Hvenær eru ofsóknir í lagi?

Velmegun og mannréttindi eru forréttindi okkar Íslendinga í samanburði við flestar aðrar þjóðir. Nær hvergi njóta svonefndir minnihlutahópar ríkari verndar en hér á landi. Þetta er staðreynd, þótt vissulega megi alltaf gera betur og við eigum hverju sinni að horfa gagnrýnum augum í eigin barm. Því fer víðs fjarri að velmegun og mannréttindi séu hluti af daglegu lífi annarra jarðarbúa.

Nýlegir atburðir í Bandaríkjunum hafa varpað ljósi á skakka samfélagsstöðu svartra þar í landi. Lögregluofbeldi er með öllu ólíðandi og svartur blettur á hvaða samfélagi sem í hlut á. Þegar slíkir atburðir í opnu og lýðræðislegu samfélagi láta viðbrögðin ekki á standa og það er styrkur slíkra samfélaga. Hið opinbera misbeitir valdi sínu, frjálsir fjölmiðlar greina frá því, fólk sem nýtur tjáningarfrelsis tjáir sig um málin og beinir spjótum sínum að þeim sem ábyrgð bera. Þeir þurfa svo að standa fyrir máli sínu, annað hvort fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstólum, eða gagnvart kjósendum þar sem um pólitíska ábyrgð er að ræða.

En svona er þessu ekki nærri alls staðar farið. Víða um heim eru ofsóknir og ofbeldi af hálfu stjórnvalda daglegt brauð og fæst af því kemur nokkurn tímann til okkar vitundar eða ratar í fréttir. Engir frjálsir fjölmiðlar eru til að segja frá og þeir sem andæfa hætta með því í lífi sínu. Þetta er veruleiki margra jarðarbúa, alltof margra. Ofbeldi og ofsóknir fá helst þrifist til lengdar þar sem vald hins opinbera er algert og frelsi einstaklingsins lítið sem ekkert.

Ofsóknir beinast oftar en ekki að minnihlutahópum. Þannig er samkynhneigð sem slík glæpur í 70 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna. Það eitt og sér er sturluð staðreynd og undirstrikar betur en margt annað við hvað er að eiga. Kristnir eru annar hópur sem víða sætir ofsóknum. Í ákveðnum heimshlutum er skipulega vegið að kristnum minnihlutahópum, þeim bannað að iðka trú sinna, þeir hraktir frá heimilum sínum, sviptir frelsi og myrtir í sumum tilvikum.

Stundum er því haldið fram að kristnir hópar í þessum heimshlutum njóti ákveðinnar forréttindastöðu, þeir séu í valdastöðu í krafti þess að þeir séu betur stæðir en aðrir trúarhópar. Það er nöturlegt til þess að hugsa að fólk telji að ekki sé um að ræða ofsóknir þegar farið er gegn þjóðfélagshópum sem eru vel efnahagslega settir. Það var jú ein meginástæða þeirra ofsókna sem evrópskir gyðingar sættu á fyrri hluta síðustu aldar.

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.