Í fínu lagi með forsetann

Guðni Th. Jóhannesson var í dag endurkjörinn forseti Íslands með miklum yfirburðum. Þótt endanlegar tölur liggi ekki fyrir þegar þessi orð eru skrifuð þá er ljóst að sigur Guðna er mjög afgerandi. Ef ekkert óvænt kemur til þá er líka ljóst að Guðni mun sitja sem forseti Íslands svo lengi sem hann sækist eftir því. Það er í fínu lagi.

Ég hef átt þess kost að fylgjast nokkuð náið með störfum Guðna undanfarin ár, einkum embættisverkum hans á erlendri grundu. Þótt Guðni verði seint talinn fágaður í diplómatískum skilningi þá er hann íslensku þjóðinni til sóma hvar sem hann kemur. Hann tekur hlutverk sitt alvarlega, undirbýr sig vel og er vandvirkur. Hann er einlægur í besta skilningi þess orðs og það kemur viðmælendum hans mögulega oftar en ekki á óvart, enda margir úr þeirri kreðsu eflaust vanari hinu gagnstæða.

Auðvitað er eitt og annað sem telja má að betur hefði mátt fara á fyrsta kjörtímabili Guðna í embætti og hann er ekki frekar en aðrir hafinn yfir gagnrýni. Mestu skiptir þó að þegar mest á reynir má treysta því að hann tekur réttar ákvarðanir, af réttsýni, skynsemi og yfirvegun. Stundum er erfiðast í stöðu þjóðhöfðingja að gera ekki neitt, nokkuð sem haft hefur verið eftir Elísabetu Englandsdrottningu en var einnig áberandi styrkur Vigdísar Finnbogadóttur sem forseta, eins og fjallað var um Deiglupistli fyrr á þessu ári.

Forsetaembættið er ekki bráðnauðsynlegt í okkar þingræðisríki. Það er því eðlilegt að upp komi umræða um að leggja það af. Málskotsrétturinn er af mörgum talinn tilvistarástæða embættisins en sagan sýnir að honum er hægt að misbeita, eins og fjallað var um í Deiglupistli fyrir réttum sextán árum. Sú staðreynd að embættið er ekki nauðsynlegt veldur því að forseti á hverjum tíma ber ábyrgð á því að finna jafnvægi sem tryggir tilvist þess, ekki ósvipað því sem gengur og gerist með konungsveldi í þingræðisríkjum. Guðni Th. Jóhannesson virðist gera sér grein fyrir þessu og það mótar í flestu hans embættisfærslu.

Það er þess vegna í fínu lagi að samleið Guðna og þjóðarinnar haldi áfram.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.