamynstur hafa dregið fram samstöðu og hugvit, rafræn viðskipti og samskipti hafa stóraukist og einstök ríki og ríkjahópar hafa starfað enn nánar saman en áður.

Hjá hverjum og einum gætir ýmissa áhrifa. Sumir léttust og fleiri þyngdust; svokölluð covid-kíló eruorðin alþekkt stærð. Einhverjir leituðu inn á við og fjölmargir endurnýjuðu og/eða styrktu samband sitt við náttúruna.

Það eru ekki stóru línurnar og átakamálin sem eru meginmálið í þessum létta föstudagspistli heldur listi yfir nokkra minniháttar og smásmugulega, en þreytandi hluti sem heimsfaraldurinn hefur haft í för með sér:

  1. Fjarfundir eru ekki bara af hinu góða. Vegna yfirstemningar fyrir tækninni, sem þó er ekki nýfundin upp, er dagskráin fljót að fyllast af fjarfundum og þegar viðmælendur eru í öðru tímabelti er matartíminn oft nýttur til fundartíma.
  2. Handaböndin. – Þau hafa áður verið umfjöllunarefni í skrifum mínum en því miður virðumst við ekki hafa nýtt tækifærið sem gafsttil þess að afleggja þau. Um leið og slakað var á sóttvarnaraðgerðum fór fólk að rétta fram spaðann á ný. Óþolandi.
  3. Vöruskortur.
  4. Minni og ósveigjanlegri þjónusta, t.a.m. styttri opnunartími.
  5. Of mikill tími með of fámennum hópi fólks.
  6. Of lítill tími með öðrum hópi fólks.

Vonandi fer margt í fyrra horf. Annað mátti alveg breytast. Auðvitað skiptir stóra myndin mestu máli. Að fríverslun verði ofan á og verndarhyggja undir; að við sjáum ekki fram á frekari viðskiptahindranir og tollmúra. Þar eru miklir hagsmunir í húfi fyrir lítil og opin hagkerfi sem eiga mikið undir útflutningi.

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.