Frú forseti

Obama mun láta af forsetaembætti á næsta ári eftir frekar tilkomulitla átta ára valdatíð. Miklar væntingar voru gerðar til hans í upphafi valdatímabilsins sem honum hefur ekki tekist að standa undir. Þrátt fyrir þennan dóm virðist honum vera að takast nú rétt undir blálok forsetatíðar sinnar að skilja eftir sig ógleymanlega arfleifð, sem alla forseta dreymir um, að minnsta kosti samkvæmt F. Underwood í „House of Cards“, fyrir utan hið augljósa að vera fyrsti þeldökki forseti Bandaríkjanna. Það hefði verið sterkur leikur að loka Guantanamo eins og hann lagði upp með en af því virðist ekki ætla að verða. Obama verður væntanlega minnst fyrir það að aflétta rúmlega hálfrar aldar viðskiptabanni Bandaríkjanna við Kúbu sem hlýtur að teljast meiriháttar afrek og flott arfleifð fyrir hann að skilja eftir sig.

Eftir átta ára valdatíð Demókrata þá hefði maður haldið að Repúblikanarnir væru klárir með sitt næsta forsetaefni en þeim hefur ekki enn tekist að finna sigurstranglegan kandídat og allt virðist stefna í að þeir tefli fram þriðja runnanum, Jeb Bush. Þannig að allar líkur á að það verði aftur Demókrati í Hvíta húsinu en enginn hefðbundinn demókrati heldur Clinton, Hillary Clinton með fyrrverandi forsetann Bill Clinton sér við hlið. Hver hefði geta séð þetta fyrir eftir Monicu Lewinsky hneykslið á sínum tíma? Þegar forsetinn gerði heiðarlega tilraun til að breyta skilgreiningunni á kynlífi og sagði þessa ógleymanlegu setningu „I did not have sex with that women“ án þess að farið sé nánar út í það „smáatriði“. Það getur hins vegar varla verið tilviljun nú 16 árum seinna að Monica Lewinsky sé að skjóta upp kollinum vegna TED fyrirlesturs sem hún hélt nýverið. Það læðist að manni sá grunur að nú eigi að reyna að grafa undan forsetaframbjóðandanum með því að draga upp þetta gamla mál en það þarf eflaust meira til að fella Hillary.

Konan er búin að standa ansi margt af sér, Lewinsky málið var eitt, annað er að hafa verið 60 ára og tilbúin til að taka við forsetaembættinu og tapa útnefningunni og þurfa svo að bíða í 8 ár til að eiga annan séns í forsetann. Nú virðist hins vegar fátt geta komið í veg fyrir að hún hljóti útnefningu Demókrata á flokksþingi þeirra á næsta ári. Flestir á hennar aldri væru nú eflaust farnir að huga að einhverju öðru en Hillary sem er 67 ára er á hátindi feril síns ekki ólíkt öðrum valdamestu konum heims s.s. Angelu Merkel Þýskalandskanslara, Jannet Yellen seðlabankastjóra Bandaríkjanna og Christine Lagarde hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hillary var forsetafrú eins og þekkt er, öldungardeildarþingmaður, forsetaframbjóðandi 2008, utanríkisráðherra og nú aftur forsetaframbjóðandi. Það vantar ekki metnaðinn og baráttuviljann hjá konunni. Hillary hefur barist fyrir mannréttindum; m.a. fyrir breytingum á fóstureyðingarlögjöfinni, jafnrétti kynjanna, réttindum samkynhneigðra ásamt því að leyfa marjuana í lækningarskyni. Það verður áhugavert að fylgjast með þróun kosningabaráttunar sérstaklega þar sem að það eru miklar líkur á því að í fyrsta sinn í sögu Bandaríkjanna verði Frú forseti.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.