Kúkur í lauginni

Í hverri viku birtast fréttir um útskitnar náttúruperlur þar sem hlandblautur klósettpappír fýkur til í grasinu, endalausar raðir í Leifsstöð og illa útbúna ferðamenn sem hætta sér út í miskunnlausa náttúruna. Allt kemur þetta hinum almenna Íslendingi afskaplega mikið á óvart, en af hverju?

2015 er þriðja, eða jafnvel fjórða, sumarið þar ferðamannaaukning er talsvert umfram væntingar. Þrátt fyrir þetta hefur næstum ekkert verið gert. Víðast hvar eru engin klósettaðstaða og jafnvel ekki bílastæði þrátt fyrir að hundruð stoppi þar daglega.

Talað hefur verið um náttúrupassa en sú löggjöf hefur enn ekki verið samþykkt. Auk þess er ólíklegt að það skattfé muni rata á réttan stað (sjáið bara hvernig útvarpsgjaldið er notað). Nýlega byrjaði þjóðgarðsvörðurinn á Þingvöllum að innheimta fyrir bílastæði sem er gott mál. Ef það kostar að leggja í miðbæ Reykjavíkur, af hverju er þá ókeypis að leggja við Gullfoss og Geysi? Er ekki álíka aðsókn á báða staði yfir háannatíma?

Víða erlendis er sama gert og fá íbúar oft einhvers konar falinn afslátt. Til dæmis kostar einn dagur það sama og fimm í sumum þjóðgörðum í Bandaríkjunum og sumarkort í Tívolí kostar minna en tveir almennir miðar.

Margir eru ósáttir að borga fyrir aðgang að íslenskri náttúru en við verðum að horfast í augu við að eitthvað þarf að gera. Eftir því sem fleiri sækja landið þeim mun nauðsynlegra verður að passa upp á það sem við eigum. Draumar um að fækka ferðamönnum með því að sækjast einungis eftir að efnaðra fólk heimsæki klakann eru nokkur fjarstæðukenndir og þess vegna er þörf á aðgerðum strax. Því ef við gerum ekkert verður Gullfoss þakinn klósett pappír, Geysir hlandgulur og í yfirgefnum náttúrlaugum sönglar kúkur sitt saurgaða stef.

Latest posts by Einar Leif Nielsen (see all)

Einar Leif Nielsen skrifar

Einar Leif hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2008.