Minningahöll að molum orðin

Í síðustu viku skrifaði ég pistil um skipulagsmál í Reykjavík en sama dag var hús sem tengist æsku minni afmáð úr borgarmyndinni. Rammagerðin flutti í Hafnarstræti 19 frá áttunda áratug síðust aldar en afi minn stofnaði fyrirtækið. Það eru því fáir staðir sem ég eytt jafn miklum tíma á en þetta hús sem var rifið á miðvikudaginn.

Ég er ekki sá eini sem mun sakna hússins. Margir muna vel eftir bílaröð í Hafnarstrætinu þar sem börn borgarinnar horfðu stóreyg á búðargluggana þar sem vélrænir jólasveinar héldu uppi skemmtun í desember. Þessi hefð er fyrir löngu orðin að engu og aðrar verslanir þykja merkilegri í jólavertíðinni nú til dags, en minningin er samt skemmtileg.

Það kemur mér kannski ekkert við hvað var gert við þetta hús enda átti ég aldrei baun í því. Þó er leiðinlegt að sjá þetta nýja sár í borgarmyndinni. Ég reikna með að gömlu eigendum líði eilítið eins og að þeir hafi selt róna Kjarvalsverk sem nú liggi verkið rifið í götunni. Þetta er samt heldur ekki þeirra mál, því einungis núverandi eigandi og húsafriðunarnefnd réðu örlögum hússins.

Þarna komum við að eilitlu vandamáli. Sagt er að húsið hafi verið ónýtt sem getur vel verið rétt en einhverja hluta vegna þá treysti ég ekki matinu. Og ekki halda þetta sé í fyrsta sinn sem ég treysti ekki verktökum þegar verið er að ræða gæði gamalla húsa. Heyrst hafa sögur af óheiðarlegum einstaklingum sem hafa látið hús grotna niður eftir hentisemi og græðgi. Það er því ef til vill ekki skrítið að borgarbúar séu alltaf uggandi í garð nýbygginga á umdeildum skipulagsreitum.

Í samfélagi nútímans er nefnilega traust að skornum skammti. Margir eru búnir að læra svo vel inn á áróðursmaskínuna að venjulegt fólk getur varla haft undan allri vitleysunni. Til dæmis gera væntanlega fæstir sér grein fyrir að herferðin gegn höfuðstöðvum Landsbankanum á Hörpureitnum hófst þegar að byggingafyrirtæki lýsti vonbrigðum yfir að þeirra hugmynd hefði ekki orðið fyrir valinu. Síðan þá hefur verið hætt við bygginguna og spurning hvort að viðkomandi byggingafyrirtæki muni hagnast á þeirri ákvörðun?

Þó pistillinn sem ég birti á miðvikudaginn passi ekki algerlega við hliðina á þessum þá stend ég við hvert orð í þeim báðum. Mér getur samt alveg þótt leiðinlegt að horfa á skurðgröfu rífa í sundur hús sem mér þótti vænt um. Tilfinningar eru nefnilega svo undarlegar að maður hugsar ekki alltaf rökrétt þegar þær eru annars vegar.

Latest posts by Einar Leif Nielsen (see all)

Einar Leif Nielsen skrifar

Einar Leif hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2008.