Drusla þakkar fyrir sig

Að ganga með vinum niður Skólavörðustíginn sem var fullur af fólki í baráttuhug er einhver fallegsta stund sem ég hef upplifað í íslensku samfélagi. Þetta voru ekki mótmæli þar sem þras um núverandi ástand var yfirskriftin. Nei þetta var bylting, bylting á hugarfari og bylting á samfélagi. Saman í göngunni voru börn, konur og menn, já fullt af karlmönnum.

Fyrir nokkrum árum síðan tók vinur minn þátt í göngu gegn kynbudnu ofbeldi og hann var spurður stanslaust hvort hann væri á leið í framboð. Hann skildi lítið í því og fattaði svo að fólk kveikti ekki á því að þótt hann sé karlmaður þá kemur kynbundið ofbeldi honum við. Hann benti þeim réttilega á að hann ætti systur, móður, vinkonur, frænkur og nú í dag á hann dóttur. Átti þetta ekki að koma honum við?

Á laugardaginn sá ég í fyrsta sinn með berum augum hvað íslenskt samfélag hefur breyst. Allt í kringum mig sá ég karlmenn unga sem aldna, tilbúna að kalla sig druslur og berjast við hlið kvenna gegn ofbeldinu sem er að eiga sér stað alla daga. Þetta var talið óeðlilegt og talið líklegt að tilgangur karlmanna í svona átaki væri einmitt sá að ná pólitískum frama. Í dag er raunin önnur. Í dag erum við saman í þessarri baráttu gegn fólki sem hefur sýkt samfélagið okkar með ofbeldi. Við stöndum upp og segjum að það eru þið sem eigið að bera skuldina, það eru þið sem eigið að vera með sárin á sálinni, ekki þeir sem þurfa að þola ofbeldið ykkar.

Það sem við erum að átta okkur á er „Kynbundið ofbeldi er ekki persónulegur harmleikur, stakar uppákomur eða óheppni. Það bitnar vissulega á einstaklingum – af öllum kynjum – en það er fyrst og fremst samfélagslegt mein.“ Þetta árétti Sóley Tómasdóttir á laugardaginn í stórkostlegri ræðu, og ég vona að við séum öll að fatta þetta. Þetta er ekki einkamál kvenna, þetta er allra að takast á við. Það er eina leiðin til að binda enda á ofbeldið.

Ég hef trú eftir þessa göngu á laugardaginn að það sé von að við getum útrýmt ofbeldinu. En stjórnvöld þurfa vissulega að koma með miklu meiri ákafa inn í þá baráttu. Þessi málaflokkur hefur svo sannarlega ekki fengið að vera nógu áberandi í pólitík á Íslandi því það er af mörgum ekki talið vera alvöru mál, þetta eru ekki fjármál, utanríkismál eða eitthvað af þessum týpísku þrætueplum. Ég hef sjálf fengið þetta svar þegar ég vildi ræða um þessi mál á vettvangi stjórnmálanna. Þetta mál er ekki einkamál vinstri sinnaðra feminista. Þetta er mál allra, hægri, vinstri, feminista og þeirra sem eru það ekki. Því í heimi þar sem ein af hverjum þrem konum verður fyrir kynbundnu ofbeldi þá er þetta eitthvað sem kemur öllum við. Í dag ber ég von að stjórnmálamenn standi upp og berjist gegn samfélagsmeini sem á aldrei að vera til, neins staðar í heiminum.

Mig langar að þakka íslensku samfélagi fyrir að standa upp og skella skuldinni heim, mig langar að þakka þeim hugrökku sem hafa opnað sig og reynt að eyða þögguninni með því að segja sögu sína, mig langar að þakka þeim sem hugsuðu fyrir nokkrum árum síðan „við skulum skipuleggja Druslugöngu“ og ég vil þakka öllum þeim sem á undan mér komu og börðust fyrir okkur.

Takk.

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.