Svalasöngvar ítalskra sóttkvíarbúa virðast svo órafjarri nú þegar kúrfan er hvarvetna á hverfanda hveli. Margir finna þá fiðringinn og er hann eflaust að verki gamli ferðahugurinn. Ferðalög eru praktískt úrlausnarefni fyrir næstum alla, dýr afþreying fyrir flesta og einungis nauðsynleg í örfáum tilvikum. Fólk vill ferðast og það er erfitt að ímynda sér veruleika þar sem við leggjum einungis land undir fót í brýnustu erindagjörðum.
Það er ótrúlega stutt síðan við sátum við skjáinn og biðum eftir nýjustu tölum af covidsmitum. Tugir á dag, dag eftir dag. Skyndikúrs og upprifjun í veldisvaxtarreikningi gerði lítið til að lægja öldur hugans. En nú er þetta allt að baki, við sigruðum veiruna, eftir því sem best verður séð. Keyrðum kúrfuna ofan í gólf, svo eftir er tekið heims um ból.
Snemma í faraldrinum fengu sveitarstjórnarmenn í afskekktri byggð úti á landi þá hugmynd að loka vegum til byggðarinnar og einangra hana algjörlega gagnvart umheiminum og restinni af eyjunni sem þá þegar var nokkurn veginn einangruð. Það þótti afleit hugmynd, enda þyrfti einangrunin þá að vara svo lengi sem engin lækning væri fundin við veirunni.
Er hugsanlegt að við séum öll þessi einangraði útnári í dag? Að við séum fórnarlömb okkar eigin velgengni og bíðum þess að lækning finnist áður en við treystum okkur til að umgangast fólk annars staðar frá. Ekki hjálpar til þegar fréttir berast af meintum óþjóðalýð erlendis frá sem ekki virðir fyrirmæli um sóttkví við komuna til landsins en er þess í stað hirtur upp rænandi og ruplandi af grandlausum lögreglumönnum sem þurfa í framhaldinu að sitja af sér sóttkví, væntanlega lengur en sem nemur gæsluvarðhaldi hinna meintu þjófa.
En svona fréttir munu verða fleiri á næstu vikum og mánuðum og við þurfum að vera undir það búin. Það er til fólk sem ekki fer að reglum, bæði fólk sem hér býr og fólk sem hingað kemur. Auðvitað er líklegra að maður sem hingað kemur gagngert til að brjóta lög sé ólíklegri en aðrir til að virða reglur um sóttkví. Þrátt fyrir þá óbeit og andstyggð sem gýs upp innra með okkur við svona fréttir þá megum við ekki láta hugfallast. Við þurfum að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið. Einangrun er ekki valkostur, hvort sem við erum afskektur útnári eða ekki.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021