Heimskt og illa innrætt fólk

Mönnum er tíðrætt um nauðsyn þess að bæta umræðuhefð hér á landi hvort sem um er að ræða Alþingi, fjölmiðla, samfélagsmiðla eða spjallið í kaffitímanum. Það væri ákveðið skref í þeirri viðleitni að færa umræðuna á hærra plan ef menn gætu sleppt því að ganga út frá því að aðrar eða ólíkar skoðanir en þeirra eigin jafngildi því að aðrir séu illa gefnir eða illa innrættir.

Það dregur úr vægi umræðunnar ef hún felur í sér að þeir sem aðhyllast ákveðna skoðun séu allir með tölu heimskir, geti ekki beitt rökhugsun eða að siðferði þeirra sé verra en annarra. Gengið er út frá því að allt sem einstaklingur aðhyllist eða trúir sé grundvallað á staðreyndum og öðru sem hönd er á festandi og að tilfinningar, reynsla eða annað geti aldrei verið hluti af því ferli að komast að niðurstöðu. Að mismunandi reynsluheimur, hagsmunamat og gildi geti ekki verið hluti af gagnrýnni hugsun.

Við búum í samfélagi manna sem verður ekki sett upp í óyggjandi formúlu og hin eina sanna niðurstaða fengin. Vissulega er það umræðunni til framdráttar að fólk byggi niðurstöður sínar á staðreyndum, reynslu eða öðru haldbæru en þegar allt kemur til alls eru flestar niðurstöður háðar gildismati að einhverju leyti.

Þegar kemur að stjórnmálaskoðunum er yfirleitt um að ræða hugsjónir og stefnu sem aðilar telja að stuðli að sem bestu samfélagi. Að ganga út frá því að þeir sem taka þátt í vissum stjórnmálaflokkum eða aðhyllast tilteknar stjórnmálastefnur geri það á einhverjum vafasömum forsendum er ekki til þess fallið að færa umræðuna á hærra plan. Gildismat okkar er mismunandi þar sem margir þættir hafa áhrif og sem betur fer búum við í samfélagi þar sem ólíkar stjórnmálaskoðanir eru leyfðar, það er hins vegar okkar að nýta það til góðs og skoða málin af alvöru frá mismunandi sjónarhornum.

Eins eru ástæður þess að fólk aðhyllist ákveðna trú eða jafnvel enga misjafnar. Trú eða trúleysi er að vissu leyti sannfæring sem hver og einn finnur hjá sjálfum sér og oftast er um að ræða tilfinningar, reynslu og staðreyndir sem leiða til þess að einstaklingur kemst að ákveðinni niðurstöðu. Þar sem enginn deilir nákvæmlega sömu tilfinningum og reynslu er eðlilegt að fólk komist að mismunandi niðurstöðum jafnvel þó það sé sammála um þær staðreyndir sem liggja til grundvallar.

Þegar taka á ákvarðanir sem snerta okkur sem samfélag þarf að taka umræðuna um hvaða niðurstaða sé best til þess fallin að ná því markmiði sem stefnt er að. Ef við gætum fært áhersluna frá þessum skotgrafar hernaði sem snýst um það að vinna umræðuna og sýna fram á að þeir sem eru á öndverðum meiði séu illa gefnir eða illa innrættir. Yfir í það að koma fram af auðmýkt, bera virðingu fyrir mismunandi skoðunum hvers annars og reyna að skilja hvað það er sem veldur því að við komumst að mismunandi niðurstöðu. Ættum við eflaust betri möguleika á því að eiga upplýsta umræðu, rýna betur í málin og komast niðurstöðum sem sætta ólíka skoðanir í stað þess að stuðla að sundrung og ósætti.

Latest posts by María Guðjónsdóttir (see all)

María Guðjónsdóttir skrifar

María hóf að skrifa í Deigluna í júlí 2008.