Ísland best í heimi!

Í dag þarf ég að skrifa pistil og því miður er bara eitt umræðuefni sem kemur til greina, verkföll. Hver vill eiginlega að skrifa um það. Komm on! Það er nýkomið sumar og veturinn var hræðilegur. Getum við ekki bara lokað augunum, troðið puttunum inn í eyrun og vonað að allt reddist. Hefur það ekki verið þjóðarmóttóið hingað til?

Því miður þá sýnist mér að það muni ekki virka í þetta sinn. Við þurfum víst að horfast í augun við þá ömurlegu staðreynd að það er allt í djöfulsins fokki. Á öðrum endanum eru atvinnurekendur, sem vilja meina að ekki sé hægt að hækka laun því þá mæti verðbólgudraugurinn á svæðið, en hinu megin eru launþegar, sem segja að geti enginn lifað af þessum tittlingaskít sem er í boði. Á meðan stendur ríkisstjórnin á hliðarlínunni og segir að þetta komi sér ekkert við, nema þegar það þarf að setja lög.

Við getum rakið allt þetta rugl aftur að hruninu þegar kaupmáttur lækkaði tasvert. Sumir vilja meina að það geti ekki verið, hrunið er að baki. Ég vil benda þeim aðilum að fara út í banka og kaupa sér nokkrar evrur. Mér sýnist nefnilega, og þetta er bara mín persónulega skoðun, að fyrirtækjakúltúr Íslands hafi breyst með hruninu og jafnvel eitthvað fyrr, hver veit.

Staðreyndin er sú að stanslaust er verið að birta fréttir um ótrúlegan hagvöxt á Íslandi en gallinn er að flest okkar finna ekkert fyrir þessu nýja góðæri. Því fyrirtækjarekstur er ekki lengur hópefli heldur einstaklingsíþrótt. Þegar vel árar er einungis hækkuð laun hjá toppunum á meðan restin má éta það sem úti frýs og vera þakklát fyrir að hafa vinnu. Nærtækt dæmi er hækkun stjórnalauna hjá HB Granda.

Sjálfur vann ég hjá fyrirtæki sem rak 90 manns árið sem það veitti forstjóranum 4,9 milljón króna launahækkun. Það eru rúmlega 400 þúsund krónur á mánuði, hefði ekki verið nær að reka bara 89? Þið getið rétt ímyndað ykkur hvert metnaðurinn fór eftir þá framkomu.

Því miður virðist þetta sjónarmið vera ríkjandi í heiminum. Hinn almenni starfsmaður skiptir engu máli og ef hann er með skæting þá fær sá sami huggulega skrifað uppsagnabréf í pósti. Þannig að það er svo sem ekki skrítið að verkföll séu yfirvofandi og þegar þeim líkur þá mun verðbólgan aukast. Það er bara staðreynd. Launahækkanir almennra starfsmanna virðast alltaf leiða þessa en þegar stjórnendur fá meira í vasann þá er öllum bara sama, enda eru þeir miklu færri.

Hvað er hægt að gera? Kannski væri hægt að spyrja ríkistjórnina en þau virðast vera of upptekin að pússa fílabeinsturnana sína og skilja ekkert hvað er að gerast. Mér skilst að það sé næga vinnu að finna í Noregi og veðrið þar er meira að segja betra.

Sjáumst annars í slyddunni og gleðilegt fokking sumar.

Latest posts by Einar Leif Nielsen (see all)

Einar Leif Nielsen skrifar

Einar Leif hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2008.