Af veirum og vöðvabólgum

Klukkan var rétt rúmlega tvö og ég í miðju verkefni þegar að síminn hringdi. Tónlistin í heyratólunum mínum þangaði og gervileg kvenmannsrödd með bandarískum hreim reyndi sitt besta að segja Klatratræet sem er alveg einstaklega danskt orð

Síðasta mánudag sat ég, eins margir aðrir, við borðstofuborðið á heimilinu með fartölvuna opna og að drepast úr vöðvabólgu. Stutt frá í litlu íbúðina okkar sat konan minn við skrifborð heimilisins. Þetta var hennar dagur og ég fengi skrifborðið daginn eftir. Klukkan var rétt rúmlega tvö og ég í miðju verkefni þegar að síminn hringdi. Tónlistin í heyratólunum mínum þangaði og gervileg kvenmannsrödd með bandarískum hreim reyndi sitt besta að segja Klatratræet sem er alveg einstaklega danskt orð. Þetta var leikskóli dóttur okkar að hringja. Á hinum enda línunnar var ekki ein af fóstrunum heldur ókunnug kona að útskýra fyrir mér að dóttir mín hefði verið í beinum samskiptum við kórónasmitað barn. Við áttum að koma að sækja hana og eftir það hæfist sóttkví.

Ég hélt ró minni enda ekkert sem hægt var að gera. Mögulega er smit en þar sem hún er barn er það ólíklegt. Við sóttum hana því saman og útskýrðum fyrir atvinnurekendum okkar að við yrðum ekki í hundrað prósent vinnu næstu daga þar sem tveggja ára barn er ekki alltaf til að leyfa manni að vinna í friði. Þar með minnkaði litla lífið okkar hérna í Danmörku enn meira.

Mér hefur þótt undarlegt að upplifa þessa kóvidvertíð hérna í Kaupmannahöfn. Við búum í lítilli íbúð með engum svölum í Vesterbro og því oft þröngt um okkur. Langt er í fjölskyldu en við erum heppin að eiga góða vini sem hjálpa ef í harðbakkann slær. Samt er maður einhvern veginn einangraðri hér en á Íslandi. Kannski af því maður fylgist ekki jafn náið með dönskum fréttum og þeim íslensku (sem er bölvaður ósiður). Kannski af því að maður hefur ekki allt sitt tengslanet í næsta nágrenni. Kannski bara af því að maður er útlendingur í öðru landi. Líklega er það einhver samsetning af þessu þrennu. Ég get samt ekki kvartað. Við erum búin að hafa það gott að mörgu leiti, atvinnurekendur eru skilningsríkir og sumarið var indælt. Danska ríkið hefur gert sitt til að takast á við vandann og við reynt að fylgja því. Fólk er afslappað en á Íslandi, eþað heldur sig ekkert endielga í tveggja metra fjarlægð og um helgar óma drykkjulæti frá partíum í blokkargarðinum. Ef til vill er Daninn bara svona ligeglad en það á samt eiginlega bara við eiginhagsmunir hans eru annars vegar.

Eins og á Íslandi hefur þetta gengið upp og niður. Upp á síðkastið hefur það nánast einungis verið niður á við, þ.e. tilfellum virðist  fjölga með hverjum degi og ef þeim fækkar þá fjölgar þeim bara enn meira nokkrum dögum síðar. Þegar að seinni bylgjan hófst fyrir alvöru var allur vindur úr manni. Þá fór þetta að reyna meira á andlega en það kláraðist eins og allt annað. Loksins nú þegar maður er fastur inni í þessari sótthví er þetta bara allt orðið venjulegt. Í gær sá ég gamlar myndir frá karnival í Brasilíu og fannst absúrd að allt þetta fólk væri á einum og sama staðnum. Hvar var eiginlega ábyrgðin?

En hún var bara allt önnur hér áður fyrr og vonandi í lok næsta árs fer þetta að smella í gamla farið. Fólk sér fyrir sér að bóluefni muni laga allt á núll einni en staðreyndin er að þetta mun líklega taka lengri tíma en það. Stórfelldar ríkisaðgerðir eins og Bandaríkin settu af stað í seinna stríði eru barn síns tíma og í dag sér markaðshagkerfið um að framleiðsluna. Pfeiser ætlar að framleiða einn og hálfan milljarð skammta á næsta ára sem duga fyrir sex hundruð og fimmtíu milljón manns eða tæplega tíu prósent af öllum. Þetta mun hjálpa þeim sem þurfa mest á því að halda sem er mikilvægast en einhvern veginn hélt ég að þetta yrði krafmeira framtak. Sjáum samt til hvað setur. Í fyrrdaga voru fréttir um annað og enn betra bóluefni. Í vikunni þar á undan voru fréttir af nýrri veiru í dönskum minnkabúum. Maður veit sem sagt aldrei hvað gerist. Vonum bara að danskir minnkar fari ekki að eyðileggja næsta ár á sama hátt og kínverskar leðurblökur hafa eyðilegt þetta.    

Hvað sem því líður þá reikna ég með að þurfa sitja í nokkra mánuði í viðbót við borðstofuborðið og ekki verður vöfðabólgan betri af því.

Latest posts by Einar Leif Nielsen (see all)

Einar Leif Nielsen skrifar

Einar Leif hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2008.