Veitir vinnan frelsi?

I. Samkvæmt skýrslu forsætisráðuneytisins Ísland og fjórða iðnbyltingin, eru um 50 þúsund Íslendingar í störfum sem miklar líkur eru á að verði sjálfvirknivædd á næstu 10-15 árum. Þetta eru 28% af íslenskum vinnumarkaði í dag.
Eitt af þeim dæmum sem hve oftast er vitnað til um þessa þróun er að sjálfkeyrandi bílar eru líklegir til að leysa af hólmi stærstan hluta 3 milljóna atvinnubílstjóra í Bandaríkjunum á þessu sama tímabili. Störfin sem tapast eru að mestu meðal ófaglærðra og minna menntaðra.
Í fyrri iðnbyltingum hafa ný störf iðulega komið í staðinn. Við eigum ekki lengur vatnsbera, sótara eða spunakonur. Árið 1870 störfuðu nærri 90% landsmanna við fiskveiðar eða sjávarútveg. Nú hafa innan við 10% störf af sjávatúrvegi eða landbúnaði, en þess í stað eru yfir 70% starfa í þjónustugeiranum. Á Íslandi er fólk sem hefur tekjur af markþjálfun, leitarvélabestun og vörukynningum á samfélagsmiðlum. Ný störf krefjast að jafnaði meiri menntunar en þau sem tapast.

II. Munurinn á þessari iðnbyltingu og hinum fyrri er að þróunin virðist vera talsvert hraðari.
Í öllum geirum eru til sterkar táknmyndir. Í frumkvöðlageiranum, meðal þeirra sem keppast við að búa til tæknilausnir framtíðarinnar, eru tvær sérstaklega sterkar. Önnur þeirra er einhyrningurinn, sprotafyrirtæki sem hefur náð þeim hæðum að vera metið á yfir einn milljarð bandaríkjadala.
Hin er íshokkíkylfan, sem er tákn um veldisvöxt notenda – og þar af leiðandi virðis – lausnarinnar sem verið er að búa til. Leikurinn gengur nefnilega út á stærðarhagkvæmni og ná sem flestum notendum. Rétt eins og með samþjöppun kvótaeignar á Íslandi, þá er mikil samþjöppun í „eignarhaldi“ netnotenda eða hlutdeild í skjátíma þeirra. Lausnir sem ná að framkalla áðurnefnda myndarlega hokkíkylfu á línuriti yfir notendur eru jafnan keypt af risunum á markaði. Þannig keypti Facebook Instagram og Whatsapp. Microsoft keypti LinkedIn og Skype. Móðurfélag Google keypti Youtube.
Í Bandaríkjunum hefur verið mikið rætt um þessa þróun og raddir verða háværari um lagasetningu til að sporna við þessari samþjöppun netþjónustu.

III. Kórónuveirufaraldurinn hefur hægt svo verulega á hjólum atvinnulífsins, í nær öllum geirum og um allan heim, að við eigum líklega ekki fyrirmyndir um væntanlegan efnahagssamdrátt á friðartímum. Atvinnuleysi nær áður óþekktum hæðum.
OECD spáir 7,5% samdrætti þjóðarframleiðslu árið 2020 í aðildarríkjum sínum og hann verði 9,9% á Íslandi. Það er bjartsýna spáin. Samdrátturinn verði 9,1% í ríkjum Evrópusambandsins og 6% á heimsvísu.
Vegna þessarar myrku myndar og óvissu um hve hraður viðsnúningurinn verður, munu fyrirtæki bíða eins og þau mögulega geta með endurráðningu þeirra sem sagt hefur verið upp

IV. Netviðskipti hafa aukist verulega vegna kórónuveirunnar og neytendur hafa verið neyddir til að læra að nýta tæknina. Afleiðingin verður enn hraðari stafræn þróun. Þetta sjáum við greinilega í því hve hið opinbera hefur tekið vel við sér að bregðast við með stafrænum lausnum og hvernig allar verslunarkeðjur landsins keppast við að koma upp netverslun.

V. Þó neyðin kenni mönnum ýmis ráð og að í kreppum sem þessari verði til ný tækifæri og ný fyrirtæki, þá tekur tíma að búa til tekjur úr slíkum tækifærum. Vextir eru mjög lágir og almennt ætti það að leiða til þess að fjármagnseigendur freistist í áhættusamari fjárfestingar, eins og sprotafyrirtæki, þá er óvissan um efnahagsáhrif kórónuveirunnar þröskuldur sem þeir kunna að hnjóta um.

VI. Rannsóknir í Bandaríkjunum benda til þess að sjálfsmorðstíðni ómenntaðs fólks af hinni svokölluðu þúsaldarkynslóð sé fjórföld á við háskólamenntaða jafnaldra þeirra. Svo virðist sem þar ráði miklu hvernig þeir sjá eigin tækifæri til tekjuöflunar í samfélagi sem snýst í æ meiri mæli um ásýnd á samfélagsmiðlum.

Haft er eftir Bill Gates að við ofmetum áhrif tækniframfara á næstu 5 árum, en vanmetum til 10 ára. Í öllu falli eru líkur til þess að efnahagsleg áhrif kórónuveirunnar verði til þess að hraða verulega áhrifum fjórðu iðnbyltingarinnar. Í stað þess að fletja kúrfuna er líklegra að kúrfan verði í ætt við hokkíkylfu.

Ef ný störf skapast ekki með nægum hraða í stað þeirra sem tapast vegna tækniframfara eða af völdum kórónusamdráttar hefur það augljós neikvæð áhrif á lífsviðurværi fjölda fólks. Það skapar ótta um eigin afkomu og fjölskyldunnar. Reiði í garð yfirvalda vegna vangetu til að bregðast við faraldrinum – með réttu eða röngu. Sjálfsmynd okkar hefur áratugum saman verið samofin vinnunni, starfinu og möguleikum okkar til tekjuöflunar. Ef við erum svipt starfinu, lífsviðurværinu, framfærslu fjölskyldunnar upplifum við gjarnan – ranglega – að við séum svipt virðingu.

Þessi innihaldslýsing hér að ofan er saltpéturinn og brennisteinninn í þá pólitísku púðurtunnu sem þriðji áratugur aldarinnar gæti orðið. Í slíku ástandi þarf ekki stóran neista til að kveikja bál. Við sjáum þess dæmi í Bandaríkjunum í dag. Hvaða rótgrónu samfélagsmein gætu verið slíkur neisti í Frakklandi, Svíþjóð, Þýskalandi?

Nú þegar vorar er auðvitað fráleitt að mála skrattann á vegginn með þessum hætti. En það er holl æfing að velta fyrir sér hvað gæti gerst og hvernig ætti að bregðast við því. Það er ekki víst að gömlu meðulin virki á nýju meinin.

Meðal þess sem má að ræða er vinnan og eðli hennar. Hvernig ætlum við að afla tekna og láta hjól efnahagslífsins snúast, sér í lagi ef störfum myndi fækka hratt. Hvort og hvernig viljum við stuðla að jöfnuði í samfélaginu þegar við eigum æ minna og leigjum meira.

En svo gætum við líka bara farið og fengið okkur ís.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)