What’s in it for me?

Hinar mjög svo skiljanlegu áhyggjur sem íslensk útgerðarfyrirtæki hafa af áhrifum viðskiptaþvingana Rússa hafa tekið á sig furðulega mynd. Ekki er hægt að álasa þeim sem eiga í góðu viðskiptasambandi við Rússland að þeir séu uggandi yfir stöðunni. Það er meira að segja skiljanlegt að þeir freistist til þess að þróa með sér þá skoðun að Ísland ætti að segja sig frá hinum léttvægu viðskiptaþvingunum gagnvart Rússum til þess að forðast gagnaðgerðirnar, sem vissulega bitna býsna harkalega á tilteknum íslenskum hagsmunum. Það er ekki óeðlilegt að útvegsmenn hugsi fyrst og fremst um eigin hagsmuni.

Það er ekki víst að þeir sem eiga í góðu og farsælu viðskiptasambandi við venjulega Rússa fylgist vel með þróuninni í rússneskum stjórnmálum. Þeirra afstaða mótast sennilega helst af því að eiga í sambandi við góða og gegna rússneska borgara sem hafa lítið af stjórnvöldum að segja.

En þeir sem hafa atvinnu sína af stjórnmálum þurfa að hugsa hlutina í stærra samhengi. Þeir vita að staðan í Rússlandi er þannig að þar stráfalla andstæðingar Pútíns við grunsamlegar aðstæður, stjórnarandstæðingar eru fangelsaðir mánuðum og árum saman fyrir upplognar eða litlar sakir, dómskerfið er í molum, fjölmiðlar eru notaðir til þess að dreifa lygum og fólk þorir tæpast að segja skoðanir sínar opinberlega. Venjulegir Rússar eru nánast heilaþvegnir af ævintýralegum samsæriskenningum um að Vesturlönd séu að reyna að koma fasistum til valda í Úkraínu og að rússneskumælandi minnihlutar í Eystrasaltslöndunum séu ofsóttir eins og gyðingar á tímum nasista.

Þess vegna er ævintýralegt—eða öllu heldur ískyggilegt—að verða vitni að því að sumir fjölmiðla- og stjórnmálamenn skuli leyfa sér að kynda undir það sjónarmið að Ísland eigi að endurskoða samstöðu sína með hinum frjálsa heimi gegn yfirgangi Rússlandsstjórnar. Þessi meðvirkniskór Pútíns snýr öllu á haus. Það er gefið til kynna að viðskiptabann Rússa á íslenskan fisk sé í raun okkur sjálfum að kenna og að það séu Íslendingar sem þurfi að endurskoða sína afstöðu.

Meðvirkniskórinn heldur því fram að íslenska utanríkisþjónustan hafi anað hugsunarlaust út í þá ákvörðun að munstra sig í hóp Vesturlanda gegn útþenslutilburðum Rússa. Því er haldið fram að þetta hafi ekki verið augljós ákvörðun. Þá er gefið til kynna að Ísland hefði getað komið sér huggulega fyrir á hliðarlínunni og þannig getað smokrað sér undan þeim óþægindum sem geta falist í því að taka afstöðu gegn landvinningatilburðum Pútíns í Úkraínu. Öll reiðin yfir óþægindunum beinist að íslenskum stjórnvöldum og bandalagsþjóðum okkar—en varla heyrist styggðaryrði um aðilann sem setur viðskiptabannið. Umræðan minnir á hvernig löngum tíðkaðist að segja um fórnarlömb heimilisofbeldis—„hún hlýtur að hafa sagt eitthvað sem gerði hann svona reiðan.“

Nokkrir hægrimenn á Íslandi, hafa bent á það sjónarmið að viðskiptaþvinganir séu almennt ekki gagnlegar. Að miklu leyti er þetta rétt, en á þó engan veginn við í þessu tilviki, nema ef hugmyndin er að reyna að telja Rússum hughvarf. Það eru jú þeir sem eru að setja viðskiptabannið á íslenskan fisk. Ekki öfugt.

En sumar viðskiptaþvinganir geta haft áhrif. Reyndar eru hinir íslensku talsmenn friðkaupa sjálfir skínandi dæmi um það.

Ísland tekur þátt í mjög takmörkuðum viðskiptaþvingunum sem beinast fyrst og fremst að einstaklingum og fyrirtækjum sem taka beinan þátt í hernaðarbrölti Rússa. Þessar viðskiptaþvinganir hafa það markmið að veikja stöðu Pútíns gagnvart fámennri elítu í Rússlandi. Þessi elíta finnur fyrir því að hafa ekki aðgang að (illa fengnum) auðæfum sínum sem hún hefur komið fyrir í fasteignum og bankareikningum í Evrópu og Bandaríkjunum. Tilgangurinn er sá að þessi fámenna elíta verði fyrir nægilegum munúðarskorti til þess að hún setji þrýsting á Pútín um að hugsa sig tvisvar um áður en hann tekur fleiri skref í átt að algjörri lítilsvirðingu á lögum og hefðum alþjóðasamfélagsins.

Hvorki Ísland eða bandalagsþjóðir Íslands í Evrópu og Ameríku hafa sett viðskiptabann á Rússland. Þess er gætt í fremstu lög að sníða þvinganirnar með þeim hætti að þær bitni ekki á almenningi í Rússlandi. Hin frjálsu þjóðfélög, sem hafa ímugust á hernaðarbrölti Pútíns, vilja helst af öllu að rússneskur almenningur og áhrifafólk hafni sturlunarstefnu Pútíns upp á eigin spýtur svo ekki komi til þess að grípa þurfi til hernaðar til þess að verja önnur lönd sem Pútín ásælist, svosem eins og Eistland, Lettland og jafnvel Litháen.

Í hefndarskyni við þessar mjög takmörkuðu og fullkomlega réttlætanlegu aðgerðir Vesturlanda hefur Pútín og stjórn hans gripið til þess ráðs að valda almenningi í sínu eigin landi tjóni, og kenna svo Vesturlöndum um. Í vissum tilvikum geta hefndaraðgerðir Rússa svo haft sambærileg áhrif eins og viðskiptaþvinganir Vesturlanda hafa í Rússlandi. Með því að beita þvingunum gegn sterkum hagsmunaaðilum, eins og sjávarútveginum á Íslandi, egnir Rússlandsstjórn upp pólitíska ólgu sem framkallar þrýsting á stjórnvöld um að gerast liðhlaupi í samstöðunni gegn yfirgangi Pútíns í Úkraínu, á Krímskaga og í Georgíu.

Reynt hefur verið að benda yfirvegað á þá staðreynd að þrátt fyrir höggið sem íslenskur sjávarútvegur verður fyrir nú, þá á Ísland allt sitt sjálfstæði og velmegun undir því að alþjóðalög séu virt. Hegðun Pútíns undanfarin ár bendir ekki til þess að hann meti stöðuna eins. Þvert á móti virðist sem forseti Rússlands líti svo á að alþjóðalög og virðing fyrir landhelgi séu óþægilegar tálmanir á réttmætum stórveldisdraumum sterkra leiðtoga.

Sem betur fer er ekki líklegt að íslensk stjórnvöld séu svo skyni skroppin að láta undan þeim þrýstingi sem þau eru nú beitt. Það er þó áhyggjuefni hvernig sumir forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa talað. Sumir þingmenn og ráðherrar hafa leyft sér undanfarna daga að tala á þeim nótum að Ísland gæti endurskoðað samstöðuna með Vesturlöndum ef okkur verða ekki bætt óþægindin. Ef frá eru taldar örfáar skínandi undantekningar—einkum Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Birgir Ármannsson formaður utanríkismálanefndar—þá hefur þemað í hinum vaklandi málflutningi ríkisstjórnarinnar verið: „What’s in it for me?“

Ráðherrar og almennir þingmenn stjórnarflokkanna verða að taka af allan vafa um að algjör samstaða ríki með málflutningi þeirra Gunnars Braga og Birgis. Þeir geta ekki leyft sér að sitja í skjóli á meðan ósanngjarnar árásir dynja á þeim (og sérstaklega Gunnari Braga) fyrir að taka slaginn með alþjóðasamfélaginu gegn yfirgangi Rússa. Sem betur fer hafa nokkrir þingmenn, þar á meðal Unnur Brá Konráðsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Karl Garðarsson, tekið af öll tvímæli um samstöðu með aðgerðunum.

Gerum nú smá hugsunartilraun: Ímyndum okkur að almenningur í Rússlandi gerist þreyttur á makríl- og síldarskorti. Miðað við þróunina á síðustu misserum má gera sér í hugarlund að Rússar tækju ákvörðun um að sigla einfaldlega inn í íslenska landhelgi og sækja aflann sjálfir. Hvað gerum við þá?

Að því gefnu, að íslensk varðskip séu orðin haffær eftir að rússneska skólaskonnortan laskaði þau í höfninni, þá mætti senda þau á móti. En ljóst er að slík vörn væri skammvinn og lítilfjörleg. Ef öryggi Íslands væri raunverulega ógnað þá mættum við okkar lítils.

Sem betur fer er þetta ólíklegt. Við Íslendingar treystum því að Rússar séu ekki svo brjálaðir að hætta á afleiðingarnar. Ef Rússar rjúfa íslenska landhelgi til þess að sækja sér síld og makríl, þá er það sameiginlegur skilningur heimsbyggðarinnar að þeir þyrftu ekki bara að mæta íslenskum varðskipum—heldur diplómatískum viðbrögðum og efnahagslegum refsiaðgerðum og—ef allt færi í hönk—fullum mætti Natóþjóða.

Ef þessi ólíklega hugarleikfimi yrði raunveruleg—eða eitthvað í þessari líkingu gerðist—þá getum við Íslendingar verið þakklátir fyrir að mjög ólíklegt er að bandalagsþjóðir taki sér umhugsunarfrest á meðan þær velta fyrir sér spurningunni: „What’s in it for me?“

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.