Hefur Akureyrarbær heyrt um evrópska efnahagssvæðið?

Seinustu sumur hafa Strætisvagnar Akureyrar (SVA) skorið hressilega niður þjónustu sína yfir sumartímann oftast með þeirri afsökun að ekki hafi fengist fólk til sumarafleysinga. Allt meiraprófsliðið sé að keyra túrista og enginn vill keyra strætó. Í ár á þannig að hætta akstri í heilan mánuð.

Ef maður leitar að „Sumarafleysingar SVA“ finnur maður engar síður þar sem verið er að auglýsa eftir sumarafleysingum hjá SVA en nóg af fréttum þar sem skortur af umsóknum um slíkar afleysingar er notaður til að réttlæta skerta þjónustu. Hafi menn virkilega leitað að fólki til að keyra strætó á Akureyri yfir sumartímann þá hefur það í það minnsta farið fram hjá helstu leitarvélum þessa heims.

En segjum nú að þetta sé satt, menn hafi virkilega leitað stíft, auglýst á prenti, hringt í vini og kunningja og alls staðar sama svarið: „Nei, ekki áhuga. Keyri túrista, fæ meiri pening þannig.“ Það er tvennt í þessu. Ef aðrir borga meira fyrir að keyra rútur á sumrin á þá er markaðsverðið fyrir bílstjóra einfaldlega meira á sumrin en veturna og það verða þeir sem reka almenningssamgöngur einfaldlega að taka með í reikninginn og borga eftir því. En í öðru lagi þá er Ísland hluti af evrópska efnahagssvæðinu og lítið mál ætti að vera að finna 9-10 manns með meirapróf í álfu þar sem atvinnuleysi er víða umtalsvert.

Ef einhver hefur farið til Kanaríeyja, gist þar á hóteli og étið á veitingastöðum þá eru miklar líkur á því að þeir sem þrífi herbergið þeirra og beri mat þeirra á borð séu einnig ferðamenn. Það er heilmikið af ungu fólki í Evrópu sem fjármagnar ferðamennsku með tímabundnum þjónustustörfum á þeim stöðum sem það vill ferðast til. Mánaðarlöng strætókeyrsla er fyrirtaksdæmi um eitthvað svoleiðis. Maður kemur í 6 vikur leigir út sína íbúð, finnur sambærilega íbúð á Akureyri, vinnur í fjórar vikur og skoðar hvali í tvær.

En þá segir einhver „en þarf fólk ekki að kunna íslensku“ og „þekkja til“. Jú, auðvitað væri það betra. En ég kýs samt bílstjóra sem kann bara ensku fram yfir engan strætó, og það myndu allir farþegar gera.

Afsökunin gengur ekki upp. Heimurinn er fullur af fólki sem kann að keyra stóra bíla og þeir eru ekki ALLIR uppteknir. En hvers vegna auglýsa íslensk strætósamlög þá ekki erlendis? Það má vera að þeim hafi bara ekki dottið það í hug. Þessari hugmynd er hér með komið að og fyrst að 6 vikur eru þangað til að hætta á akstri á Akureyri þá er enn nægur tími til að auglýsa í Evrópu og redda þannig málunum.

Kannski að einhverjir „óttist“ að ef við finnum einhvern sem er til í að keyra strætó á sumrin hvort sá sami verði ekki líka til í að keyra hann á veturna. Ég held reyndar að það mundi ekki gerast. En jafnvel ef það gerðist þá væri það ekki næg ástæða til að fella niður akstur í nokkra mánuði til að koma í veg fyrir það. Hlutverk almenningsamgangna er að koma fólki á milli staða. Önnur hlutverk, eins og þau að tryggja mönnum með ákveðin réttindi störf þegar lítið er að gera annars staðar eiga að skipta minna máli.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.