Flíspeysur á fótboltamóti

Þegar ekið er framhjá íþróttasvæðum landsins að sumri til má gjarnan sjá hóp af flíspeysuklæddu fólki standa í kulda og næðingi í stórum hópum á hliðarlínum fótboltavalla til að fylgjast með börnunum sínum spila fótbolta. Þetta eru að öllum líkindum úthverfaforeldrar að sinna einum af þeim skyldum sem óvarðar samfarir og afleiðingar þeirra, barneignir, leggja á fólk, nefnilega að fara með umrædd börn á hvert einasta íþróttamót sem liðið tekur þátt í.

Fyrir þá sem ekki þekkja til þessa fyrirbæris er rétt að hafa uppi nokkur varnaðarorð strax í byrjun. Það er enginn töff á fótboltamóti. Eða besta útgáfan af sjálfum sér. Það er enginn að taka selfie af sjálfum sér eftir 3 daga vist á fótboltamóti og pósta á miðlana með texta á borð við: „mér fannst ég bara líta svo vel út í dag“.

Kunnugleg andlit

Það verður þó ekki af þeim tekið að maður rekst á mörg kunnugleg andlit. Á fótboltamótum hittir maður aðra foreldra. Þetta er í raun djammið fyrir 20 árum. Pabbarnir eru með kassann úti rétt eins og Hverfisbarnum í gamla daga, nema nú fá þeir útrás á einhverju vesalings dómarabarni sem langar alls ekki að vera þarna. Mömmurnar eru líka komnar í gallann og málaðar, rétt eins og í gamla daga, nema að nú er gallinn Goretex-alklæðnaður og andlitið málað í liðslitunum.

Eins og í öllu öðru þá hefur okkar kynslóð gefið verulega eftir hér. Við höfum tekið á okkur alls konar skyldur og kvaðir sem kynslóð foreldra okkar hefði aldrei tekið í mál. Ofþjónustan gagnvart blessuðum börnunum er alger. Það er af sem áður var þegar foreldrar mínir réttu mér 1000 kall fyrir helgarferð í Borgarnes og óskuðu mér góðs gengis í hvaða íþrótt það var nú sem ég æfði.

Vatnsbrúsateymið

Nútímaútgáfan af þessu er að ca. fjórum vikum fyrir hvert einasta mót, sem börnin fara á, er haldinn undirbúningsfundur, gefin er út handbók sem er a.m.k. 30 bls., liðsstjóravaktir eru skipulagðar, sem og nestis-teymi og annað teymi sem tryggir að það séu vatnsbrúsar klárir og fylgi örugglega liðinu á öllum völlunum sem það spilar á. Guð forði okkur nú frá því að börnin þurfi að taka með sér vatnsbrúsa sjálf. Eða að þau verði þyrst í nokkrar mínútur og þurfi kannski að finna út úr því sjálf hvernig það yrði leyst.

Það er oftar en ekki heilmikill strúktúr á kerfi hópstjóra, liðsstjóra og gististjóra. Hvert teymi starfrækir sérstakan spjallþráð með mikið af þumlum og brosköllum. Mistök eru illa séð. Að gleyma vatnsbrúsunum á velli 10, þegar liðið er að spila á velli 35, getur þýtt nokkur passív agressív skilaboð um að það sé mikilvægt að krakkarnir drekki vel. Jafnvel að sendur sé linkur á grein á netinu um vökvabúskap barna og mögulega eitt hjarta með.

Ólíkar týpur

Foreldrar nálgast sitt hlutverk á hliðarlínunni með misjöfnum hætti. Þó eru nokkrar týpur vel þekktar og dúkka alltaf upp. Það er náttúrulega agressívi pabbinn sem stjórnar barninu sínu af hliðarlínunni nánast allan leikinn, skipar því hvert eigi að hlaupa, hvenær eigi að skjóta og hvernig eigi að fara í öll návígi. Af og til tekur hann sér stutt hlé frá fjarstýringunni, snýr sér að næsta foreldri, baðar út höndunum og spyr hvað sé eiginlega í gangi með þessa spilamennsku hjá liðinu. Eins og maðurinn við hliðina á honum sé með svarið við því. Svo er foreldrið sem er með allt á hreinu, einhvers konar king-spider í öllum spjallþráðunum og stjórnsýslu í kringum vatnsbrúsa, nestismál og búninga liðsins, veit upp á hár hve mörg Corny og Trópí eru eftir í sameiginlegu nestisbirgðunum og að lið 3 hefur borðað meira af Gifflar kanelsnúðum en gert var ráð fyrir. Svo auðvitað líka haugurinn sem mætir of seint og gleymdi sokkunum á barnið. Og skónum. En er einhvern veginn ekkert voðalega stressaður yfir því. Ég hef mikið óskað þess að tileinka mér það sen í mitt líf.

Kaffi, grillaðar samlokur og Svalar

Ef ég gæti gert eitthvað öðruvísi eftir á að hyggja þá myndi ég vilja halda utan um hve miklu ég hef eytt samtals í gegnum árin í kaffi, Svala og grillaðar samlokur á hinum ýmsu stöðum í kringum landið. Ekki að ég sjái eftir því, enda tek ég ofan fyrir þessum foreldrahetjum sem standa vaktina í sjoppunum og selja mér kaffibolla sem hluta af fjáröflun fyrir einhvern flokkinn. En ég held að þetta hlaupi allavega á nokkur hundruð þúsundum, ef ekki milljónum.

Talandi um fjárhag þá þarf að safna styrkjum til að þessi mót geti orðið að veruleika. Auglýsingargildið er oft óljóst en maður skyldi þó ekki vanmeta að t.d. Steinullarmótið á Sauðárkróki geti ekki rifið upp söluna á steinull. Spurning hvort það ætti ekki að vera þegnskylda fyrir foreldra að kaupa smá steinull á bakaleiðinni sem þakklætisvott til fyrirtækisins fyrir að sýna þessa viðleitni.

Styrkir

Liðin sjálf eru líka styrkt. Þar er ekki leitað langt yfir skammt og allajafna má sjá úrval þeirra fyrirtækja sem foreldrarnir standa að koma fyrir á búningum barnanna. Það getur því verið heilmikil stúdía að kynna sér auglýsingar á liðsbúningum. Uppáhaldsauglýsingin mín var þegar ég sá lið eitt á Símamótinu um árið sem var með auglýsingu á framhlið búninganna frá einkahlutafélaginu S129 ehf. Ég reyndi að beina viðskiptum mínum til þess félags en átti erfitt með að hafa upp á því.

Áfram Grótta!

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.